Þessi ummæli Bjarna á Facebook hafa valdið reiði og titringi

Bjarni Benediktsson var harðlega gagnrýndur af þingmönnum Pírata og Samfylkingarinnar sem sögðu hann hafa notað bága stöðu barna sem pólitíska skiptimynt. Fóru þau fremst í flokki Logi Einarsson, Smári McCarthy og Birgitta Jónsdóttir. Samkomulag náðist milli fimm flokka um þinglok í gærkvöldi. Þremenningarnir voru mjög ósátt við niðurstöðuna og vildu stjórnarskrármálið á dagskrá. Smári McCarthy sagði meðal annars á Facebook:

„Í dag reyndi Bjarni að stilla okkur upp við vegg á þann hátt að það yrði ekkert samkomulag nema við féllum frá stjórnarskrármálinu. Með því var hann að hóta að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti ....“

Hafa þessi ummæli verið gagnrýnd, þá sérstaklega af hægrimönnum og Bjarna sjálfum. Borgar Þór Einarsson lögmaður og sonur Ingu Jónu Þórðardóttur er einn þeirra. Hann segir:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Smári McCarthy gerir hér harða atlögu að nýlegu Íslandsmeti sínu í ómerkilegheitum án atrennu. Er einungis sjónarmun frá eldra meti.“

Bjarni skrifaði pistil og svaraði þar Smára. Bjarni sagði meðal annars:

„Þannig segir Smári Mccarthy sem nýlega var í fréttum fyrir rætnar samlíkingar við mál Jimmy Savile, að ég hafi með aðkomu minni að þinglokasamningum hótað ,,að ógna lífi barna og neita þolendum kynferðisofbeldis um réttlæti, ef ekki yrði fallið frá mjög eðlilegri kröfu um lýðræðisúrbætur." Afsakið, en er ekki bara komið ágætt af svona löguðu? Hvað eiga svona skrif að þýða? Er þetta framlag til bættrar þjóðfélagsumræðu - leiðin til að endurheimta traust á stjórnmálum? [...] Það er mín skoðun að ef hrófla á við einhverju í stjórnarskránni skuli vandað til verka, gefinn tími til umsagna og nefndameðferðar.“

Óvæntur stuðningur

Bjarni fékk síðan stuðning úr óvæntri átt þegar Ragnar Pétursson kennari sagði:

„Eins og margir vita er ég ekkert sérstaklega hallur undir Bjarna Ben og ég er doldið svag fyrir Pírötum. En ... ef Bjarni hótar málþófi og leiðindum vegna stjórnarskrármálsins en er til í að hleypa öðrum málum í gegn ... og aðrir flokkar sitja við sinn keip og heimta stjórnarskrármálið með hinum málunum, þá eru það þeir flokkar sjálfir sem eru að nota bágindi flóttabarna í pólitískum tilgangi en ekki Bjarni.“

Birgitta Jónsdóttir, Gunnar Smári Egilsson og Illugi Jökulsson mótmæltu öll þessum skrifum Ragnars:

„Þetta var alls ekki svona Ragnar, það var Bjarni sem var í algerum minnihluta sem hótaði enn einu málþófinu,“ sagði Birgitta: „Við höfðum ekki áhuga á leyfa freka kallinum að ná algerlega yfirhöndinni. Það eru líka til þingtæk verkfæri til að ná örfáum málum í atkvæðagreiðslu sem mikill meirihluti þingmanna er sammála um og mikill meirihluti þjóðarinnar er fylgjandi. Ef við hefðum verið með frekju þá hefðum við hótað málþófi og leiðindum eins og Bjarni gerði“

Skjáskot flakkar um Facebook

Þau sem vilja nýja stjórnarskrá eru ósátt við þessi ummæli Bjarna
Skjáskot sem hefur vakið athygli Þau sem vilja nýja stjórnarskrá eru ósátt við þessi ummæli Bjarna

Mörghundruð manns kunnu að meta skrif Bjarna á Facebook en hann var einnig gagnrýndur í kommentakerfum og bent á að Smári væri ekki sá eini sem gagnrýndi hann. Þar sagði Einar M. Atlason:

„Þetta þýðir bara eitt Bjarni, þú ert skíthræddur við nýju stjórnarskrána. Þú hefur ekki þor né kjark til að takast á við þjóðina ef hún væri í gildi.“

Bjarni svaraði nokkrum mínútum síðar.

„Þetta er einhver mikill misskilningur hjá þér. Það er engin ný stjórnarskrá.“

Katrín Oddsdóttir lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins var allt annað en sátt þegar hún sá skjáskot af þessum ummælum forsætisráðherra sem hafa farið á nokkurt flakk á Facebook:

Mynd: DV

„Var á frábærum fundi um nýju stjórnarskrána í kvöld. Kom svo heim og fór á netið og komst að því að hún er ekki til. Magnað þetta líf,“ sagði Katrín.

Illugi Jökulsson rithöfundur sem sat í stjórnlagaráði segir þetta nýtt trix Sjálfstæðismanna, þeir líti svo á að það sé engin ný stjórnarskrá því það sé ekki ný stjórnarskrá komin í gildi.

„Svo reikna þeir sig eldrauða í framan um það hvað stór hluti þjóðarinnar greiddi atkvæði í kosningunum um stjórnarskrána. Eða nei, það voru ekki kosningar, það var bara skoðanakönnun! Og skoðanakönnunin var m.a.s. ekki um hvort fólk vildi að nýja stjórnarskráin yrði grundvöllur stjórnarskrár Íslands, heldur bara um það hvort fólk vildi að hún yrði grundvöllur að FRUMVARPI um stjórnarskrá ... Og svo áfram. Hér talar forsætisráðherra þjóðarinnar. You can't make this shit up,“ segir Illugi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.