Gamall skólafélagi Benedikts kemur honum til varnar: „Það eru engin hagsmunatengsl á milli okkar, jú kannski“

„Nú allt í einu er það stórmál að Benedikt Sveinsson, annálað góðmenni, faðir forsætisráðherra, stað- festi að ógæfumaður hefði eftir afplánun hagað sér samkvæmt kröfum löggjafans og fær því þessa umdeildu „uppreist æru“. Þetta kom stjórnmálum ekkert við. Fjallað hefur verið um það eins og um stórglæp væri að ræða þó að öllu leyti væri farið að lögum.“

Ömurlegt að fylgjast með framvindunni

Þetta segir Birgir Guðjónsson læknir og gamall skólafélagi Benedikts Sveinssonar. Greinin er birt í Morgunblaðinu í dag. Í greininni kemur hann Benedikt til varnar en sem kunnugt er skrifaði Benedikt meðmælabréf fyrir Hjalta Sigurjón Hauksson, sem hlotið hafði fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni, þegar hann sótti um uppreist æru.

Björt framtíð ákvað sem kunnugt er að slíta samstarfi við Bjarna Benediktsson í kjölfarið. Ástæðan var trúnaðarbrestur og hann var sá að forsætisráðherra og dómsmálaráðherra hafi vitað að Benedikt, faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra, hafi veitt meðmæli með Hjalta.

Í grein sinni fer Birgir um víðan völl og segir að alþjóð öll hafi mikla samúð með brotaþolum kynferðisofbeldis. Þingmenn virðist einnig sammála um að þörf sé á að breyta umdeildum lögum um uppreist æru en þar ljúki samstöðunni. „Ömurlegt“ sé að fylgjast með framvindunni, bæði á þingi og í þjóðfélaginu.

„Bensi Sveins er heiðarlegur, vandaður, hógvær, karakter sem hefur hjálpað mörgum...“

Allt í einu stórmál

„Nú hefur komið fram að frá árinu 1995 hafa 32 einstaklingar fengið uppreist æru, þar á meðal nokkrir morðingjar, nauðgarar, barnaníðingar, fíkniefnasalar og einn þjófóttur þingmaður og tugthúslimur. Má því ætla að um það bil 65- 100 umsagnarbréf hafi verið send án þess að nokkurn tíma hafi verið talað um yfirhylmingu, óskað upplýsinga né gerðar athugasemdir fyrr en við umsagnarbréf Benedikts Sveinssonar sem andstæðingar virðast hafa haft spurnir af. Aldrei áður hefur fullkomlega lögmætt umsagnarbréf leitt til stjórnarslita og kosninga. Furðulegast af þessu öllu var endurreist þingmanns svo hann komst aftur á þing. Hvorki þingmenn né almenningur gerðu þá nokkra athugasemd né var gerður aðsúgur að umsagnaraðilum. Nú allt í einu er það stórmál að Benedikt Sveinsson, annálað góðmenni, faðir forsætisráðherra, staðfesti að ógæfumaður hefði eftir afplánun hagað sér samkvæmt kröfum löggjafans og fær því þessa umdeildu „uppreist æru“. Þetta kom stjórnmálum ekkert við. Fjallað hefur verið um það eins og um stórglæp væri að ræða þó að öllu leyti væri farið að lögum,“ segir Birgir í grein sinni.

Dýrasta liðhlaup sögunnar?

Hann ræðst harkalega að fréttastofu RÚV og segir hana hafa „tönglast“ á nafni Benedikts í hverjum fréttatíma „eins og til staðfestingar á glæp.“ Þá hafi Björt framtíð hlaupið úr stjórnarliðinu án þess að kynna sér málavöxtu og borið við trúnaðarbresti. Þetta hafi gert það að verkum að mörg mikilvæg mál hafi ekki komið til meðferðar, mál eins og um notendastýrða persónulega aðstoð fatlaðra, kjöt eftirlaunaþega og öryrkja, fjárveitingar til heilbrigðis- og menntamála.

