fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Allt stefnir í kosningasirkus í borginni

Fordæmalaus fjöldi flokka í framboði – Aðeins Dagur og Líf halda áfram sem oddvitar

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 6. janúar 2018 16:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kosið er til sveitarstjórna laugardaginn 26. maí næstkomandi, þó að kosið sé til 73 sveitarstjórna á landsvísu eru augu flestra á Reykjavíkurborg þar sem allt stefnir í skrautlegustu kosningarnar til þessa. Borgarfulltrúum fjölgar úr 15 í 23 og ólíkt Alþingiskosningum þá er enginn 5 prósenta þröskuldur til að ná inn manni. Af núverandi oddvitum þá gefa aðeins Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar og Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna áfram kost á sér. DV fór stuttlega yfir stöðuna fyrir komandi kosningar.

Björt framtíð, sem datt út af þingi í síðustu Alþingiskosningum, kemur til með að bjóða fram í borginni. S. Björn Blöndal hyggst ekki bjóða sig fram og óvíst er með Elsu H. Yeoman. Samkvæmt upplýsingum innan flokksins er undirbúningur á byrjunarstigi og að eigi eftir að koma í ljós hverjir gefa kost á sér til að leiða listann, mörg nöfn koma þó til greina þar á meðal Óttarr Proppé sem féll af þingi sem og Björt Ólafsdóttir formaður.

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir er enn borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, þá sem flugvallarvinur, hún leiddi lista Miðflokksins í Reykjavík í Alþingiskosningunum en náði ekki inn á þing. Eftir kosningarnar í haust gaf hún það út að hún gæfi ekki kost á sér aftur í borgina en DV hefur heimildir fyrir því að það gæti breyst ef Miðflokkurinn þrýsti á hana á að fara fram. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sagði skilið við Framsókn og flugvallarvini í fyrra og situr nú sem óháður borgarfulltrúi, talið er ólíklegt að hún gefi kost á sér aftur en þá yrði það fyrir Flokk fólksins eða hugsanlega Frelsisflokkinn. Jóna Björg Sætran varaborgarfulltrúi segir það alveg bókað að Framsókn muni bjóða fram í vor, flokkurinn mun funda 10. janúar næstkomandi um framhaldið.

Sjálfstæðismenn leita að borgarstjóraefni

Staðan er enn flóknari innan Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn kemur til með að sækja hart að núverandi meirihluta og leggja mikla áherslu á meinta óstjórn í fjármálum og þjónustu á vegum borgarinnar. Halldór Halldórsson núverandi oddviti gefur ekki kost á sér og í stað hefðbundins prófkjörs fer fram sérstakt leiðtogaprófkjör ásamt uppstillingu á neðri sætum. Nokkur óánægja er innan flokksins með þetta fyrirkomulag þar sem það verður í höndum nefndar en ekki allra flokksmanna hverjir verða á listanum.

Nokkur nöfn hafa verið nefnd sem hugsanlegt borgarstjóraefni, þá helst Halla Tómasdóttir sem bauð sig fram til forseta árið 2016, Unnur Brá Konráðsdóttir fyrrverandi forseti Alþingis og Hildur Sverrisdóttir sem féll af þingi í haust ásamt Kjartani Magnússyni og Áslaugu Maríu Friðriksdóttur borgarfulltrúum. Marta Guðjónsdóttir hefur gefið það út að hún gefi kost á sér, en ekki í oddvitasæti. Einnig hafa verið nefnd nöfn Svanhildar Hólm Valsdóttur aðstoðarmanns fjármálaráðherra og Borgars Þórs Einarssonar aðstoðarmanns utanríkisráðherra en innan Sjálfstæðisflokksins talið ólíklegt er að þau yfirgefi slíkar stöður fyrir borgarmálin. Þrátt fyrir að Kjartan, Áslaug, Hildur og Unnur Brá séu almennt vel liðin meðal Sjálfstæðismanna þá eru hins vegar efasemdir innan flokksins hvort þau séu nógu öflug til að höfða til allra borgarbúa. Á hinn boginn eru efasemdir hvort Halla Tómasdóttir, sem gæti skákað Degi B. Eggertssyni þegar kemur að kjörþokka, sé best til þess fallin að tala máli Sjálfstæðisflokksins.

