Lögregluþjónn í 29 ár en eftirlýstur í 14 ár

Eddie Hicks stundaði það að ræna fíkniefnasala þegar hann starfaði sem lögregluþjónn

Eddie var handtekinn í gær eftir fjórtán ár á flótta.
Gómaður Eddie var handtekinn í gær eftir fjórtán ár á flótta.

Lögreglan í Detroit í Bandaríkjunum hefur loks handtekið hinn 68 ára Eddie Hicks. Hicks þessi hafði verið á flótta undan réttvísinni undanfarin fjórtán ár.

Áður hafði Hicks starfað sem lögregluþjónn og var í ágætum metum hjá yfirmönnum sínum lengi vel. Eftir 29 ár í löggæslu fór að halla undan fæti þegar ásakanir komu fram um að hann stundaði það að ræna fíkniefnasala, bæði peningum og fíkniefnum sem hann seldi svo aftur til annarra fíkniefnasala.

Árið 2003 stóð til að taka málið fyrir hjá dómstólum en Hicks lét ekki sjá sig og raunar lagði hann á ævintýralegan flótta sem virtist ætla að ganga upp. Það er að segja þar til lögregla hafði hendur í hári hans í Detroit í gær. Hann á nú yfir höfði sér þungan fangelsisdóm.

Málið gegn Hicks á sínum tíma þótti nokkuð sterkt en lögregla hafði fengið ábendingar um vafasamar aðferðir hans áður en hann var handsamaður.
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, ákvað að leiða Hicks í gildru sem fól í sér að koma ætluðum fíkniefnum fyrir í ónefndu húsi í Chicago. Það var síðan látið spyrjast út til Hicks að þar væri að finna talsvert magn fíkniefna. Eftirlitsmyndavélum var svo komið upp fyrir utan umrætt hús.

Síðar var brotist inn í húsið og á eftirlitsmyndavélum mátti sjá Hicks gefa vitorðsmönnum sínum skipanir í gegnum farsíma fyrir utan húsið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.