fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Pawel Bartozek leggur fram frumvarp um lögleiðingu kannabisefna

Ríkið muni innheimta kannabisgjald sem svipar til áfengisgjaldsins

Einar Þór Sigurðsson
Miðvikudaginn 20. september 2017 11:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pawel Bartozek, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að kannabisefni verði gerð lögleg. Felur frumvarpið í sér að settar verði reglur um framleiðslu, sölu og meðferð á kannabisefnum og neyslan leyfð.

Pawel greinir frá þessu á heimasíðu sinni og segist hann vera fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en að því standi einnig Sigrún Ingibjörg hjá Viðreisn og þingmenn Pírata, þeir Jón Þór Ólafsson og Gunnar Hrafn Jónsson.

Hverfa frá bannstefnu

„Á undanförnum árum hafa mörg ríki og landsvæði horfið frá bannstefnunni þegar kemur að kannabis. Má þar nefnda Úrúgvæ, Kanada og nokkur fylki Bandaríkjanna.
Stuðningsmenn breytinganna innihalda fólk á borð við Barrack Obama og Kofi Annan. Global Commission on Drug Policy hefur sagt að stríðið gegn eiturlyfjum hafi tapast og að það sé kominn tími fyrir alvöru skaðaminnkun, sem byggist á vísindalegri nálgun,“ segir Pawel í færslu sinni.

Afglæpavæðing framfaraskref?

Hann segir að hin harða vímuefnastefna hafi ekki haft þau forvarnaráhrif sem menn hefðu vonast eftir en skapað þess í stað gríðarlegt öryggisvandamál. „Fangelsi heimsins eru full af fólki sem ýmist framleiðir dóp, dreifir því, selur eða neytir. Enn fleiri komast í kast við lögin án þess að lenda í fangelsi, eru kannski handteknir eða sektaðir. Á Íslandi eru þetta yfir 1000 manns á ári,“ segir Pawel sem telur að afglæpavæðing, án reglusetningar, yrði framfaraskref.

„En ef framleiðsla og sala verða áfram ólögleg þá missum við tækifæri til að gera einmitt það sem máli skiptir: hafa eftirlit með framleiðslu, stýra aðgengi, vernda börn og ungmenni og skattleggja neysluna,“ segir hann.

Hann segir að frumvarpið sé byggt á handbókinni How to Regulate Cannabis: A Practical Guide sem kom út á vegum Transform-hugveitunnar.

Í vinnslu síðan í desember

Pawel segir að í ljósi liðinna atburða sé „líklegt að sú ásökun komi fram að um sé að ræða einhvers konar upphlaup, tilraun til að dreifa athygli frá öðrum málum.“

Pawel segist í því ljósi langa til að skýra frá því að frumvarpið hafi verið í vinnslu frá desember síðastliðnum. Beðið hafi verið með framlagningu í vor og það unnið yfir sumartímann þar sem fólk úr Ungliðahreyfingu Viðreisnar kom meðal annars að.

„Það stóð því alltaf til að leggja málið fram í þessari viku, að lokinni fyrstu umræðu um fjárlög. Þingflokkur Viðreisnar féllst á að veita því brautargengi svo það kæmist á dagskrá. Ef ekkert hefði gerst hefði það því verið rætt í þingsal á þessu hausti og farið til umsagnar. Það gekk því miður ekki eftir, út af öðrum, þekktum ástæðum. En ég vona þó að frumvarpið brjóti ísinn, hefji umræðuna og verði til þess að við munum einhvern daginn hætta að refsa fólki fyrir að neyta þessara tilteknu efna.“

Meginpunktar frumvarpsins eru þessir:

• Framleiðsla, sala og neysla leyfð.

• Aldursmörk verða 20 ár.

• Smásala heimil í sérstökum verslunum.

• Veitingasala heimil í sérstökum kannabisveitingastöðum, sem t.d. mega ekki selja áfengi

• Efnið selt í gráum umbúðum með einfaldri áletrun þar sem kemur fram nafn framleiðanda og vöruheiti og tegund vöru, nánari innihaldslýsing og viðvörun um skaðsemi

• Algert auglýsingabann.

• Kannabisgjald, áþekkt áfengisgjaldi. Upphæðin verður 2000kr. á hvert gram af virka efninu THC. (Ef THC styrkleikinn er 15% þýðir það 300 kr. gjald á gramm).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt