fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Naustavör sagði upp leigusamningi Svövu sem er 89 ára gömul: „Ég ligg kannski en ekki í fyrsta höggi“

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 14. apríl 2018 09:00

Svava á að yfirgefa leiguíbúð sína hjá Naustavör ehf. í þessum mánuði. Hún fagnar 90 ára afmæli sínu í október á þessu ári.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þessi óvissa fer ekki vel í mig. Það kýs enginn að vera í hrakningum með húsnæði á þessum aldri,“ segir Svava Gunnlaugsdóttir, leigjandi í Boðaþingi í Kópavogi. Húsið er í eigu Naustavarar ehf. sem er félag í eigu Sjómannadagsráðs og er ætlað einstaklingum sem eru 60 ára eða eldri. DV fjallaði á dögunum um þá staðreynd að fimm leigutakar hefðu fengið bréf þess efnis að þeim væri gert að yfirgefa leiguíbúðir sínar fyrir 1. október næstkomandi. Þar á meðal er Svava, sem verður níræð í október á þessu ári. Staða hennar er þó enn verri því á meðan aðrir leigjendur þurfa að yfirgefa íbúðir sínar í haust þá átti Svava að yfirgefa húsnæðið sitt fyrir 1. apríl. „Ég fékk eins mánaðar frest því ég fór til útlanda til þess að vera viðstödd brúðkaup dóttursonar míns. Ég veit ekkert hvað tekur við,“ segir Svava.  Hún segir að vegna mistaka hafi hún í raun verið leigusamningslaus í mörg ár og að það hafi Naustavör nýtt sér til að henda henni fyrr á götuna en ella.

Fékk 570 þúsund krónur í skaðabætur

Upphaf málsins má rekja til deilna varðandi innheimtu húsaleigu sem hófust árið 2011. Naustavör á og leigir 95 íbúðir í Boðaþingi 22 og 24. Um árabil innheimti félagið húsaleigu að viðbættu sérstöku húsgjaldi. Húsgjaldið átti aðeins að fara í að greiða kostnað við rekstur sameignar húsanna en í ljós kom að ýmis annar kostnaður, meðal annars stjórnunarkostnaður, var greiddur með húsgjaldinu. Það fór illa í leigjendur sem kröfðust úrbóta.

Ekki náðist sátt í málinu milli deiluaðila. Það endaði með því að fjölmennur fundur íbúafélagsins ákvað að leita réttar síns fyrir dómstólum. Fimm stjórnarmenn fóru í mál fyrir hönd annarra félagsmanna og svo fór að þeir unnu málið í héraði. Niðurstaðan var sú að Naustavör bar að endurgreiða leigutökum sínum hundruð þúsunda króna á hverja íbúð.

„Ég fékk endurgreiddar um 570 þúsund krónur,“ segir Svava. Nokkrum dögum eftir að dómurinn féll þá var henni, eins og öðrum leigutökum, boðið að skrifa undir nýjan leigusamninginn. Þar kom fram að húsaleigan myndi hækka sem næmi húsgjaldinu ólöglega og að leigjendur yrðu að afsala sér skaðabótunum.

„Það gat enginn með sjálfsvirðingu skrifað undir slíkan samning,“ segir Svava. Skömmu síðar hafi starfsmaður Naustavarar haft samband og spurt hana hvort hún hefði lesið samninginn. „Ég sagðist ekki hafa lesið neitt enda væri ég með öllu sjónlaus,“ segir Svava. Nágranni hennar hafi þó lesið fyrir hana skilmálana og sagði hún að ekki kæmi til greina að skrifa undir. Þá fékk hún þau skilaboð frá starfsmanninum að samningnum yrði sagt upp og hún yrði að leita sér að öðru húsnæði. „Ég sagði henni þá að það myndi ekki gerast þegjandi og hljóðalaust,“ sagði Svava.

