fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Uppnám í Bíó Paradís: 18 manns gengu út – Grátur og ekkasog ómuðu um salinn

Ari Brynjólfsson, Kristjón Kormákur Guðjónsson
Þriðjudaginn 4. september 2018 13:38

Mynd/Ragnar Freyr

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Átján manns gengu út úr bíósal á sýningu heimildarmyndarinnar Dominion í Bíó Paradís í gærkvöldi. Um er að ræða mynd sem fjallar um hvernig dýr eru notuð í fataiðnaði, til skemmtunar og dýraprófana í læknavísinda- lyfja- og snyrtivöruiðnaðinum, og hvernig dýr eru notuð til matvælaframleiðslu. Myndin verður aðeins sýnd einu sinni, en að sýningunni stóðu Samtök grænmetisæta á Íslandi og Vegan samtökin.

Valgerður Árnadóttir, framkvæmdarstjóri Samtaka grænmetisæta á Íslandi, segir í samtali við DV að það hafi tekið á tilfinningar margra að sjá hvernig farið sé með dýr bak við luktar dyr. „Það er mjög erfitt að horfa á þetta, það er ekki fyrir hvern sem er. Ég sjálf er mjög viðkvæm fyrir þessu og var að mestu frammi að ræða við þá sem gengu út,“ segir Valgerður.

Frítt var inn á sýninguna og voru rúmlega 200 manns á sýningunni, rúmur þriðjungur grænmetisætur eða vegan. Valgerður taldi 18 manns sem þoldu ekki meira og gengu út af myndinni. „Það eru mjög erfið atriði í myndinni, til dæmis hvernig farið er með svín og svo líka hvernig farið er með hunda í hundaræktun. Það skal þó taka fram að þeir sem gengu út þökkuðu okkur fyrir að sýna myndina, það er bara mjög erfitt að horfa á þetta.“

Frá Bíó Paradís í gærkvöldi. Mynd/Ragnar Freyr

Blaðamaður DV horfði á fyrrihluta myndarinnar. Óhætt er að segja að uppnám hafi verið í salnum og áhorfendur voru slegnir. Víða mátti heyra fólk sjúga upp í nefið, ekkasog og taka andköf þegar hryllingur dýraiðnaðarins birtist á tjaldinu í öllum sínum óhugnaði. Þegar blaðamaður yfirgaf salinn var myndin um hálfnuð. Á meðan blaðamaður og Valgerður tóku tal saman yfirgáfu nokkrar manneskjur salinn. Bauð Valgerður sumum tissjú til að þerra tárin og voru nokkrir gestir sem þáðu það boð.

Eins á Íslandi

Myndin er að mestu tekin upp í Ástralíu en Valgerður fullyrðir að sömu aðferðir séu við lýði á Íslandi. „Þetta er að gerast á Íslandi, sérstaklega svína- kjúklinga- og eggjaiðnaðurinn eins hér á landi og í myndinni. Mjólkuriðnaðurinn er að færast í þessa átt með stórum tæknivæddum búum. Þetta er svo sannarlega svona á Íslandi líka.“

Hún segir matvælaframleiðendur, hér á landi sem og annarsstaðar, treysta á að fólk viti ekki hvernig farið sé með dýr. „Matvælaiðnaðurinn vill ekki að við sjáum þetta, í staðinn sjáum við fallegar auglýsingar eins og þessi auglýsing fyrir Góðost sem er sýnd í sjónvarpinu. Þar erum við með hamingjusama kú og kálf, en þetta er alls ekki svona í raunveruleikanum. Við erum alin upp við að þetta sé falið,“ segir Valgerður. Nefnir hún sérstaklega brúneggjamálið svokallaða. „Þar var MAST búið að vera með eftirlit í níu ár, það gerðist ekkert fyrr en RÚV mætti með myndavélar og almenningur vissi hvað átti sér stað. Það er engin tilviljun að við fáum ekki aðgang að sláturhúsum, svínabúum og kjúklingabúum. Þeir vilja ekki að neinn sjái hvernig þetta er.“

Myndin er ekki sýnd í kvikmyndahúsum hér á landi fyrir utan þessa einu sýningu í gær. Hægt er að leigja myndina í gengum Vimeo fyrir rúmar 100 krónur.

Hér fyrir neðan má sjá stiklu myndarinnar:

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Í gær

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat

Réðst á dreng sem ætlaði að gera dyraat