fbpx
Laugardagur 19.janúar 2019
Fréttir

Sólveig segir Sveppa dónalegan og Gunna barnalegan: „Frægt fólk þarf ekkert endilega að vera kurteist“

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 22. mars 2018 10:00

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Mynd:DV/Sigtryggur Ari

Sólveig Anna Jónsdóttir, nýkjörinn formaður Eflingar, gerir upp á Facebook-síðu sinni viðtal sitt við Gísla Martein síðastliðið föstudagskvöld. Hún segir Gísla sjálfan hafa verið indælan en það sama megi ekki segja um gesti hans, Sveppa og Gunnar Helgason.

„Í Sófanum í agalega ljótum en þjóðlegum pólýesterbol sat Gunni, úr Gunna og Felix, ásamt tveimur öðrum gestum. (Ég hlustaði mikið á Gunna og Felix með Nonna þegar hann var lítill. Lagið um Markó Póló er td. ennþá oft spilað inní höfðinu á mér og stundum tekur heilinn smá snúning á þema-laginu úr Trausti og Trygg. Hef semsagt ávallt verið Gunna sérlega vinveitt sem einhverskonar samferðamanns um ímyndunarafls-lendur bernsku ástkærs sonar míns),“ segir Sólveig.

Í símanum í setti

Hún segir að allt hafi gengið kurteislega og vel fyrir sig framan af, fyrir utan hegðun Sveppa. „Sveppi var ekki mjög kurteis, í símanum, í sjónvarpinu, meðan aðrir voru að tala, en það er sennilega vegna þess að frægt fólk þarf ekkert endilega að vera kurteist eða að kurteist fólk verður ekki endilega frægt? Ég veit það ekki alveg, veit skammarlega lítið um frægt fólk, finnst bara rétt, sem fullorðinni konu, að gera athugasemd við mikla símanotkun, sérstaklega í sjónvarpi,“ segir Sólveig.

Hún gagnrýnir þó Gunnar Helgason öllu meira. „Allavega, allt gekk kurteislega, vel og spjallþáttalega fyrir sig þangað til Gunni ákvað að næla sér í sviðsljós með því að segja söguna af því þegar hann bjó í Júgóslavíu og kvaldist undir kerfinu þar og ákvað einnig að sýna okkur að hann hefði sannarlega mótast sem krati á síðustu metrum síðustu aldar, þegar sagan endaði og þriðja leiðin fann það út að best væri að skauta á ó-antagónískan máta yfir og framhjá sannleikanum um stéttir og stéttaátök, sannleikanum um eðli samfélagsins, með því að taka upp orðræðu hægrisins, til að eiga möguleikann á að ná völdum í samfélaginu í samvinnu við auðstéttina, þegar hann sagði að kommúnismi væri það sama og fasismi og nasismi og afgreiddi þannig -allar hefðir kynslóðanna sem hvíla sem martraðir á heilum þeirra hinna lifandi- á hlaupum/skautum,“ segir Sólveig.

Barnaleg afstaða

Sólveig sagði á föstudaginn að þessi afstaða Gunna væri barnaleg og í stöðufærslunni skýrir hún þau orð nánar. „Ég sagði að afstaða Gunna gagnvart kommúnisma væri barnaleg og Gísli Marteinn kallaði hann krata, en íslenskir kratar eru einmitt dálítið þekktir fyrir að vara við hinu og þessu og líta fram hjá því að þeir vara alls ekki nógu mikið við sjálfum sér og sögulegri tilhneigingu til mikillar samvinnu við heimsvaldastefnu og auðvald, svo dæmi séu nefnd. Það er ekki kurteist að gera lítið úr skoðunum fólks með því að kalla þær barnalegar þannig að ég hef fundið fyrir sterkri þörf síðan á föstudagskvöldið til að útskýra aðeins betur hvað ég átti við. Fyrst reyndi ég að láta sem ég heyrði ekki í suðinu inní mér, en verð svo auðvitað, eins og öll sem eiga svo suðandi heila vita, að láta undan og rölta örstutt niður að hinum sögulega drullupolli sem and-kommúnisminn er og standa aðeins við hann og reyna í stuttu máli að leiðsegja fólki burt frá honum,“ segir Sólveig.

Ekki í sambandi við veruleikann

Hún segir að Júgóslavía Gunna eigi lítið skylt við réttindabaráttu íslensk verkafólks. „Róttæk barátta dagsins í dag er ekki kaldastríðs barátta síðustu aldar. Róttæk barátta dagsins í dag er barátta gegn hömlulausu auðvaldi sem, ma. vegna þess að flest gáfust meira og minna upp við að varðveita hugmyndir um samfélag réttlætis og jöfnuðar, hefur fengið að sölsa undir sig og eigna-væða samfélagsleg gæði á kostnað almennings.