Valdbeiting og niðurlæging

Í fyrri frétt DV um málið lýsti Ólafur Guðmundsson, einn þeirra leigutaka Naustavarar ehf. sem neitaði að skrifa undir hinn nýja samning, að íbúar hafi upplifað mikla valdbeitingu og niðurlægingu. „Það vill enginn vera í húsnæðishrakningum á gamals aldri, að leita sér að nýrri íbúð til þess að leigja með tilheyrandi óvissu og raski. Það voru margir íbúar grátandi hérna á göngunum því fólk vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það er erfitt að sætta sig við að einhver hafi brotið á manni í mörg ár og þegar dómur er kveðinn upp þá hafi viðkomandi ekki meiri sómakennd en svo að hann hótar manni húsnæðismissi nema maður skrifi undir skjal þar sem maður afsalar sér skaðabótunum. Þetta er ekkert annað en fjárkúgun,“ sagði Ólafur. Hann og eiginkona hans, Súsanna O. Jónmundsdóttir, hafi haft of ríka réttlætiskennd og neitað að skrifa undir þennan viðauka við leigusamninginn, líkt og Svava.

Ólafur og Súsanna eru í hópi þeirra sem neituðu að skrifa undir nýjan leigusamning og afsala sér skaðabótum. Þau þurfa að yfirgefa íbúð sína fyrir 1.október næstkomandi.

 

Eins og áður segir er staða Svövu verst af þeim sem senn missa húsnæði sitt. Hún flutti upphaflega inn í Boðaþing 24 árið 2012 en nokkru síðar skipti hún um íbúð og fluttist yfir í hús númer 22. „Ég vildi fá meira sólarljós inn til mín,“ segir Svava. Aldrei var gerður við hana nýr leigusamningur vegna flutningsins. „Það uppgötvaðist bara nýlega þegar hringt var í dóttur mína og hún spurð af hverju ég væri ekki að sækja um húsaleigubætur,“ segir Svava. Auk þess að hafa verið snuðuð um húsaleigubætur þá nýtir Naustavör ehf. nú þá staðreynd að hún sé samningslaus til þess að henda henni fyrr úr íbúð sinni.

Liggur ekki í fyrsta höggi

Þrátt fyrir óréttlætið og óvissuna sem yfir henni vofir þá ber Svava sig nokkuð vel. Hún getur ekki treyst á aðstoð fjölskyldu sinnar í þessum hremmingum en dóttir hennar býr erlendis og dóttursonur hennar, sem er henni afar kær, býr í Malasíu. „Dóttir mín er sjálf ellilífeyrisþegi,“ segir hún og skellihlær. Dóttursonur hennar kvæntist í Malasíu í marsmánuði og bað hana um að vera viðstadda brúðkaup. „Ég samþykkti það strax. Ég sagðist hafa neitað honum einu sinni og myndi aldrei gera það aftur,“ segir Svava. Hún var afar ánægð með ferðina sem reyndi þó afar mikið á hana.

Hún segist hafa sagt dóttursyni sínum frá hremmingunum þó að hún hafi ekki viljað varpa skugga á hátíðarhöldin. „Hann vildi að ég yrði bara eftir hjá sér og það gæti vel verið að ég fari bara aftur til hans. Ég kunni ágætlega við mig í Kúala Lúmpúr,“ segir Svava.

Það eru því ekki aðrir fjölskyldumeðlimir hérlendis til að hjálpa henni í yfirvofandi flutningum. Það er þó engan bilbug að finna á Svövu. „Fyrir mörgum árum var ég afar hrifin af manni. Hann var heljarmenni að burðum og þess vegna voru strákarnir í sveitinni alltaf að reyna að slást við hann. Hann sagði þá hlýlega við þá að kannski myndi hann liggja, en það yrði ekki í fyrsta höggi. Ég ætla að gera hans orð að mínum. Ég ligg kannski, en ekki í fyrsta höggi,“ segir Svava.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni

Ósátt við myndatöku af hnúajárni og „neyslupokum“ en fær hvorki bætur né afslátt af húsaleigunni
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“

Alræmdur glæpamaður laus undan bagga fortíðar í augum dómara -„Ég skal berja og lemja þig alveg eins og harðfisk“
Fréttir
Í gær

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“

„Grípa margir til þeirra örþrifaráða að flýta fyrir eigin dauða“
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla

Hrikaleg líkamsárás í Síðumúla
Fréttir
Í gær

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks
Fréttir
Í gær

Vilja sporna gegn því að fullorðnir einstaklingar nýti sér glufur í lögum til að hafa samræði við börn

Vilja sporna gegn því að fullorðnir einstaklingar nýti sér glufur í lögum til að hafa samræði við börn
Fréttir
Í gær

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“