fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

„Ofbeldið sem þetta fólk lifir við er daglegt og takmarkalítið“

Sigurjón lýsir kynnum sínum af geðsjúkum manni og aðstæðum hans

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 3. september 2017 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Aðstæður þess sem er geðveill, heimilislaus og í neyslu eru ægilegar, það er engin leið til að orða það neitt vægar. Allur peningur sem viðkomandi sér þurrkast upp á einhverjum tugum klukkustunda, eftir það er lífið upp á guð og gaddinn komið; lífið gengur út á það að koma sér milli staða, redda matarbita hér og þar, áfengi og einhver lyf þess á milli. Ofbeldið sem þetta fólk lifir við er daglegt og takmarkalítið, fólk í þessum heimi misnotar hvert annað miskunnarlaust. Allt gengur út á það að koma firrtri sál í gegnum einn dag í viðbót. Geðveilir fíklar upplifa allt annan heim en við hin, mikið af því er óraunverulegt, það sem er þó gersamlega raunverulegt er útskúfunin úr samfélaginu, hana finnur fólk í þessari stöðu daglega, allan daginn.“

Þetta skrifar Sigurjón Njarðarson í áhrifamiklum pistli á Facebook. Þar lýsir hann persónulegum kynnum sínum af geðsjúkum fíkli og skelfilegum aðstæðum þess manns. Sigurjón segir að þessi hópur, fíklar með geðræn vandamál, sé frekar lítill, líklega nokkur hundruð manns. Íslenskt samfélag hafi fjárhagslega burði til að veita þessu fólki fullnægjandi aðstoð og stuðning en það virðist skorta skilning. Sigurjón skrifar:

Hvar sem þau stíga niður fæti mæta þau lítilsvirðingu, hrekjast frá úrræði í úrræði, svara endalaust sömu spurningunum. Sjaldan eða aldrei upplifa þau að „kerfið“ taki tillit til þeirra aðstæðna eða þarfa og skilaboðin sem þau heyra frá samfélaginu eru að til þess að hjálp fáist verði þau að taka til hjá sjálfum sér fyrst. Fátt er jafn ósanngjarnt eins og það að vænta heilbrigðar hegðunar hjá óheilbrigðu fólki. Augljósa niðurstaðan er að fíklar með andleg veikindi í bónus deyja frá okkur umvörpum, þó ekki fyrr en að foreldrar, systkini og börn hafa orðið fyrir stórkostlegum skaða.

Sigurjón lýsir því enn fremur hvernig þetta fólk virðist oft lenda í tómarúmi á milli félagslega kerfisins og heilbrigðiskerfisins, þjónusta við þau skarast á milli þessa kerfa sem hafa ólík hlutverk.

Sigurjón kallar eftir auknum skilningi, fjármagni og umfram allt virðingu til handa þessum afrækta þjóðfélagshópi. Pistill hann er í heild sinni hér að neðan:

Í gærkvöldi skolaðist til mín maður sem er haldinn geðsjúkdómi og glímir við fíknivanda. Hann er ekki einstakur og staða hans ekki heldur. Fyrir tæpu ári síðan missti hann síðasta stað sem hægt er að kalla heimili, án þess að geta sagt til um það með fullri vissu, þá efast ég um að við flest hin myndum skilgreina það sem heimili. Síðan hefur hann flækst um vítt og breitt fárveikur og hjálparlaus. Aðstæður þess sem er geðveill, heimilislaus og í neyslu eru ægilegar, það er engin leið til að orða það neitt vægar. Allur peningur sem viðkomandi sér þurrkast upp á einhverjum tugum klukkustunda, eftir það er lífið upp á guð og gaddinn komið; lífið gengur út á það að koma sér milli staða, redda matarbita hér og þar, áfengi og einhver lyf þess á milli. Ofbeldið sem þetta fólk lifir við er daglegt og takmarkalítið, fólk í þessum heimi misnotar hvert annað miskunnarlaust. Allt gengur út á það að koma firrtri sál í gegnum einn dag í viðbót. Geðveilir fíklar upplifa allt annan heim en við hin, mikið af því er óraunverulegt, það sem er þó gersamlega raunverulegt er útskúfunin úr samfélaginu, hana finnur fólk í þessari stöðu daglega, allan daginn.

Hvar sem þau stíga niður fæti mæta þau lítilsvirðingu, hrekjast frá úrræði í úrræði, svara endalaust sömu spurningunum. Sjaldan eða aldrei upplifa þau að „kerfið“ taki tillit til þeirra aðstæðna eða þarfa og skilaboðin sem þau heyra frá samfélaginu eru að til þess að hjálp fáist verði þau að taka til hjá sjálfum sér fyrst. Fátt er jafn ósanngjarnt eins og það að vænta heilbrigðar hegðunar hjá óheilbrigðu fólki. Augljósa niðurstaðan er að fíklar með andleg veikindi í bónus deyja frá okkur umvörpum, þó ekki fyrr en að foreldrar, systkini og börn hafa orðið fyrir stórkostlegum skaða.

