fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Eyjan

Æpandi þingmenn

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 29. september 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Margt bendir til að kosningabaráttan verði ódrengileg og beinlínis subbuleg. Í umræðuþáttum eru stjórnmálamenn farnir að hvæsa hver á aðra í kosningabaráttu sem er rétt að hefjast. Við erum að sjá upphaf að látum í staðinn fyrir rökræður. Spurningin er hvort kjósendur hafi mikla þolinmæði gagnvart slíku. Jafnlíklegt er að þeir fái höfuðverk í öllum hávaðanum og slökkvi á tækjunum.

Stjórnmálamenn verða að halda ró sinni. Það hefðu þeir til dæmis betur gert fyrir síðustu kosningar þar sem þeir yfirlýsingaglaðir kepptust við að útiloka samstarf við hina og þessa. Við tók margra vikna stjórnarkreppa áður en bögglað var saman ríkisstjórn sem afrekaði ekki nokkurn skapaðan hlut og tókst ekki einu sinni að halda upp á eins árs afmæli sitt. Hún var ósamstíga allt frá fyrsta degi og verklítil í samræmi við það.

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Maður skyldi halda að stjórnmálamenn hefðu lært sitthvað af mistökunum sem þeir gerðu í aðdraganda síðustu kosninga og myndu draga nokkuð úr gífuryrðum í garð pólitískra andstæðinga sinna. En ekki verður betur séð en þeir hafi ekkert lært. Tilfinningaórói hefur nánast tekið öll völd, taugakerfi manna er þanið til hins ýtrasta og ásakanir ganga á víxl. Væri ekki ráð að skipta aðeins um gír og huga að hag almennings? Komandi kosningar hljóta einmitt að snúast um fólkið í landinu og hvernig megi bæta kjör þeirra sem af ýmsum ástæðum standa höllum fæti. Það er þarna sem áherslurnar eiga að vera, þær eiga ekki að beinast að því hversu ógurlega vondir og vonlausir hinir pólitísku andstæðingar séu.

Það er síðan skylda stjórnmálaflokkanna eftir kosningar að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Það er ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það eina ferðina enn að klambrað sé saman ríkisstjórn, eftir margra vikna stjórnarkreppu, sem springur nokkrum mánuðum seinna. Menn verða einfaldlega að setjast niður og koma sér saman um leiðir og þá verða orð að standa. Það getur ekki verið svona óskaplega erfitt að innleiða heiðarleika í stjórnmálin. Í samstarfi vinna menn saman og leggjast ekki í þann ósið að stinga hver annan í bakið. Þetta er reglan á góðum vinnustöðum og hún á einnig að tíðkast í ríkisstjórnarsamstarfi.

Þjóðin kýs fulltrúa sína á þing og þeir eiga ekki að vera þjóðinni til skammar, eins og orðið er svo sárlega algengt. Stjórnmálamenn eru stöðugt í mynd, í þingsal og í sjónvarpsumræðum, og þá er betra að þeir séu í jafnvægi. Þingmaður sem hvæsir, æpir og öskrar er ekki sérlega trúverðugur, sama hversu góðan málstað hann telur sig vera að verja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?

Orðið á götunni: Verða Bessastaðir stökkpallur inn á Alþingi?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“

Þrír milljarðar í súginn og þögnin ærandi – „Með öllu óskiljanlegt og ríkisstjórn Íslands til ævarandi skammar“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2

Sigurður Amlín nýr rekstrarstjóri hjá Stöð 2