„Það er til marks um að fólk sé ekki í sambandi við raunveruleika þann sem blasir við okkur á stóra sviði veraldarsögu nútímans (sem við öll sjáum ef við hættum að líta undan) að það finnið sig knúið til að benda á eitthvað sem engu máli skiptir fyrir líf þeirra sem þjást undir samfélagslegu ægivaldi arðráns og stéttskiptingar, að það ætli að draga tennur úr róttækri baráttu samtímans með því að eyða tíma fólks í upphrópanir og þras,“ segir Sólveig.

Sovétríkin löngu horfin

Hún segir það barnalegt að afskrifa umræðuna með vísan í dvöl í einhverju landi. „Það er barnalegt að afvegaleiða umræðuna þegar talað er um arðrán og aðra glæpi kapítalismans með því að segja sögur úr Einu sinni var ég skiptinemi (í setti þar sem stuttu áður annar gestur hvatti alla til að búa í eitt ár erlendis með börnin sín, hvatningu sem væri hægt að nota sem dæmi um forréttindablindu þeirra vel settu sem lifa í þannig efnahagslegum raunveruleika að fátt stoppar uppfyllingu draumanna nema takmarkanir ímyndunaraflsins) og bulla um nasisma og fasisma. Það er óumdeilanlega barnalegt,“ segir Sólveig.

Hún segir að umræða um Sovétríkin í þessu samhengi eigi ekki við. „Ef fólk heldur að það sé á einhvern hátt relevant að tala um ástandið í austantjaldslöndum undir lok Sovétríkjanna við fólk sem er einfaldlega að gera þá kröfu að geta lifað af launum sínum, er það aðeins til marks um hversu algerlega menn eru úr tengslum við raunveruleikann. Sovétríkin eru löngu horfin en kapítalisminn og arðránið standa eftir óhögguð, uppblásin og sadísk, með sín ótal andlit, eftir því við hvern talað er, og ljótasta andlitið aðeins sýnt hinum lágt settu svo að millistéttin og forréttindahópar þurfi ekki að leggja það á sig að líta undan í skömm og hryllingi yfir andstæðunum sem boðið er uppá í „frjálsu og lýðræðislegu samfélagi“,“ segir Sólveig.

Sólveig segir að lokum að Stalín og hans verk eigi lítið skylt við sig: „Í kosningabaráttunni okkar hitt ég allskonar fólk sem sagði frá allskyns hlutum , ma. mann kominn nálægt sjötugu sem tók í hendina á mér og sagði:

„Ég og konan mín höfum ekkert á milli handanna, ekkert. Hún er sjúklingur og ég get ekki hætt að vinna því að að við höfum ekkert á milli handanna.“

„Þegar ég hugsa um þetta og allt hitt sem ég hef bæði heyrt og upplifað, allar sögur samverkakvenna minna um blankheit, basl, áhyggjur, missi og það að finnast maður einskis virði í sjúku samfélagi misskiptingar þá get ég ekki annað en furðað mig á því að einhver vilji eða nenni að grípa enn eina ferðina til and-kommúnisma sem aðferðafræði. Glæpir Stalíns koma mér, samstarfskonum mínum, rútubílstjórum, hafnarverkamönnum, fátæku gömlu fólki, eða sniðuga stráknum (and-kapítalistanum í þættinum hjá Gísla Marteini) sem býr til vodka úr því sem sturlun auðvaldskerfisins lætur henda í ruslið, nákvæmlega ekkert við.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Í gær

DV er komið út – Palli í Bæjarbíói, Ketóbók Gunnars Más, móðir Áslaugar glímir við framheilabilun, asískt þjófagengi og Gettu betur

DV er komið út – Palli í Bæjarbíói, Ketóbók Gunnars Más, móðir Áslaugar glímir við framheilabilun, asískt þjófagengi og Gettu betur
Fréttir
Í gær

Telur að árið verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu

Telur að árið verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Helga Vala neitar að hafa stolið úr búð: „Þær eru orðnar svolítið margar verslanirnar sko“

Helga Vala neitar að hafa stolið úr búð: „Þær eru orðnar svolítið margar verslanirnar sko“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Skattrannsóknarstjóra hótað og reynt að múta honum – Pólitískum afskiptum hótað

Skattrannsóknarstjóra hótað og reynt að múta honum – Pólitískum afskiptum hótað
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Maðurinn með ljáinn handtekinn í Breiðholti í nótt

Maðurinn með ljáinn handtekinn í Breiðholti í nótt
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sævar segir sumar ljósaperur geta raskað svefni og jafnvel valdið krabbameini – Er svona pera heima hjá þér?

Sævar segir sumar ljósaperur geta raskað svefni og jafnvel valdið krabbameini – Er svona pera heima hjá þér?