fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Eldri borgurum sagt upp leigusamningi: „Þetta er hefndaraðgerð“

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 30. mars 2018 20:00

Ólafur ásamt Súsönnu, eiginkonu sinni. Hann hefur orðið fyrir vonbrigðum með kjörna fulltrúa varðandi deilurnar í Boðaþingi. Hann og Súsanna ætla að berjast af krafti gegn „níðingsskap“ Naustavarar ehf.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hluti þeirra leigutaka sem var sagt upp leigusamningi fundaði með blaðamanni DV í vikunni.
Fundað. Hluti þeirra leigutaka sem sagt var upp leigusamningi funduðu í vikunni vegna málsins.

„Þetta er hefndaraðgerð. Þessir aðilar eru dæmdir þjófar og þurftu að endurgreiða okkur háa fjárhæð vegna þess að þeir innheimtu gjald í áraraðir sem okkur bar ekki að greiða. Síðan ætla þeir að halda þjófnaðinum áfram með uppfærðum leigusamningi og henda þeim út sem ekki skrifa undir. Þeir rændu ekki bara peningunum okkar heldur líka áhyggjulausu ævikvöldi,“ segir Ólafur Guðmundsson, íbúi að Boðaþingi 22 í Kópavogi. Ólafur og eiginkona hans, Súsanna O. Jónmundsdóttir, fengu á dögunum bréf þess efnis að þeim yrði gert að yfirgefa leiguíbúð sína fyrir þann 1. október næstkomandi. Húsið er í eigu Naustavarar ehf. sem er félag í eigu Sjómannadagsráðs og er ætlað einstaklingum sem eru 60 ára eða eldri. Ólafur og Súsanna eru í hópi fimm einstaklinga og hjóna sem verður hent út á guð og gaddinn, í þeim hópi er ein kona sem er 90 ára gömul.

Sigur vannst í héraðsdómi

Naustavör ehf. á 201 íbúð í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, þar af 95 íbúðir í Boðaþingi 22 og 24. Upp úr 2011 fór að kvisast að stjórnendur Naustavarar ehf. væru ekki að fara að húsaleigulögum. Ástæðan var sú að innheimt var húsaleiga að viðbættu sérstöku húsgjaldi. Húsgjaldið átti aðeins að fara í að greiða kostnað við rekstur sameignar húsanna en í ljós kom að ýmis annar kostnaður, meðal annars stjórnunarkostnaður, var greiddur með húsgjaldinu. Deilurnar drógust á langinn árum saman en að endingu sáu fimm leigutakar sér ekki annað fært en að fara með málið fyrir dómstóla.

Héraðsdómur kvað upp dóm sinn  í febrúar 2017  og var niðurstaðan skýr. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Naustavör ehf. hefði um árabil ofrukkað eldri borgara með innheimtu húsgjaldsins. Áðurnefnd hjón, Ólafur og Súsanna, sem fluttu inn árið 2013 fengu til dæmis um 500 þúsund krónur endurgreiddar frá Naustavör.

Martröðin hefst

Ólafur segir að þá hafi martröðin fyrst byrjað. Eftir dómsuppkvaðningu fóru forsvarsmenn Naustavarar ehf. í allar íbúðir og kynntu nýjan leigusamning fyrir íbúum. Þar var búið að hækka húsaleiguna sem nam gjaldinu ólöglega auk þess sem gerð var sú krafa að eldri borgararnir myndu afsala sér þeirri endurgreiðslu sem héraðsdómur hafði dæmt þeim. Að öðrum kosti yrði þeim sagt upp leigusamningi og gert að yfirgefa húsnæðið. „Þetta var með ólíkindum. Flestir íbúar fögnuðu sigri og töldu að málinu væri lokið þegar dómurinn lægi fyrir. Maður vonaði að forsvarsmenn Naustavarar ehf. myndu una honum eins og almennilegir borgarar. Það var öðru nær,“ segir Ólafur.

Hann segir að íbúar hafi upplifað mikla valdbeitingu og niðurlægingu. „Það vill enginn vera í húsnæðishrakningum á gamals aldri, að leita sér að nýrri íbúð til þess að leigja með tilheyrandi óvissu og raski. Það voru margir íbúar grátandi hérna á göngunum því fólk vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Það er erfitt að sætta sig við að einhver hafi brotið á manni í mörg ár og þegar dómur er kveðinn upp þá hafi viðkomandi ekki meiri sómakennd en svo að hann hótar manni húsnæðismissi nema maður skrifi undir skjal þar sem maður afsalar sér skaðabótunum. Þetta er ekkert annað en fjárkúgun,“ segir Ólafur. Hann og Súsanna hafi haft of ríka réttlætiskennd og neitað að skrifa undir þennan viðauka við leigusamninginn, það sama gerðu um átta aðrir.

