Fyrrverandi barnastjarna ákærð fyrir hrottalega árás við Krónuna: „Það var hann sem réðst á mig“

Sló ungur í gegn í Vaktaseríunni og þótti sýna stórleik sem sonur Georgs Bjarnfreðarsonar. Þá hefur hann leikið í tveimur kvikmyndum.
Arnar Freyr Sló ungur í gegn í Vaktaseríunni og þótti sýna stórleik sem sonur Georgs Bjarnfreðarsonar. Þá hefur hann leikið í tveimur kvikmyndum.
Mynd: Næturvaktin

Arnar Freyr Karlsson, sem flestir kannast við fyrir leik sinn í Vaktaseríunni, hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Arnar Freyr lék son Georgs Bjarnfreðarsonar, Flemming Geir, í þáttunum og kvikmynd. Þættirnir nutu fádæma vinsælda hér á landi og slógu einnig í gegn í Finnlandi.

Arnar Freyr, sem er fæddur árið 1993 og er því á 24. aldursári, er sakaður um að hafa ráðist á karlmann á fimmtugsaldri og slegið hann ítrekað með flösku í höfuðið. DV hefur rætt við manninn sem varð fyrir þessari árás og segir hann að árásin hafi verið fólskuleg og algjörlega tilefnislaus. Aðalmeðferð í málinu hefst þann 5. október næstkomandi.

Í samtali við DV vildi Arnar Freyr lítið tjá sig um málið utan þess að hann hafi ekki byrjað öll þessi áflog. Hann hafi verið einn á móti um fimm til sjö manns.

„Það var hann sem réðst á mig út af því að vinur minn kýldi stelpu og hljóp í burtu en í raun átti í útistöðum við son hans. Ég var á leið heim þá kemur maðurinn hlaupandi að mér og ræðst á mig. Svo koma fleiri sem voru með honum eða á hans vegum og ráðast á mig líka. Í kjölfarið er ég stunginn þegar búið er að ná mér niður af syni mannsins. Það var ekki ég sem var forsprakkinn af þessu bara svona hafa það á hreinu,“ segir Arnar Freyr.

Hrottaleg árás

Arnar Freyr er ákærður ásamt öðrum manni, Ara Páli Steingrímssyni, en samkvæmt ákæru hóf hann árásina. Atvikið átti sér stað á veitingastaðnum Moe´s við Jafnasel í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins 7. nóvember 2015. Ari Páll er sakaður um að hafa ráðist á fimmtuga karlmanninn með því að slá hann ítrekað í höfuð og andlit með þeim afleiðingum að hann hlaut mar og aðra yfirborðsáverka í andliti og framtönn í efri gómi brotnaði.

Ari Páll er svo sakaður um að hafa strax í kjölfar þessarar árásar ráðist á unga stúlku, sem þá var sautján ára, fyrir utan Moe´s. Í ákæru segir að hann hafi slegið hana af miklu afli vinstra megin í kjálkann með þeim afleiðingum að stúlkan hlaut „ótilfært brot í gegnum kjálkaálmu vinstra megin, neðan við kjálkaliðinn og brot án hliðrunar fremst í neðri kjálka hægra megin sem gekk skáhallt upp og miðlægt milli framtanna í neðri gómi,“ líkt og segir í ákæru.

Arnar Freyr er svo sakaður um að hafa skömmu eftir þetta atvik ráðist á fyrrnefndan karlmann á bílastæði við Krónuna, sem er skammt frá Moe´s. Arnar Freyr er sakaður um að hafa ráðist á manninn þannig að hann féll í götuna og slegið hann ítrekað með flösku í höfuðið með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut mar á kinnbeini vinstra megin og yfirborðsáverka í andliti, mar á öxl, olnboga og brjóstkassa, sár á fingri og yfirborðsáverka á hné. Þetta telst sérstaklega hættuleg árás og getur því varðað fangelsi allt að sextán árum.

Fékk fimmtán, tuttugu högg í hausinn

Maðurinn sem varð fyrir árásinni segir í samtali við DV að hann þekki þá tvo ekki neitt.

„Ég var sleginn niður af engri ástæðu. Ég var að tala við einhvern strák sem sat þarna og þá er ég bara sleginn að aftan og svo dundu á mér höggin. Ég var á leiðinni út í smókinn og var að tala við eitthvað fólk þarna. Síðan kemur stelpa sem er vinkona sonar míns og þá var búið að kýla hana líka. Þeir voru að ráðast á strákinn minn og þá hljóp ég út. Ég spurði hvert þessi Ari hafði farið, því ég vissi að sonur minn var búinn að hringja á lögguna og þá benda þeir allir á þessa barnastjörnu og ég hleyp á eftir honum og þá er ég sleginn niður með flösku. Svo fæ ég einhver fimmtán, tuttugu högg í hausinn þar til sonur minn kemur og rífur hann af mér. Þá hleypur hann í burtu,“ lýsir maðurinn sem varð fyrir árásinni. Spurður um hvort árásin hafi haft einhver áhrif á heilsu hans segir maðurinn: „Ja, það eru bara tennurnar á mér. Ég efast um að ég fái það bætt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.