„Þessir einstaklingar eru að sýna íþróttinni, mótinu, mótshöldurum og meðspilurum vanvirðingu með þessari hegðun. Enn verra finnst mér þegar foreldrar eru meðvirkir og leyfa eða jafnvel hvetja til þess háttar hegðunar.“
Þetta segir Sigurpáll Geir Sveinsson, PGA-golfkennari hjá Golfklúbbi Suðurnesja, í færslu á Facebook-síðu sinni. Pistilinn, sem ber yfirskriftina Aumingjavæðing og foreldravæl, skrifaði Sigurpáll eftir Íslandsmót unglinga í golfi sem fram fór í júnímánuði. Sigurpáll segir að flott golf hafi verið spilað á mótinu og frábær tilþrif sést. Sigurpáll gagnrýnir samt ákveðin atriði varðandi mótið.
„Það er tvennt sem er að pirra mig mikið. Það fengu hvorki fleiri né færri en 21 frávísun, mættu ekki eða bara hreinlega hættu í mótinu,“ segir Sigurpáll og bætir við að sumar frávísanirnar eigi sér eðlilegar skýringar; sumir hafi verið óheppnir og fengið frávísun, aðrir orðið veikir eða meiðst.
„…en ég veit að það eru þarna einstaklingar sem hreinlega hættu vegna þess að það gekk ílla eða þeim var kalt og bara nenntu þessu ekki,“ segir Sigurpáll sem gagnrýnir þetta harðlega.
„Þessir einstaklingar eru að sýna íþróttinni, mótinu, mótshöldurum og meðspilurum vanvirðingu með þessari hegðun. Enn verra finnst mér þegar foreldrar eru meðvirkir og leyfa eða jafnvel hvetja til þess háttar hegðun.“
Sigurpáll bendir á að kollegi hans hafi hætt í golfmóti á Eimskipsmótaröðinni fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið hafi hann farið fyrir aganefnd og fengið áminningu.
„Ég vona svo innilega að Golfsamband Íslands skoði listann af þeim sem hættu í mótinu og hafi samband við þá aðila. Mín skoðun er sú að þú þurfir að útvega læknisvottorð ef þú hættir í stærstu mótunum. Við megum ekki láta það viðgangast að gangi hlutirnir ekki upp sé bara í lagi að hætta og jafnvel á miðjum hring,“ segir Sigurpáll sem síðan gagnrýnir hegðun foreldra.
„Einnig fannst mér asnalegt að hlusta á foreldra taka hárblásarann á mótshaldara vegna þess að ekki var frestað vegna veðurs á laugardag. Vindurinn var 5-7 m/sek og það féllu 5-7 mm. af regni yfir daginn. Völlurinn var aldrei nálægt því að vera óleikhæfur og það var bara engin ástæða til að fresta.
Afsakið en það er bara dómgreindarleysi að halda öðru fram.Þetta er mín skoðun og kannski eitthvað sem margir hugsa en þora ekki að setja út í kosmósinn.“
Morgunblaðið fjallaði um pistil Sigurpáls í blaðinu í dag og í samtali við blaðið segir Sigurpáll að það sé ekki góð þróun ef kylfingar komast upp með að hætta í miðjum mótum og beri fyrir sig leiðinlegu veðri eða öðrum afsökunum. Minnir Sigurpáll á að foreldrar beri mikla ábyrgð á framferði ungu kylfinganna.