Eftir stuttar fortölur tókst mér að fá vin minn til að leita aðstoðar fagfólks, hann tók þó skýrt fram að þar væri enga hjálp að fá, hann hefði leitað til lækna og meðferðaraðila svo árum skiptir og þar væri lítils að vænta, ég hringdi því á undan mér á bráðamóttökuna í Fossvogi (Geðdeild og bráðamóttaka geðdeildar lokar kl.19:00, væntanlega vegna þess að enginn veikist andlega eftir kvöldmat) þar sem mér var tjáð að hann gæti fengið þar vist þangað til geðdeild opnaði aftur. Þegar á þetta reyndi, eftir miðnætti, kom í ljós að ekkert pláss var þar fyrir mann með miklar ranghugmyndir og sjálfsvígshugsanir en mér var bent á að hægt væri að athuga með gistiskýlið og að hann gæti svo mætt á geðdeild í morgunsárið. Þar sem gistiskýlið er nokkurn veginn síðasti staðurinn sem veikt fólk þarf að vera á (sérstaklega á útborgunardegi framfærslu) var lítið annað hægt en að koma vini mínum í skjól og bíða morguns.

Á Landspítalanum í morgun var okkur tjáð að ekkert væri hægt að gera fyrr en bráðdeild geðsviðs opnaði á hádegi (væntanlega vegna þess að enginn veikist andlega fyrir hádegi). Eftir að hafa útskýrt fyrir einhverju starfsfólki, sem fyrir tilviljun labbaði þarna framhjá, að ég væri í annarri Reykjavíkurferð minni á tíu klukkutímum og að ég væri lítið annað að gera en það sem fyrir mig hefði verið lagt var loksins fallist á að veita okkur áheyrn. Þetta endaði svo á því að hann fékk innlögn eftir töluvert miklar fortölur. Hann er því í einhverju skjóli, í bili allavega. Reynslan kennir manni það að líklegasta útkoman er einhver bati til skamms tíma sem, eftir einhvern tíma, sígur jafnt og þétt úr uns darraðardansinn hefst aftur.

Áður en lengra er haldið vil ég taka sérstaklega fram að alls staðar mætti mér velvilji og samúð með aðstæðum vinar míns, geta „kerfisins“ virðist einfaldlega ekki vera meiri. Heilbrigðiskerfið er ekki félagslegt úrræði og félagslega kerfið er ekki heilbrigðisúrræði. Þarna á milli virðist myndast eitthvert tómarrúm sem næst ekki að fylla í.

Hérna er sko málið: þetta þarf ekkert að vera svona. Fíklar með alvarleg andleg veikindi telja ekki þúsundir manna og kvenna. Þeir eru líklega taldir í hundruðum. Vandi þeirra er mikill en ekki óyfirstíganlegur og hann er vandi okkar allra. Hvað sem okkur finnst þá berum við öll ábyrgð á þessum lítt sýnilega hópi, ekki hvað síst vegna þess að þau eru meðal okkar viðkvæmasta fólks. Þau eru ekki fær um að mynda með sér samtök og kjósa sér talsfólk, þau eru ekki fær um að setja „pressu“ á kerfið. Það er enginn sem talar máli þeirra… og þau deyja umvörpum.

Þetta snýst ekki um stjórnmál og flokka, stefnur og stefnumótun, hægri eða vinstri. Þetta snýst um að við sem samfélag viðurkennum þetta fólk og hjúkrum því. Ef þetta er spurning um fjármagn þá hljótum við að geta fundið einhver jarðgöng einhvers staðar sem hægt er að fresta í 1-2 ár, mislæg gatnamót sem hægt er að endurskoða. Þetta þarf ekki einu sinni að vera fjármagnað af ríkinu, einhver hluti stærstu fyrirtækja landsins getur sett sig í samband við einhverja og komið að þessu með beinum hætti. Samfélag sem getur lækkað höfuðstól húsnæðislána, þeirra sem breiðust bökin bera, um tugi milljarða, getur ekki skýlt sér undan ábyrgð á þessu fólki af fjárhagslegum ástæðum.

Það þarf þó meira til, við sem samfélag þurfum að læra að umgangast veikt fólk af viðeigandi virðingu. Það getur ekki verið ásættanlegt að við synjum veiku fólki ummönnun. Það má ekki vera ásættanlegt.

Reynum þetta allavega…

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri

Maður á sjötugsaldri í gæsluvarðhald vegna andláts konu á Akureyri
Fréttir
Í gær

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga

Manndrápsmálið á Suðurlandi – Hinn látni sagður hafa hringt í kærustu sína skömmu fyrir andlátið og sagst hafa fallið úr stiga
Fréttir
Í gær

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni

Jólaskotárásin á Hvaleyrarholti – Faðirinn skýldi 9 ára dóttur sinni fyrir skothríðinni
Fréttir
Í gær

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“

Íbúar brjálaðir út í Hafnarfjarðarbæ: „Þetta er til háborinnar skammar og engin lausn“
Fréttir
Í gær

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“

Kristján Berg veit betur núna og biðst afsökunar: „Það verður að hlúa betur að fólki með geðræn vandamál“
Fréttir
Í gær

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“

Þingmaður bendir á athyglisverða staðreynd – „Með brotabroti af útgjöldum okkar til hersins höfum við náð þessum árangri gegn Rússlandi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“

Ásdís Rán komin með lágmarksfjölda meðmælenda – „Þetta var auðveldara fyrir hina“