Uppsögn leigu

Samningum þeirra var sagt upp í mars fyrir ári en uppsagnarfresturinn var tólf mánuðir. „Við höfðum ekkert heyrt í forsvarsmönnum Naustavarar og innst inni vonaði maður að þeir myndu láta sér segjast og leyfa þeim sem þeir brutu á að halda áfram að leigja húsnæðið,“ segir Ólafur. Naustavör hefði síðan getað boðið nýjum leigutökum upp á þennan endurbætta samning og þeir þá metið hann í samræmi við aðra kosti á húsnæðismarkaði fyrir eldri borgara. „Það er auðveldara að koma að hreinu borði en að þurfa að kyngja stoltinu og sætta sig við svona óréttlæti,“ segir Ólafur.

Á dögunum barst síðan bréf þar sem Ólafi og eiginkonu hans er gert að yfirgefa húsnæðið fyrir 1. október 2018. „Þetta er afar sárt því okkur líður afar vel í þessu húsnæði. Maður getur hins vegar ekki látið bjóða sér hvað sem er,“ segir Ólafur. Þau eru ekki ein, eins og áður segir, en alls verður fimm einstaklingum og hjónum gert að yfirgefa húsnæðið fyrir 1. október næstkomandi. Þar af ein kona um nírætt.

Sanngirnissjónarmið ræður för

„Það eru fyrst og fremst sanngirnissjónarmið gagnvart yfirgnæfandi meirihluta leigjenda sem liggja að baki uppsögnum þessara fáu leigusamninga sem um ræðir,“ segir Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Naustavarar ehf., í skriflegu svari til DV. Hann segir að um erfitt mál sé að ræða en kjarninn sé sá að mánaðarleg greiðsla þessara fimm aðila sé í dag lægri en annarra leigjenda og við það verði ekki unað.

Sigurður segir að niðurstaða héraðsdóms á sínum tíma hafi komið forsvarsmönnum Naustavarar á óvart. „Í meginatriðum komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þar sem íbúðir Naustavarar stæðu 60 ára eldri til boða, en ekki 67 ára og eldri, þá nyti félagið ekki undanþáguákvæðis sem heimilaði innheimtu sérstakra kostnaðarliða með húsgjaldi og því bæri Naustavör að fella gjaldið undir sjálfa leiguna,“ segir Sigurður.

Hann segir að félagið hafi unað dómnum til þess að reyna að forðast áframhaldandi deilur. „Við gerðum þá breytingu á innheimtu leigugjaldsins, sem dómurinn fjallaði um, og buðum öllum leigutökum einfalda skilmálabreytingu á gildandi leigusamningum þannig að húsgjaldið var fellt niður og samsvarandi upphæð færð undir leiguna með þeim skilmálum að veitt yrði áfram sama þjónusta fyrir sömu krónutölu og verið hafði,“ segir Sigurður. Að hans sögn féllust langflestir leigutakar á þetta. „Satt að segja lýstu margir leigutakar megnustu óánægju með þá vegferð sem þessir tilteknu leigutakar efndu til gagnvart félaginu,“ segir Sigurður.

Stóðu við sinn hluta

Hann segir að Naustavör hafi að öllu leyti staðið við sinn hluta leigusamninga við íbúa og endurgreitt þeim leigutökum sem kröfðust endurgreiðslu í samræmi við dóminn. „Mánaðarleg greiðsla þessara aðila er nú lægri en annarra íbúa og að sama skapi sitja þeir nú við annað borð en yfirgnæfandi meirihluti leigjenda og fá jafnframt sömu þjónustu og samið var um í upphafi,“ segir Sigurður.

Að hans sögn var ekki hægt að una við þetta ástand og því var ákveðið að segja upp leigusamningi fimmmenninganna enda uppsagnarákvæði í gildandi leigusamningi sem báðir aðilar geta nýtt sér. Eins og áður segir réðu sanngirnissjónarmið för. „Viðkomandi aðilar gerðu á sínum tíma leigusamning af fúsum og frjálsum vilja sem fólu í sér ákveðnar greiðslur fyrir veitta þjónustu. Þeir kusu síðan sjálfir að samþykkja ekki nauðsynlegar breytingar á skilmálum leigusamnings svo að hægt væri að veita áfram óbreytt þjónustustig, sem er meðal annars hornsteinn þeirrar hugmyndafræði sem býr að baki leiguíbúða Naustavarar á húsnæðismarkaði fyrir eldra fólk,“ segir Sigurður.

Hann segir að þrátt fyrir óánægju þessara tilteknu einstaklinga þá séu í dag meira en þrjú hundruð manns á biðlista eftir íbúð hjá Naustavör. „Það er ekki síst vegna þeirrar þjónustu sem félagið veitir og langflestir af þeim hafa leitað til okkar vegna þess orðspors sem ánægðir leigutakar hafa skilið eftir sig,“ segir Sigurður.

 

Alls eru 95 íbúðir í húsinu. Fimm aðilum var sagt upp leigusamningi sínum í vikunni. Í þeim hópi er 90 ára gömul kona.
Boðaþing 22-24

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Í gær

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku

Snorri furðar sig á Byggðastofnun – Sagður gera lítið úr þeim sem ekki tala íslensku
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi

Lögreglan sleppir tveimur í morðmálinu á Suðurlandi