Miðflokkurinn og Píratar í startholunum

Skipt verður nánast alfarið um áhöfn í brúnni hjá Pírötum í vor, Halldór Auðar Svansson oddviti gefur ekki kost á sér og Þórgnýr Thoroddsen hyggst ekki sækjast eftir sæti ofarlega á lista. Samkvæmt heimildum innan raða Pírata er undirbúningur hafinn og búast megi við framboðum í forystusæti frá Alexöndru Briem, Svafari Helgasyni og Arnaldi Sigurðarsyni ásamt fleirum.

DV hefur fengið það staðfest innan úr Miðflokknum að þar sé unnið að framboði í Reykjavík, sem og fleiri sveitarfélögum, í vor. Enn sem komið er hefur enginn lýst yfir áhuga á að leiða flokkinn í borginni en miðað við hversu fljótur flokkurinn var að skipa á lista í haust þá ætti það ekki að valda áhyggjum.

Fordæmalaus fjöldi framboða

Fjölgun á stjórnmálaflokkum sem og lægri þröskuldur inn í borgarstjórn gerir það að verkum að möguleiki er á allt að tíu til tólf framboðum sem öll eiga raunhæfan möguleika á að ná inn fulltrúa. Fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn, Samfylkinguna, Framsóknarflokkinn, Vinstri græn, Bjarta framtíð, Miðflokkinn og Pírata þá stefna Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins og Frelsisflokkurinn á framboð í borginni í vor, fyrir utan Viðreisn sem leitar logandi ljósi að mögulegum oddvita. Heimildir DV herma að Viðreisn hafi sóst eftir kröftum Gísla Marteins Baldurssonar sem hafi hafnað boðinu. Koma þá til greina þeir sem féllu af þingi síðasta haust en eins og einn viðmælandi DV orðaði það þá eru alltaf meiri líkur á að þeir sem prófað hafa pólitík gefi kost á sér en að ný andlit láti sjá sig.

Líklegir frambjóðendur

Pawel Bartoszek

Pawel Bartoszek

Pawel féll af þingi fyrir Viðreisn í haust og hefur undanfarið fjallað um borgarmál á Snapchat. Pawel er vinsæll meðal þeirra sem til hans þekkja og gæti orðið sterkur fulltrúi Viðreisnar í borginni.

Halla Tómasdóttir

Halla Tómasdóttir

Halla náði ótrúlega góðum árangri í forsetakosningunum árið 2016 með heil 27%, til samanburðar hlaut Guðni Th. Jóhannesson 39,1% atkvæða. Halla gæti orðið sterkur leiðtogi hvort sem það væri fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða Viðreisn.

Biggi lögga

Biggi lögga

Birgir Örn Guðjónsson er landsþekktur og vinsæll. Hann var í þriðja sæti á lista Framsóknarflokksins í Alþingiskosningunum og það væri sterkur leikur hjá Framsókn að fá hann í borgina.

Björt Ólafsdóttir

Björt Ólafsdóttir

Björt tók við sem formaður Bjartrar framtíðar af Óttari Proppé eftir að flokkurinn datt af þingi. Þar sem Bjartri framtíð vantar oddvita í Reykjavík og að öllum líkindum er langt í næstu Alþingiskosningar þá verður það að teljast líklegt að formaðurinn gefi kost á sér í oddvitasætið.

Ólíklegir frambjóðendur

Eyþór Arnalds

Eyþór Arnalds

Eyþór hefur mikla reynslu úr sveitarstjórnarmálum og mun vera efstur á lista Davíðs Oddssonar til að taka við borginni. Eyþór hefur hins vegar í nógu að snúast sem fjárfestir og eigandi Morgunblaðsins og er því ólíklegt að hann gefi kost á sér.

Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson

Þrátt fyrir að Gísli Marteinn brenni fyrir borgarmálum þá verður að teljast ólíklegt að hann yfirgefi RÚV aftur til að þess að fara í framboð fyrir Viðreisn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Í gær

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“
Fréttir
Í gær

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks

Lamaðist fyrir neðan háls í alvarlegu slysi fyrir sjö árum en komst engu að síður á topp Hvannadalshnjúks
Fréttir
Í gær

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu

Gamlir geisladiskar nýttir í tölvuframleiðslu
Fréttir
Í gær

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“

Paul Watson undirbýr Operation ICESTORM – „Tíminn er liðinn hjá heimsins alræmdasta hvalveiðimanni, Kristjáni Loftssyni“
Fréttir
Í gær

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás

Fékk skilorð fyrir ofsafengna sveðjuárás