fbpx
Fréttir

Fermingardagur í skugga ógnar: Fangar á eigin heimili og fjölskyldan svefnlaus eftir stöðugar innrásir

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 21. apríl 2018 23:00

Vera Ólafsdóttir

„Núna á undanförnum tveimur dögum hefur þrisvar verið brotist inn í fjölbýlishús þar sem dóttir mín býr ásamt tveimur sonum sínum. Brotnar hafa verið bæði hurðir og gluggarúður. Gerandi hefur áður valdið skemmdum á hurðum og fleiru hjá dóttur minni og ítrekað hjá ættingjum sínum. Nú er þetta hins vegar daglegt og lögreglan hefur komið og sett hann inn, þá kannski yfir nótt eða dagpart, en sleppt honum án frekari íhlutana, svo sem frá heilbrigðiskerfinu. Lögreglan getur reyndar fylgst með honum fara frá lögreglustöðinni og til dóttur minnar til að brjótast aftur inn því heimili hennar er skáhalt á móti lögreglustöðinni við Hlemm og í beinni sjónlínu þaðan.“

Þetta og fleira skrifar kona ein í orðsendingu sinni til DV. Dóttir konunnar, Vera Ólafsdóttir, býr ásamt tveimur sonum sínum, 14 og 20 ára, í fjölbýlishúsi við Hlemm. Undanfarið hefur þessi þriggja manna fjölskylda búið við stöðug innbrot af hendi fyrrverandi heimilismanns sem er fíkill og á við geðræn vandamál að stríða. Ástandið er þannig að heimilisfólkið fær lítinn nætursvefn og ekki er hægt að skilja við íbúðina án þess að einhver sé heima, vegna hættunnar á innbroti og skemmdarverkum af hálfu mannsins. „Fyrir svo utan það að hann stelur öllu sem hann kemst í tæri við. Við erum fangar á eigin heimili,“ segir Vera Ólafsdóttir en hún féllst á að stíga fram og ræða þetta skelfilega ástand við DV í von um að úrbætur verði gerðar og fjölskyldan geti um frjálst höfuð strokið á eigin heimili.

Þessi ógnvaldur fjölskyldunnar er sonur fyrrverandi sambýlismanns Veru en með öllu óskyldur henni. „Við fluttum hingað fyrir rúmu ári en á gamla staðnum fékk hann stundum að gista hjá okkur. En það er ekki hægt að hafa mann á heimilinu sem er í neyslu þannig að hann varð að fara. Hann er það veikur að það er ekki hægt að ræða við hann. Hann er búinn að brjótast inn hjá okkur reglulega síðasta rúma árið. Fyrir tveimur mánuðum braut hann glerið í útihurðinni niðri, stakk hendinni inn og opnaði. Kom upp, ég var þá ein heima með yngri stráknum en sá eldri var að vinna. Ég heyri einhver læti, það er verið að sparka í hurðina að íbúðinni og akkúrat þegar ég kem að dyrunum opnast þær mjög harkalega og hurðin lendir á enninu á mér. Hann stendur þarna trylltur fyrir framan mig, ég var mjög reið, hann hljóp undan mér en sagði ekki neitt,“ segir Vera.

En hefur maðurinn sýnt fjölskyldunni aðra ógnandi hegðun eða ofbeldi en það að brjótast stöðugt inn og skemma? „Nei, hann hefur ekki lagt hendur á okkur. Hann brýtur og skemmir til að komast inn en síðan stendur hann bara og segir ekkert, trylltur til augnanna.“

Á síðustu tveimur sólarhringum braust hann þrisvar inn hjá Veru og sonum hennar. Eftir hvert innbrot er honum haldið í fangaklefa að virðist skemur en lögregla hefur heimild til, honum er sleppt aftur og ósköpin endurtaka sig – þannig gengur það stöðugt. Stundum er hann farinn af vettvangi þegar lögreglan kemur eftir að hann er búinn að skemma og brjótast inn. „Fyrir tveimur dögum náði löggan honum, hann var vistaður í fangaklefa en svo var honum sleppt og þá kemur hann strax aftur. Aftur byrjaður að sparka upp hurðinni, en þá hafði löggan fylgst með honum og þeir gripu hann,“ segir Vera.