„Þessu hleypur þetta stjórnmálaafl frá og verður varla kallað annað en Vonlaus framtíð.“

„Þessu hleypur þetta stjórnmálaafl frá og verður varla kallað annað en Vonlaus framtíð. Þetta skammarlega ábyrgðarlausa liðhlaup leiðir til kosninga sem kosta munu meira en 350 milljónir króna sem ekki munu nýtast annars staðar. Um 60 milljarða verðfall er orðið á hlutabréfum sem sennilega eru að stórum hluta í eigu lífeyrisjóða landsmanna. Þetta hlýtur að teljast vera dýrasta liðhlaup sögunnar. Fast á hæla þeirra með aðdróttanir og stuðning er stjórnmálaafl sem lofaði að reisa við en er nú ekkert annað en Viðsnúningur,“ segir Birgir.

„Heiðarlegur og vandaður“

Hann endar greinina svo á því að koma skólafélaga sínum fyrrverandi til varnar. „Benedikt Sveinssyni, eða Bensa Sveins eins og skólafélagar munu alltaf kalla hann með hlýju, kynntist ég Menntaskóla Reykjavíkur, þar sem við sátum saman í sömu stofu í nokkur ár. Langur tími leið áður en ég vissi að skeiðin í hans munni væri úr meiri eðalmálmi en mín ryðgaða. Hann barst aldrei á, það kom aldrei fram af hvaða ætt hann væri. Bensi Sveins er heiðarlegur, vandaður, hógvær, karakter sem hefur hjálpað mörgum sem hafi orðið undir í lífsbaráttunni án þess að það hafi verið borið á torg. Það eru engin hagsmunatengsl á milli okkar, jú kannski. Í skíðaferðum forðum daga með fleiri bekkjarsystkinum gátum við hafa hjálpað hvor öðrum á fætur við fall í brekkum,“ segir hann.

Hjalti Sigurjón starfaði hjá rútufyrirtæki Benedikts um margra ára skeið og sagði Hjalti í samtali við DV um miðjan septembermánuð að þeir væru vinir. Benedikt gerði lítið úr þeim vinskap og sagði að ekki væru mikil tengsl á milli þeirra, en Stundin greindi frá því þann 14. september að Benedikt hafi heimsótt Hjalta Sigurjón í fangelsi þar sem hann afplánaði fimm ára dóm sinn.

Þá hefur DV áður fjallað um það að fyrrverandi framkvæmdastjóri Kynnisferða, Einar Steinþórsson, hafi staðfest í samtali við DV að hann hafi verið beittur þrýstingi af stjórn fyrirtækisins um að Hjalti Sigurjón Hauksson yrði endurráðinn árið 2011. Hann segir að sér hafi verið tjáð að brot Hjalta væru ekki alvarleg. Að öðru leyti var ekki farið í saumana á fortíð bílstjórans sem fyrirtækinu virtist mikið í mun að halda í starfi, en Einar segir stjórnina hafa lagt þunga áherslu á að Hjalti fengi að starfa á ný hjá fyrirtækinu. Þá staðfestir annar fyrrverandi starfsmaður Kynnisferða, Úlfar Þór Marínóson að hann hafi verið beittur þrýstingi að ofan að finna annað starf fyrir Hjalta þegar upp komst að hann hefði verið dæmdur fyrir hrottalegt barnaníð.

Á þessum tíma voru stjórnarmenn þrír samkvæmt ársskýrslu en það vekur athygli að þó allir séu nátengdir Benedikt Sveinssyni, þá er hann sjálfur ekki þar á meðal. Stjórnarmenn Kynnisferða þá voru Benedikt Einarsson, Jón Gunnsteinn Hjálmarsson og Guðmundur Ásgeirsson.

Benedikt Einarsson er frændi Bjarna Benediktssonar; sonar Einars Sveinssonar, bróður Benedikts Sveinssonar. Hann hefur verið kallaður Engeyjarprinsinn af fjölmiðlum í gegnum tíðina en hefur komið að flestum viðskiptum Engeyinganna.

Jón Gunnsteinn Hjálmarsson var stjórnarformaður félagsins um árabil og var áður fjármálastjóri N1. Hann er meðstjórnandi í Sjálfstæðisfélagi Seltirninga. Guðmundur Ásgeirsson er æskuvinur Benedikts Sveinssonar og hefur verið viðskiptafélagi hans um áratugaskeið.

Félagið var á þessum tíma nær alfarið í eigu Engeyinganna en allir í fjölskyldunni fyrir utan Bjarna Benediktsson, fráfarandi forsætisráðherra, áttu hlut i því.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.