Fréttir

Lífeyrissjóðirnir hafa mögulega fjárfest í vopnaframleiðslu

Ekki ljóst hvort fjárfestingar sjóðanna erlendis standist siðferðisleg viðmið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 2. mars 2018 12:40

Ekki er hægt að fullyrða íslenskir lífeyrissjóðir hafi ekki fjárfest í starfsemi sem tengist hernaði og vopnaframleiðslu, í fyrirtækjum sem stunda félagsleg undirboð eða í annarri starfsemi sem siðferðislega vafasöm getur talist. Verulegur hluti erlendra eigna sjóðanna er í gegnum svokallaða hlutdeildarsjóði eða vísitölusjóði sem lífeyrissjóðirnir eiga hlutdeildarskírteini í. Erfitt er að fullyrða um að slíkir sjóðir hafi ekki fjárfest í siðferðilega vafasömum rekstri.

Með afnámi gjaldeyrishafta í mars síðastliðnum fengu lífeyrissjóðir heimild til þess að fjárfesta utan landsteinanna á nýjan leik. Með breytingum á lögum um lífeyrissjóðin sem taka gildi 1. júlí næstkomandi verður lögfest ákvæði um að hver „lífeyrissjóður skal setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum“. Ekki er frekar útskýrt hvað átt er við með siðferðislegum viðmiðum en ráðherra skal þó setja í reglugerð nánari ákvæði um form og efni fjárfestingarstefnu sjóðanna.

Vill svör um eignasafn sjóðanna

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, vék að þessari stöðu í fyrirspurnartíma á Alþingi 24. apríl síðastliðinn og beindi hann spurningum sínum til Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra. Spurði Andrés Ingi hvort breyta þyrfti reglum um fjárfestingastefnu lífeyrissjóðanna með tilliti til markmiða um sjálfbærni og loftslagsmarkmið og með tilliti til almennra mannréttinda og réttinda barna. Í umræðum sem á eftir fylgdu kom fram að ráðherra taldi nálgun laganna sem taka eiga gildi í sumar heppilega og að almennt væri gagnsætt í hverju lífeyrissjóðirnir fjárfestu. Andrés Ingi sagðist hins vegar hafa efasemdir um að hægt væri að treysta lífeyrissjóðunum án þess að eftirlit með fjárfestingum þeirra væri til staðar. Í framhaldinu lagði Andrési Ingi síðan fram skriflega fyrirspurn þar sem hann óskaði eftir svörum frá ráðherranum um hversu stór hluti eignasafns lífeyrissjóðanna væri bundinn í starfsemi sem fælist í vinnslu og sölu jarðefnaeldsneytis annars vegar og hins vegar um hvort lífeyrissjóðirnir ættu í fyrirtækjum sem framleiði vopn eða íhluti í vopn.

Ekki sannfærður um gagnsæi

Andrés Ingi segir í samtali við DV að hann hafi ekki vitneskju um að lífeyrissjóðir á Íslandi eigi eignir í fyrirtækjum sem starfi í olíuiðnaðinum, framleiði vopn eða standi í einhverri þeirri starfsemi sem telja megi siðferðislega vafasama. „Fyrirspurnin er bara viðbragð við yfirlýsingum ráðherra í umræðunum. Ef það er gagnsæi í fjárfestingum lífeyrissjóðanna og þetta er allt bara í lagi þá er ágætt að fá það svart á hvítu og upp á borðið.“

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn um fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða og siðferðileg álitaefni þeim tengdum.
Vill fá svör Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hefur lagt fram fyrirspurn um fjárfestingar íslenskra lífeyrissjóða og siðferðileg álitaefni þeim tengdum.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Andrés Ingi segist ekki sannfærður um að gangsæi fjárfestinga lífeyrissjóðanna væri slíkt að almennir sjóðsfélagar væru í stöðu til að sannreyna hvort fjárfest væri í einhverjum þeim geirum sem ekki hugnuðust þeim. „Mig langar að sjá svarið frá ráðuneytinu og það kæmi mér ekki á óvart að gagnsæið væri minna en menn héldu. Sé svo þá þarf að tryggja það með einhverjum leiðum að þessar upplýsingar verði aðgengilegar.“

Sjóðirnir sáu sér ekki fært að svara

DV hafði samband við þrjá stærstu lífeyrissjóði landsins, Lífeyrissjóð verslunarmanna, Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóð og innti þá eftir því hvort þeir ættu eignir í fyrirtækjum sem ynnu og seldu jarðefnaeldsneyti eða í fyrirtækjum sem framleiði vopn. Enginn sjóðanna sá sér fært að svara áður en DV fór í prentun af ýmsum orsökum, meðal annars sökum þess að ársfundir og stjórnarfundir stæðu yfir. Í samtölum við starfsmenn sjóðanna kom hins vegar fram ekki væri hægt að fullyrða neitt um að fjárfestingar þeirra hlutdeildarsjóða sem lífeyrissjóðirnir ættu skírteini í stæðust kröfur um siðferðislegar viðmið fjárfestinga. Mjög flókið mál væri að rekja allar þær fjárfestingar sem slíkir sjóðir leggðu í til ávöxtunar. Þá nefndu viðmælendur einnig að það hlyti að teljast skilgreiningaratriðið hvaða starfsemi væri ásættanleg siðferðilega og nefndu meðal annars vinnslu jarðefnaeldsneytis í því samhengi.

Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins eru báðir aðilar að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, þar sem fjallað er um hvernig áhersla á umhverfisleg og samfélagsleg málefni, auk góðra stjórnarhátta fyrirtækja, getur stuðlað að bættum fjárfestingaárangri. Þá er sjóðunum auðvitað skylt að lúta lögum og reglum. Gildi lífeyrissjóður hefur hins vegar ekki tekið þær reglur upp.

Margir sjóðir þegar sett sér reglur

Þórey S. Þórðardóttir framkvæmdastýra Landsamtaka lífeyrissjóða segir að hún hafi ekki vitneskju um hvort lífeyrissjóðirnir hafi með einhverjum hætti hafið undirbúning fyrir gildistöku laganna 1. júlí næstkomandi, að því er varðar ákvæði um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. „Í gegnum tíðina hefur verið talsverð umræða um þessi mál meðal lífeyrissjóðanna. Sjóðirnir hafa margir hverjir sett sér reglur í þessa veru en þetta kemur nú í fyrsta sinn inn í lög. Raunar er það mjög opið í lögunum hvernig þetta eigi að framkvæmast, hvað þetta þýðir. Það á að setja reglugerð með nánari ákvæðum og við bíðum dálítið eftir því.“

Þórey segir að landssamtökin hafi haldið námskeið sem taki á þessum þáttum í samvinnu við Félagsmálaskóla alþýðu og hafi þau verið gríðarvel sótt af starfsfólki lífeyrissjóðanna. Meðal annars var haldið námskeið um sjálfbærni, umhverfi og samfélagslega ábyrgð í byrjun apríl og annað námskeið, um samfélaglega ábyrgar fjárfestingar, sé á dagskrá 22. maí næstkomandi.

Þórey segir ennfremur að hún finni fyrir því að þær stefnubreytingar sem orðið hafa erlendis, meðal annars hjá norska olíusjóðnum, í átt til þess að fjárfestingar skuli standast siðferðileg viðmið, hafi áhrif hér á landi. „Þetta er mál málanna, bæði í dag og til framtíðar. Það er mjög eðlilegt að lífeyrissjóðir, sem eru að fjárfesta fyrir almenning, fari í gegnum þessa umræðu og móti afstöðu varðandi það hvað stýri fjárfestingum þeirra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af