Ættingjarnir hafa ekki reynt að fá hann sviptan sjálfræði

„Maður veit ekki hvað er orsök og hvað er afleiðing varðandi fíkniefnaneysluna og geðrænu vandamálin en maðurinn er mjög veikur,“ segir Vera og telur hann eiga heima á stofnun. Svipting sjálfræðis er úrræði sem hægt er að beita fullorðinn einstakling ef nánir ættingjar skrifa undir beiðni um slíkt og þannig er hægt að nauðungarvista fíkla og andlega veikt fólk sem er hættulegt sjálfu sér og öðrum. Að sögn Veru hafa ættingjar mannsins ekki sýnt slíka viðleitni. Móðir hans býr erlendis og svo virðist sem faðir hans og aðrir ættingjar hafi gefist upp á ástandinu.

„Hann hefur reyndar brotist inn hjá ömmu sinni nokkrum sinnum og verið handtekinn fyrir það. Hún segist hafa kært hann en ég veit ekki hvernig það fór.“

Þetta vekur upp spurningar hvers vegna kerfið grípur ekki inn í og tekur slíkan síbrotamann úr umferð. Nær óteljandi innbrot á heimili fólks ættu að kalla á fangelsisdóm en enn hefur maðurinn ekki verið dreginn fyrir dómstóla vegna þessa, því síður nauðungarvistaður á stofnun sem er það úrræði sem Vera telur að væri best. Móðir Veru segir í áðurnefndri orðsendingu sinni til DV:

„Þarna er um að ræða algert ábyrgðarleysi af hálfu heilbrigðis- og dómsmálayfirvalda, skilningsleysi og doða sem þarf að fjalla um í fjölmiðlum, kannski til að eitthvað verði gert í málum minna kæru afkomenda og annarra fjölskyldna.“

Vera segist einu sinni hafa haft samband við geðdeild Landspítalans í kjölfar þess að maðurinn var handtekinn eftir enn eitt umbrotið á heimili hennar: „Þeir sögðu mér að hringja í læknavaktina og tala við vakthafandi lækni, fá hann til að líta á hann niðri á lögreglustöð og sá læknir ætti síðan að ræða við héraðslækni um vistun á geðdeild. Þá hélt ég að loksins færi eitthvað að gerast – og við fengjum líka að vita hvenær hann færi út aftur. En svo gerðist ekkert, það kom ný vakt og enginn læknir mætir niður á stöð, en hann átti að líta á hann þegar runnið væri af manninum.“

Fermingardrengurinn ósofinn og skelfingu lostinn

Yngri sonur Veru verður fermdur á sunnudeginum. Á laugardeginum þegar Vera ræddi við DV var fjölskyldan vansvefta að undirbúa ferminguna en veislan verður haldin heima hjá móður Veru:

„Núna veit ég ekki hvern ég get fengið til að vera heima og passa íbúðina. Við getum ekki skilið hana eftir mannlausa því hann brýst stöðugt inn, eyðileggur og stelur því sem hann kemst yfir. Eldri sonur minn hefur þurft að taka sér frí úr vinnunni til að geta passað íbúðina. Þetta getur ekki gengið svona til lengdar. Hver á að vera hérna á meðan fermingunni stendur?“

Vera segir jafnframt að þetta ástand hafi mjög slæm sálræn áhrif á yngri son hennar sem er að fara að fermast. „Hann vakti eftir innbrotið í nótt og hefur ekkert sofið. Ástandið hérna er þannig að hér eru fjalir fyrir hurðunum sem viðgerðarmenn hafa fest upp. Ég veit ekki hvar kostnaðurinn af öllum þessum skemmdum á að lenda – á ég að borga þetta? Það finnst mér ekki réttlátt. Nágrannarnir vita auðvitað að þessi ósköp sem hér ganga á tengjast mér vegna þess að maðurinn var áður hluti af fjölskyldunni og hann er brjótast inn til okkar. Þetta er algjört neyðarástand.“

Vera vonast til þess að yfirvöld grípi inn í málið og taki manninn úr umferð. Ætla mætti að það væri hlutverk ákæruvaldsins að hafa þar frumkvæði, að ákæra manninn fyrir þessu brot.

Fjölskyldan hjálpast nú að gera fermingardaginn eins góðan og hægt er þó að öll séu þau vansvefta og miður sín eftir þessar stöðugu innrásir á heimili þeirra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af