Hvatt til nauðgunar og morðs á blaðamanni Morgunblaðsins: „Þarf ég kannski að fá mér grimman hund?“

Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, varð á fimmtudaginn fyrir afskaplega grófu og viðurstyggilegu netníði, þegar kona ein hvatti til ofbeldis gegn henni – nánar tiltekið að henni yrði nauðgað til dauða. Tilefnið voru skoðanir sem Erna Ýr hefur látið í ljósi um vændi undanfarið en hún er þeirrar skoðunar að afglæpavæða eigi vændi með öllu

Færslan orðljóta er svohljóðandi:
Þessari tettdræpu mellu þarf að koma í gagnlega vinnu.
Eg legg til að stuðningsmenn vændis fái að nauðga henni til dauða gegn greiðslu - þá lærir hún að þekkja markaðinn eins og hann er.
VÆNDISKAUP ERU ÓLÖGLEG af því ÞAÐ ER EKKI HÆGT AÐ VERJA ÞAU.
Þessi mella er rettdræp fyrir kvenhatur.

„Ég var mjög upptekin í vinnu þennan fimmtudag og hafði ekki mikinn tíma til að hugsa mikið um þetta en engu að síður svaraði ég umræddri konu kurteislega. Hún brást við með því ausa yfir mig fúkyrðaflaumi og blokkaði mig síðan á Facebook. En vinir mínir sem skoðuðu Facebook-síðuna mína sögðu mér að þetta væri augljóslega veikur einstaklingur,“ segir Erna Ýr Öldudóttir í viðtali við DV.

Við skoðun á Facebook-síðu viðkomandi konu sést að hér er ekki um falska síðu að ræða, þ.e. feikprófíl, konan gefur upp nafn og birtir af sér myndir. Á tímalínunni úir og grúir af stuttum skoðanapistlum þar sem deilt er til skiptis á vændi, innflytjendur á Íslandi og Evrópusambandið – allt fyrirbæri sem höfundur virðist vera mjög andsnúinn. Flest innleggin eru ákaflega orðljót og benda til mikillar vanstillingar höfundar án þess að hér verði nokkuð fjölyrt um andlegt ástand konunnar.

Forsaga málsins byrjar með norrænni ráðstefna gegn kynferðisofbeldi sem haldin var í Reykjavík fyrir skömmu. Þar kom sterkt fram sú skoðun að vændiskaup væru í eðli sínu mannréttindabrot og herða þyrfti refsingar gegn kaupendum vændis.

Í vikunni mætti Erna Ýr í viðtal í útvarpsþáttinn Harmageddon á X-inu þar sem hún lýsti sig andsnúna þessu viðhorfi. Dv.is greindi frá þessu. Erna Ýr sagði meðal annars:

„Mér finnst þetta ofboðslega skrýtið því þetta er alveg á skjön við það sem er að gerast í heiminum. Fyrir tveimur árum síðan þá ályktuðu stærstu mannréttindasamtök í heimi Amnesty International að það yrði að afglæpavæða vændi, því þetta er mjög stórt mannréttindamál. Það er mjög margt fólk, sérstaklega konur, sem þjáist undir refsistefnu í málaflokknum.“

Varðandi þau lög sem hér ríkja, að sala vændis er lögleg en milliganga og kaup ólögleg, sagði Erna Ýr:

„Það er í rauninni ekki hægt að gera þetta vegna þess að vændissala fer ekki fram án kaupanda. Ég meina hvernig ætlarðu að selja eitthvað ef að það er ekki hægt að kaupa það?“

Jafnframt sagði hún að þessi lög þrengdu að þeim sem stunda vændi:

„Sá sem er að selja getur ekki verið í almannarýminu, að vinna sína vinnu, fólk sem starfar í almannarýminu er auðvitað undir eftirliti og vernd samborgara sinna. Þannig að þau neyðast til að hlaupa í felur. Geta ekki keypt sér vernd ef þau þurfa á því að halda og kaupendur verða verri hópur. Þetta verður hópur sem er að brjóta af sér, meiri harka. Þau verða að vera í felum og þetta þarf að vera leyndarmál.“

Erna Ýr hnykkir á þessum skoðunum í samtali við DV. Hún minnir aftur á ályktun hinna virtu mannréttindasamtaka Amnesty International um afglæpavæðingu vændis, til hagsbóta fyrir vændisfólk, og segir:

„Þeir aðilar sem töluðu á þessari ráðstefnu halda því fram að vændi sé mannréttindabrot. En í raun er það mannréttindabrot að banna fólki sem stundar vændi valfrjálst að gera það og kemur því í mjög erfiða stöðu.“

Að hatast út í fólk fyrir að vera ósammála

Erna Ýr viðurkennir að henni hafi fundist afar óþægilegt að lesa hinn grófu ummæli konunnar sem hér hafa verið rakin:

„Það sem mér finnst óþægilegast er að hún býr í nágrenni við mig. Ég hugsaði með mér í dag: Þarf ég kannski að fá mér grimman hund?“

Undanfarin misseri hefur DV nokkrum sinnum fjallað um netníð og greint frá þekktum einstaklingum sem hafa orðið fyrir skriðu ærumeiðandi ummæla, dónaskapar og hótana á internetinu fyrir það eitt að láta í ljósi skoðanir sínar. Að sögn Ernu hefur hún ekki áður orðið fyrir jafn grófum árásum á netinu. Hins vegar sé umræðan oft mjög harkaleg og vanstillt þegar tekist er á um skoðanir hennar, ekki síst frjálslyndar skoðanir hennar á vændi:

„Internetið og síðar samfélagsmiðlabyltingin hefur hefur breytt mjög aðgengi fólks að samfélagsumræðunni og þar hefur orðið algjör sprenging. En það er eins og fólk kunni ekki að umgangast þessa nýju miðla og það kann sér ekki hóf. Í dag þykir það óhæfa að hatast út í fólk vegna þess að það er með annan húðlit en á hinn bóginn virðist mörgum þykja í lagi að hata fólk fyrir að það hefur aðrar skoðanir en maður sjálfur. Ég legg til að við förum öll að sýna hvert öðru meiri virðingu og væntumþykju og áttum okkur á því að fólk verður ekki að óvinum fyrir það eitt að vera ósammála okkur,“ segir Erna Ýr Öldudóttir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.