Borga fíklum fyrir að prófa nýja spilakassa í höfuðstöðvum Gallup

Framleiðendur fylgdust með í hljóði og mynd - „Þetta er algjört helvíti,“ sagði spilafíkill sem tók þátt - Íslendingar eyða milljörðum í spilakassa á hverju ári

„Þetta er eins og dópsali sem væri með nýtt dóp sem aldrei hefði komið á markað hér á landi. Hann myndi boða dópistana í hópum heim til sín og greiða þeim smáræði fyrir að prófa nýja stöffið og fá álit þeirra á því. Um leið myndu þeir ánetjast og halda áfram að fylla veski hans af peningum.“

Þannig komst viðmælandi DV að orði eftir að honum var boðið að prófa sjö nýja spilakassa hjá Íslandsspilum. Starfsmenn Gallup heimsóttu níu spilasali yfir nokkurra daga tímabil til að freista fólks, fá það til að prófa nýja spilakassa sem Íslandsspil hyggjast markaðssetja hér á landi fyrir þeim sem stunda spilakassa grimmt. Íslandsspil eru í eigu Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ en þess ber að geta að SÁÁ tekur að sér að „afeitra“ spilafíkla. Ekki var auglýst opinberlega eftir þátttakendum. Þátttakendur voru fundnir með því að heimsækja spilasali víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu „yfir marga daga“. Til að verða gjaldgengur var nauðsynlegt að spila grimmt fyrir háar fjárhæðir en Gallup bauð fólki sem leggur vanalega undir tugi eða hundruð þúsunda í viku til að prófa sjö nýja spilakassa. Þátttakendur fengu fimmtán þúsund króna gjafabréf í Smáralind fyrir að segja álit sitt á spilakössunum eftir klukkutímana tvo.

Þetta er aðeins brot úr umfjöllun DV sem er að finna í helgarblaðinu. DV mun síðar í dag birta myndskeið úr höfuðstöðvum Gallups þar sem nýir spilakassar Íslandsspila eru geymdir. Myndskeiðið var tekið upp með falinni myndavél.

Þetta kemur fram á upptöku sem DV hefur undir höndum. Spilakassarnir eru geymdir í höfuðstöðvum Gallup í Glæsibæ og voru þátttakendur boðaðir þangað eftir að hafa svarað hversu mikla fjárhæð þeir leggja undir og hversu oft þeir spila í kössum Íslandsspila í viku hverri. Í ómerktum höfuðstöðvum Gallup spilar fólkið í hópum í rúman einn og hálfan klukkutíma og segir svo álit sitt á þessum nýju leikjum. Þannig fékk hver og einn þátttakandi möppu í hönd þar sem teknir voru fram hinir nýju sjö leikir. Við hvern og einn leik var síðan einkunnargjöf þar sem þátttakendur voru beðnir um að gefa leikjunum stig, frá einu upp í fimm, og var til að mynda spurt um hversu góðan bónusleik hver og einn leikur bauð upp á, hvernig hann kom þátttakendum fyrir sjónir og hvernig tónlistin var í umræddum leikjum. Mikið var lagt upp úr því að ræða við þátttakendur um hvern og einn leik en á meðan þeir spiluðu í kössunum þá fylgdust framleiðendur leikjanna, sem komu meðal annars frá Bandaríkjunum og Bretlandi, með hverjum og einum í hljóði og mynd úr öðru herbergi í höfuðstöðvum Gallup.

Spilafíkn hefur farið vaxandi á síðustu árum en spilafíklar hafa á síðustu árum stigið fram í fjölmiðlum og sagt að veikasta fólk þjóðfélagsins sé á bak við gríðarlegan hagnað Íslandsspila. Guðlaugur Jakob Karlsson, spilafíkill til fjörutíu ára, sagði í samtali við Vísi í fyrra að 95 prósent þeirra sem stunduðu kassana væru langt leiddir spilafíklar og þeir væru um átta þúsund. Vandinn væri falinn og fólk skammaðist sín fyrir fíknina.

„Þetta veit ég eftir fjörutíu ára reynslu af spilamennsku. Spilað er fyrir rúma milljón á klukkutíma, velta er 25 milljónir á dag. Það sem kemur í kassana. Þetta er tap spilafíklanna. Þetta er þungur baggi fyrir ekki fleiri að bera. Þetta er allt okkar veikasta fólk. Rónarnir niðrí bæ, ég þekki þá persónulega, sem hafa komið fram í viðtölum um áfengisvanda sinn … þeirra vandi er fyrst og fremst spilamennskan. Ekki vímuefnaneyslan. Þeir deyfa sársaukann með áfengi.“

Falin myndavél í höfuðstöðvum Gallup

Tveir blaðamenn DV höfðu samband við Gallup undir fölsku flaggi og kynntu sig sem áhugamenn um spilakassa. Þeir sögðust spila fyrir tugi þúsunda á dag fjórum til fimm sinnum í viku og að þeir eyddu frá þremur tímum upp í tólf tíma í spilasalnum. Starfsmenn Gallup vissu ekki að um blaðamenn DV var að ræða. Tilgangurinn var að fá boð um að fá að taka þátt í að prófa spilakassana og fara með falda myndavél í höfuðstöðvar Gallup. Ein af spurningum sem þurfti að svara var hvort þeir eða einhver í fjölskyldunni starfaði við fjölmiðla. Þá hefur DV einnig undir höndum upptöku frá ónafngreindum heimildarmanni sem óskaði eftir að prófa kassana.

Ítarlega umfjöllun um málið er að finna í helgarblaði DV. Þá mun DV birta upptöku sem tekin var upp í höfuðstöðvum Gallups með falinni myndavél en myndskeiðið verður birt síðar í dag.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.