Vg, Björt Framtíð, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sögðu nei við stjórnarskrá: Píratar æfir

Píratar og Samfylkingarfólk stóðu fyrir dagskrártillögu þar sem lagt var til frumvarp Pírata um að stjórnarskrárbreytingar yrðu lagðar fyrir þjóðina og þar með bætt við þá dagskrá sem nú er verið að klára. Píratar og Samfylkingarfólk voru harðorð en fengu ekki mikinn hljómgrunn. Vinstri græn, Björt framtíð, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur sögðu einfaldlega Nei, takk. Viðreisn ákvað að sitja hjá við atkvæðagreiðslu. Þekktir stuðningsmenn Vinstri grænna og baráttufólk fyrir nýrri stjórnarskrá er ósátt við ákvörðun Katrínar Jakobsdóttur og félaga. Tillagan var felld með 41 atkvæði gegn 13. Fimm voru ekki viðstaddir. Viðreisn sat hjá, sjá frétt RÚV.

Helga Vala Helgadóttir lögmaður segir á Facebook-síðu sinni um niðurstöðuna:

„Andrés Ingi þingmaður VG reynir að kenna prófkjörsbaráttu í stjórnmálaflokkum um að fólk vilji koma stjórnarskrármálinu á dagskrá á næsta kjörtímabili. Þetta er ömurleg afsökun VG enda liggur fyrir að það eru nánast engin prófkjör í neinum flokkum nema mögulega hjá Pírötum sem aldrei hafa farið leynt með afstöðu sína í þessu máli. Þetta er orðið of augljóst kæru vinstrihreyfingingræntframboð.“

Illugi Jökulsson var til svars og sagði: „Ha, hann Andrés Ingi? Ritarinn okkar frábæri í A-nefndinni? Seint trúi ég því að hann sé að leggja stein í götu stjórnarskrárinnar!“

Sjálfur gerði Andrés grein fyrir atkvæði sínu:

„Það er engin leið að ræða þetta mál af einhverju viti eða yfirvegun á meðan fólk er í miðri prófkjörsbaráttu,“ bætti Andrés við að Píratar ættu ekki að vera setja sig á háan hest.

Helga Vala hélt svo áfram á Facebook:

„Atkvæðagreiðsla á þingi. Bjarni Benediktsson, sagði nei við þeirri tillögu að þjóðin fengi að greiða atkvæði um stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Það kemur ekkert brjálæðislega á óvart en Björt Ólafsdóttir þingmaður Bjartrar framtíðar gerði slíkt hið sama sem og Katrín Jakobsdóttir og allir þingmenn VG sem eru á móti því að þjóðin komi að þessu á næsta kjörtímabili. Brynjar var fjarverandi. Hanna Katrín Friðriksson sat hjá sem og aðrir þingmenn Viðreisnar en Guðjón S. Brjánsson þingmaður Samfylkingar sagði já. Takk fyrir það - þetta er frekar skýrt bara. #stjórnarskrá“

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra og þingmaður Bjartrar framtíðar, kvaðst ekki vilja tefla í tvísýnu hagsmunum fjölskyldna, þá í tengslum við breytingu á útlendingalögum.

„Þvílík hræsni,“ sagði Birgitta Jónsdóttir og bætti við að þingmenn treystu ekki þjóðinni til að greiða atkvæði en óskuðu á sama tíma eftir að fá atkvæði þjóðarinnar í kosningum.

Uppfært Í upprunalegu útgáfu fréttar sagði að Viðreisn hafði sagt Nei við stjórnarskrá. Hið rétta er að Viðreisn sagði hvorki já eða nei. Viðreisn sat hjá.**

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.