Emil braust inn og braut gegn 11 ára stúlku: „Ég ætlaði ekki að hræða þig“

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi á mánudag karlmann í þrettán mánaða fangelsi fyrir að brjótast inn á heimili þann 5. maí síðastliðinn og brjóta þar á 11 ára stúlku sem svaf værum svefni. Maðurinn, Emil Arnar Reynisson, var jafnframt dæmdur fyrir að hafa daginn áður legið á glugga og horft á konu sem var berbrjósta. Þá var hann dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot en hann skildi tæpt gramm af kannabis eftir undir kodda stúlkunnar.

Emil var dæmdur fyrir að hafa staðið við rúm stúlkunnar eftir að hann braust inn í húsið og strokið henni um bak og mjöðm innanklæða. Því næst fór hann upp í rúmið til hennar og hélt áfram að strjúka henni. Stúlkan náði að flýja undan Emil inn á salerni en hann elti hana og reyndi að komast inn, sem honum tókst ekki.

Vaknaði við mann við rúmið

Lögreglu var tilkynnt um brot Emils rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt 5. maí. Lögregla ræddi þá við stúlkuna sem lýsti því að hún hafi vaknaði við það að maður hafi staðið við hliðina á rúmi hennar. Maðurinn hafi síðan farið að strjúka á henni bakið innan undir nærbolnum og farið niður á mjöðm hennar. Stúlkan sagðist hafa fært sig fjær manninum í rúminu en hann hafi þá skriðið upp í til hennar og reynt að strjúka hana meira.

Í dómi er atvikinu lýst svo: „Maðurinn hafi ítrekað sagt: „Ekki vera hrædd, ert þú H.“ Brotaþoli hafi náð að standa upp og sagst þurfa á klósett. Maðurinn hafi þá sagt: „Ég ætlaði ekki að hræða þig elskan mín, ertu H?“ Hafi brotaþoli farið upp á næstu hæð á salerni og læst að sér. Hún hafi heyrt manninn koma upp og segja: „Ég ætlaði ekki að hræða þig.“ Sá einstaklingur sem er kallaður H er fullorðin kona sem Emil taldi að vildi eiga við sig samræði.

Emil bar fyrir sig að þetta hafi ekki verið kynferðisbrot þar sem hann hafi ekki vitað að stúlkan væri barn. Hann kvaðst hafa verið verið undir áhrifum áfengis, örvandi efna og pillna. „Upphaflega hafi ákærði ætlað að hitta H og fara á stefnumót með henni en hann hafi ekki talið að H ætti heima í þessu húsi. Það væri rangt eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann hafi talið H búa í húsinu og að hún hafi sent sér fingurkoss og boðið sér inn í húsið. Kvaðst ákærði ekki vilja skýra þetta nánar. Ákærði hafi séð að stúlka hafi verið fyrir innan en reiknað með að hún væri eldri,“ segir í dómi. Emil sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir aldri stúlkunnar en þó hafi hann áttað sig á því að hún væri ekki fullorðin kona.

Stúlkan logandi hrædd

Brot Emils hefur haft mikil áhrif á stúlkuna. Fyrst hafi hún talið að henni væri að dreyma en svo hafi hún orðið gífurlega hrædd. Hún hafi reynt að standa upp en þá hafi Emil haldið henni og sagt henni að vera ekki hrædd. „Vitnið hafi læst sig inni á salerni og farið að gráta og ekki þorað að öskra á manninn. Maðurinn hafi reynt að opna hurðina og pikka upp lásinn en vitnið hafi náð að læsa aftur. Þá hafi maðurinn aftur sagt að hann hafi ekki ætlað að hræða vitnið,“ segir í dómi.

Sálfræðingur bar vitni fyrir dómi og lýsti hann vanlíðan stúlkunnar vegna atviksins. Hún væri hrædd við drauma sína og hvað hana myndi dreyma. Hún sé komin með snertifælni og þá finnist henni hún finna lykt þótt engin lykt sé til staðar. Þá hafi hún áhyggjur af framtíðinni. Að mati sálfræðings væri stúlkan líklegast með áfallastreituröskun.

Emil var metin sakhæfur og taldi geðlæknir að hann hafi ekki verið í geðrofi þegar hann framdi glæpinn. Hann var dæmdur í þrettán mánaða óskilorðsbundið fangelsi en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem hann sætti frá 6. maí til 24. júlí síðastliðinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.