RÚV fjarlægði lógó 66° Norður af bol Hjalta barnaníðings: „Hugsanaleysi að verða við því“

Fyrir og eftir
Hjalti Sigurjón Hauksson Fyrir og eftir

Mál barnaníðingsins Hjalta Sigurjóns Haukssonar hefur verið í deiglu fjölmiðlanna undanfarna daga eftir að opinberað var að hann hafi fengið uppreista æru frá íslenska ríkinu, sama dag og Robert Downey sem einnig var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn börnum. Hjalti var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi árið 2004 fyrir að misnota stjúpdóttur sína nær daglega í 12 ár. Hann hefur nú óflekkað mannorð samkvæmt lögum þrátt fyrir að hafa aldrei viðurkennt brot sín.

Stundin greindi fyrst frá máli Hjalta og birti mynd af honum sem tekin var í dýragarði. Á þessari mynd klæðist hann bláum bol sem merktur er fatafyrirtækinu 66° Norður. DV hefur heimildir fyrir því að starfsmaður 66° Norður hafi haft samband við Stundina og beðið um að vörumerki fyrirtækisins yrði fjarlægt af myndinni. Ekki var orðið við þeirri bón.

Fjarlægðu merkið að beiðni 66° Norður

Jóhann Óli Eiðsson vakti fyrst athygli á málinu á Twitter
Vakti athygli á málinu Jóhann Óli Eiðsson vakti fyrst athygli á málinu á Twitter

Þann 30. ágúst birtist frétt hjá RÚV sem bar yfirskriftina „Tveir barnaníðingar fengu uppreist æru í fyrra“. Fréttin var birt klukkan 17:08 en seinna um kvöldið var hringt frá 66° Norður í fréttastofuna og óskað var eftir því að merki fyrirtækisins yrði fjarlægt af bolnum.

Lára Ómarsdóttir vefritstjóri RÚV skrifaði umrædda frétt. Hún segir: „Fyrir einhvern misskilning og hugsanaleysi er orðið við því“. Hún segir einnig að þegar þetta uppgötvaðist á fréttastofunni, það er að myndinni hafi verið breytt, var henni breytt aftur til fyrra horfs. „Það er ekki vaninn hjá okkur að eiga við myndir á þennan hátt“. Þegar fréttinni er deilt á Facebook birtist þó enn þá myndin þar sem merki fyrirtækisins hefur verið fjarlægt af bolnum. Til þess að laga slíkt þarf að nota sérstakt tól.

Hún telur ástæðuna fyrir beiðni 66° Norður hafa verið þá að lesendur myndu tengja fyrirtækið sérstaklega við Hjalta og afbrot hans en hún talaði ekki beint við talsmenn fyrirtækisins. „Það var eitthvað svoleiðis skilst mér“. Hún segist jafnframt ekki vita hvort fyrirtækið sé með stóran auglýsingasamning við RÚV, fréttastofan og markaðsdeildin séu algerlega aðskilin. Þetta hafi aðeins verið mistök eins starfsmanns á fréttastofunni.

Vísir fjarlægði myndina

Þann 3. september birtist frétt á Vísi um Hjalta Sigurjón, „Dæmdur barnaníðingur ók grunnskólabörnum“. Með fréttinni var birt sama mynd og hafði áður birst á Stundinni og RÚV en hún var síðar fjarlægð úr frétt Vísis.

„En við sögðum þvert nei við því. Við værum ekki í því að breyta því hvernig fólk er klætt á myndum“

Kolbeinn Tumi Daðason, aðstoðarritstjóri fréttastofu 365, skrifaði umrædda frétt og segist kannast við þetta. Hann segir Hjalta hafa haft samband við fréttastofuna um helgina og beðið um að myndin yrði fjarlægð. „Þessi mynd er ekki í okkar eigu. Þessi mynd er af Facebook reikningi Hjalta og við höfum ekki rétt til að nota hana. Ef við ættum mynd af Hjalta Sigurjóni Haukssyni í safninu okkar þá myndum við nota þá mynd og birta hana.“

Hann segir að fréttastofan hafi einnig fengið beiðni frá 66° Norður um að fjarlægja merki fyrirtækisins af myndinni. „Við fengum vinsamleg tilmæli um að taka lógóið út af bolnum. En við sögðum þvert nei við því. Við værum ekki í því að breyta því hvernig fólk er klætt á myndum“.

Umrædd mynd af Hjalta í bolnum frá 66° Norður var fjarlægð úr frétt Vísis, en það var gert eins og áður segir að ósk Hjalta en hún birtist engu að síður þegar fréttinni er deilt á Facebook.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.