„Maðurinn sem konan hafði fengið nálgunarbann á fannst í felum undir rúminu hennar“

Biggi lögga deilir reynslu af heimilisofbeldi

Þolendur heimilisofbeldis eru oft fastir í neti meðvirkni og úrræði á borð við nálgunarbann duga skammt, samkvæmt reynslu Birgis Guðjónssonar, sem oftast er kallaður Biggi lögga. Hann skrifar í dag áhrifaríkan pistil á Facebook-siðu sína þar sem hann rifjar upp kynni sín af heimilisofbeldi í gegnum starf sitt sem lögreglumaður. Í leiðinni lýsir hann yfir stuðningi við átak samtakanna „Á allra vörum“ fyrir Kvennaathvarfið og stappar stálinu í þolendur heimilisofbeldis.

Biggi segir þessa sögu, sem er lýsandi dæmi um þá erfiðu stöðu sem þolendur heimilisofbeldis eru oft í:

Eftir að hann hafði beitt hana ofbeldi ítrekað fékk hún loksins nálgunarbann á hann. Núna höfðu ættingjar hennar áhyggjur af því að ofbeldismaðurinn væri inni í íbúðinni hjá henni. Við fórum á vettvang til að athuga málið. Ég bankaði en það kom enginn til dyra. Við heyrðum samt einhvern umgang inni í íbúðinni. Ég kallaði þá og sagði að þetta væri lögreglan og bað hana um að opna.Eftir smá stund opnaði hún fyrir okkar og spurði hvað við vildum. Ég spurði hvort það væri í lagi hjá henni og hún sagði svo vera. Ég spurði hvort maðurinn væri inni hjá henni en hún neitaði því. Ég spurði þá hvort við mættum koma inn og athuga en hún vildi ekki leyfa það. Ég sagði hanni þá að við myndum samt koma inn þar sem okkur grunaði að maðurinn væri þarna inni. Það gat vel verið að konan væri að segja þetta undir hótunum. Hún sagði það ekki koma til greina að við kæmum inn og hótaði því að kæra mig. Ég sagði henni að gera það endilega ef henni fyndist á sér brotið og fór inn í íbúðina og fékk lögreglumennina sem voru með mér til að svipast um eftir manninum. Maðurinn sem konan hafði fengið nálgunarbann á fannst í felum undir rúminu hennar. Við drógum hann út undir skömmum konunnar á meðan hann grátbað hana um að láta okkur hætta. „Ertu í alvörunni að leyfa þeim að gera þetta!“ vældi hann. Maðurinn sem hafði lamið hana.

Birgir hrósar jafnframt Sigríði Björk Guðjónsdóttur og Öldu Hrönn Jóhannsdóttur fyrir að hafa innleitt nýtt verklag í meðferð heimilisofbeldismála:

Þetta er eitt af óteljandi málum sem ég hef farið í sem tengist heimilisofbeldi. Þau mál eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Þegar Sigríður Björk tók við lögreglustjórastarfinu á höfuðborgarsvæðinu fóru hún og Alda Hrönn, sem er nú ný farin aftur til lögreglunnar á Suðurnesjum, að vinna við að breyta öllu verklagi í tengslum við heimilisofbeldismál. Eiga þær mikið hrós skilið fyrir þá ákvörðun og vinnu. Ég veit að þetta breytta verklag hefur bjargað mörgum úr vítahring heimilisofbeldis. Þetta hefur breytt lífum einstaklinga, fjölskyldum og samfélaginu öllu. Heimilisofbeldi er ólíðandi samfélagslegt mein.

Ég veit ekki hversu oft ég hef hringt í Kvennaathvarfið og spurt hvort það sé laust pláss. Oftast eru þessar hringingar á nóttinni og alltaf er tekið á móti þeim með opnum örmum sem þurfa á athvarfi að halda. Þar er frábært verk unnið og gífurlegt hugsjónarstarf.

Birgir víkur síðan sögunni ða landsöfnun sem nú stendur yfir fyrir Kvennaathvarfið og útskýrir hvers vegna þetta átak er svona mikilvægt:

Nú er í gangi landssöfnun fyrir kvennaathvarfið og tilgangurinn er að geta fjárfest í íbúðum til lengri dvalar fyrir þolendur heimilisofbeldis. Til þess að þolendur eigi aðra möguleika og auðveldara með að fara ekki aftur til gerandans. Slíkt úrræði á eftir að bjarga mörgum fjölskyldum og gefa konum og börnum aukna möguleika á eðlilegu lífi. Lífi sem er ekki fullt af ótta og sársauka. Lífi sem þau eiga skilið. Þetta er því frábært og verðugt framtak í alla staði og jákvætt að það sé svona mikil vitundarvakning varðandi heimilisofbeldi í samfélaginu. Ég hvet þá sem tök hafa á að leggja málefninu lið.

Þó að verið sé að gera fullt af frábærum hlutum til að vinna gegn heimilisofbeldi þá er það ekki næstum því alltaf nóg. Því miður. Þolendurnir eru oft orðnir svo fárveikir af lífshættulegri meðvirkni að það virðist ekkert vera hægt að gera. Kvennaathvarf eða breytt skipulag hjá lögreglunni skiptir þá ósköp litlu. Meira að segja nálgunarbann er gagnslaust. Þetta eru bara tímabundnar lausnir. Rétt til að láta bólgurnar hjaðna og líkamlegu sárin gróa pínu.

Ef þú sem lest þetta lifir í ótta á þínu eigin heimili þá verður þú að átta þig á því að það er ekki eðlilegt. Ekki sætta þig við það. Þú ert meira virði. Óttinn getur stafað af líkamlegu ofbeldi eða andlegu. Bæði er alvarlegt og óásættanlegt. Það er ekkert sem réttlætir ofbeldi. Ekkert. Ekki álag í vinnunni hjá honum, fjármálaerfiðleikar, stóra skapið hans, áfengissýkin eða fíknin. Og alls ALLS ekkert sem þú segir, gerir eða gerir ekki réttlætir ofbeldi gegn þér. Aldrei!

Það eru til ýmsar leiðir til að aðstoða þig út úr þessari aðstöðu en þú þarft alltaf að taka einhver skref sjálf. Þegar öllu er á botninn hvolft er þetta undir þér komið. Mundu samt að það er ekki bara þitt einkamál. Þetta snertir alla sem eru í kringum þig, sérstaklega börnin þín sem þú átt núna eða munt eignast í framtíðinni. Hafði samband við einhvern sem þú treystir eða lögregluna og fáðu aðstoð. Það er líf fyrir þig þarna úti. Það er frátekin fyrir þig framtíð án ótta. Þú átt betra skilið og þú veist það. Í dag er dagurinn. Heimilisofbeldi er á allra vörum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.