„Hugsið ykkur veruleikafirringuna og þá botnlausu græðgi sem hefur heltekið efri lög þessa samfélags,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmur er búinn að fá sig fullsaddan af ríflegum launahækkunum ríkisforstjóra og forstjóra íslenskra fyrirtækja og segir að það stefni í átök á íslenskum vinnumarkaði sem vart eiga sér fordæmi.
Vilhjálmur skrifaði pistil í gær sem vakti athygli víða en þar fór hann yfir launahækkanir fimmtán stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum, bæði opinberum og í einkageiranum. Þessir fimmtán stjórnendur hafa samtals fengið tæplega átta milljóna króna launahækkun á mánuði á undanförnum tólf mánuðum.
„Almennt verkafólk fékk níu þúsund króna launahækkun á sínum töxtum 1. maí og lágmarkslaun hækkuðu um 20 þúsund krónur. En hér koma þessir menn; ríkisforstjórar og forstöðumenn og forstjórar íslenskra fyrirtækja og taka sér launahækkanir sem nema frá 250 þúsund krónum og upp í 1,2 milljónir á mánuði. Þetta er sturlað og ég lýsi bara yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu ljósmæðra sem og launabaráttu fólks á hinum almenna vinnumarkaði,“ segir Vilhjálmur í samtali við DV.
Hér má sjá þær upplýsingar sem Vilhjálmur tók saman og birti á Facebook-síðu sinni í gær. Tölurnar taka til síðustu tólf mánaða:
• Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 1,2 milljónir á mánuði, mánaðarlaun 3,3 milljónir.
• Bankastjóri Landsbankans hækkaði um 1,2 milljónir á mánuði, mánaðarlaun 3,2
• Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1, milljón á mánuði, mánaðarlaun 5 milljónir.
• Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 8,6 milljónir.
• Forstjóri Isavia hækkaði um 632 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,1 milljón.
• Bæjarstjóri Kópavogs hækkaði um 612 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 2,5 milljónir.
• Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4 milljónir.
• Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3,7 milljónir.
• Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 360 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
• Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,2 milljónir.
• Forstjóri Hörpu hækkaði um 267 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,6 milljónir.
• Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 4,1 milljón.
• Sjónvarpsstjóri RÚV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
• Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 1,8 milljónir.
• Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur hækkaði um 156 þúsund á mánuði, mánaðarlaun 3 milljónir.
Kjarabarátta ljósmæðra hefur verið áberandi að undanförnu. Fjölmargar ljósmæður hafa sagt upp störfum að undanförnu og þá tekur yfirvinnubann gildi um miðjan þennan mánuð.
„Það dynja á okkur hér alvöru launahækkanir til efri laga samfélagsins á meðan að ljósmæður standa í stórræðum þessa stundina og virðist lítið vera hægt að gera þar,“ segir Vilhjálmur og gagnrýnir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra. „Hann kemur fram og talar um höfrungahlaup. Ég er alveg orðinn gapandi hissa á ummælum stjórnvalda í þessum málum er lúta að vinnumarkaðnum almennt því það heyrist hvorki hósti né stuna frá þessum ágætu mönnum um þessar gríðarlegu hækkanir í efri lögum þessa samfélags,“ segir Vilhjálmur og vísar í launahækkanirnar hér að ofan.
Í pistli sínum í gær vísaði Vilhjálmur á frétt Fréttablaðsins þar sem fram kom að launahækkun bankastjóra Landsbankans upp á 1,2 milljónir króna væri skilgreind sem hófleg.
„Já, launahækkun sem er ígildi lágmarkslauna fjögurra verkamanna er hófleg. Rétt að geta þess að forstjóri Landsvirkjunar fékk einnig launahækkun sem nam 1,2 milljón. Hugsið ykkur veruleikafirringuna og þá botnlausu græðgi sem hefur heltekið efri lög þessa samfélags,“ sagði Vilhjálmur og bætti við að hann væri ekki í vafa um að íslenskt verkafólk þurfi að búa sig undir hörðustu átök sem sést hafa á íslenskum vinnumarkaði í marga áratugi. Kjarasamningar þeirra renna út eftir 122 virka vinnudaga.
„Það liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins gráta sínum krókódílatárum eins og ætíð þegar samningar verkafólks eru lausir og segja ekkert svigrúm vera til launahækkana hjá atvinnulífinu. Það blasir einnig við að stjórnvöld virðast ekki ætla að gera neitt hvað varðar róttækar kerfisbreytingar þar sem hagsmunir almennings og lágtekjufólks verði hafðir að leiðarljósi og meðal annars tekið á okurvöxtum, verðtryggingu og húsnæðisliðurinn tekinn úr lögum um vexti og verðtryggingu.“
Vilhjálmur sagði augljóst að stjórnvöld ætluðu sér að hygla efri lögum samfélagsins þegar kemur að skattabreytingum. „Einnig er engan vilja að finna hjá stjórnvöldum til að taka stöðu með almenningi og skuldsettum heimilum gegn okurvöxtum, verðtryggingu og annarri ofurálagningu sem fjármálakerfið leggur á herðar almennings.“ Í ljósi alls þessa sé ekkert annað að gera að blása til „glerharðra verkfallsátaka“ í upphafi næsta árs.
„Það er morgunljóst að verkafólk ætlar ekki og mun ekki sætta sig við þetta óréttlæti, ójöfnuð og misskiptingu og því verður klárlega látið sverfa til stáls í komandi kjarasamningum. Við stjórnvöld og atvinnurekendur vil ég segja: það er eru einungis 123 virkir vinnudagar þar til kjarasamningar renna út og því er stundarglasið að tæmast svo forða megi verkfallsátökum sem ekki hafa sést á íslenskum vinnumarkaði áður.“