Tinnu blöskraði aðskilnaður fjölskyldna í réttum: „Ég horfði á þúsundir saklausra einstaklinga hlaupa skelfingu lostin“

Segir kindur og lömb hafa verið örmagna og særð í réttum í Borgarfirði - „Það eru þau sem lenda í þessu fyrir ekkert nema græðgi og braglauka mannsins“

„Ég horfði á þúsundir saklausra einstaklinga hlaupa að réttunum skelfingu lostin. Þau voru virkilega þreytt, móð og másandi og greinilega fundu fyrir miklu stressi. Sumar kindurnar lögðust strax niður og reyndu að hvílast en það var litið svigrúm til þess innan um allan hópinn. Þau höfðu hlaupið langa vegalengd án hvíldar í marga klukkutíma. Ég get rétt ímyndað mér hvernig okkur myndi líða undir slíkum kringumstæðum,“ segir Tinna Björg Hilmarsdóttir dýraverndunarsinni og meðlimur í Aktívegan - samtökum um réttindi dýra til lífs og frelsis en hún telur tímabært að fólk líti á réttir út frá dýrunum sjálfum og setji sig í spor þeirra. Tinna varð vitni að réttum á dögunum og kveðst hafa verið hálf lömuð og full af sorg og reiði yfir því sem hún sá. Á meðan hafi börn og fullorðnir skemmt sér og hlegið saman.

Aktívegan hópurinn hefur áður vakið umtal en Tinna Björg ræddi við DV í nóvember í fyrra í tengslum við umdeild mótmæli hópsins fyrir utan SS á Selfossi. Söfnuðust meðlimir hópsins saman fyrir utan húsið, þar sem verið var að flytja sauðfé til slátrunar og hrópuðu meðal annars ókvæðisorðum að starfsmönnum sláturhússins. Í kommentakerfi DV tjáðu ófáir skoðun sína á hópnum og því sem hann stendur fyrir en Tinna sagði marga taka gjörðum samtakanna persónulega og benti á að ekki sé væri verið að ráðast beint á neytendur dýraafurða með þessum hætti.

Særðar og örmagna

Í opinni færslu á facebook lýsir Tinna upplifun sinni af réttum sem fram fóru í Borgarfirði á dögunum. Líkir hún því sem hún sá og heyrði við „algjöra ringulreið“ þar sem dýrin þurfi að líða fyrir að græðgi og bragðlauka mannsins. Hún segir kindurnar hafa verið örmagna í öllum hamaganginum. Birtir hún jafnframt meðfylgjandi ljósmyndir.

„Kindur og lömb verða þreytt eins og við og ekki með endalaust þol til að hlaupa svona langt bara því við viljum að þær geri það. Enda deyja oft kindur og lömb hreinlega vegna streitunnar sem smöluninni fylgir. Þau slasast líka oft á leiðinni.
Ég sá margar fjölskyldur reyna að halda hópinn, þar sem afkvæmin kúrðu upp við móður sína. Ég sá líka margar fjölskyldur tvístrast í sundur í þrengslunum og afkvæmi og móðir hrópa á eftir hvort öðru. Ég sá 4 til 6 mánaða lítil lömb ein á ferð, hrópa út í loftið og horfa í kringum sig, skiljanlega mjög hrædd og ekki að skilja hvað var að gerast, í leit að móður sinni.“

Ljósmynd/Facebook.
Ljósmynd/Facebook.

Þá lýsir Tinna því hvernig hún upplifði viðbrögð þeirra sem voru þarna samankomnir.

„Fólk hljóp inn í kindahópin, hrópuðu og sveifluðu höndunum að smala fleirum inn í réttirnar þar sem enn meiri þrengsli voru. Þar settist fólk ofan á þau eða stóðu yfir þeim, togandi í horn eða ull (sérstaklega ef engin horn voru) og drógu þau svo með sér í rétt hólf. Kindurnar og lömbin reyndu eins og þau gátu að finna útgönguleið, en þau voru innilokuð. Ég sá lítið lamb, einstaklega lítið, troðast undir hópnum. Ég lét fólkið í kring vita af lambinu og þá tóku menn á það ráð að rífa í kindurnar á hornunum og hreinlega fleyja þeim eins og tuskudúkkum í burtu frá lambinu. Vissulega til að koma lambinu til bjargar, í örfáar sekúndur þar til fólk gekk í burtu og lambið hvarf á ný.“

Hún kveðst hafa séð kindur með blæðandi sár og eina sem var með skaddað auga auk þess sem nokkrar kindur hafi höltrað. Þá hafi ein kind vafrað um blóð á horninu. Sláturtrukkar hafi síðan beðið eftir kindunum sem að sögn Tinnu sjá ekki fram á neitt annað en dauðann eða að þurfa að dvelja „í skítugum fjárhúsum í allan vetur þar til vítahringurinn heldur áfram og þær gerðar óléttar á ný.“

Ljósmynd/Facebook.
Ljósmynd/Facebook.

„Þetta var algjör ringulreið. Þetta hafði ég aldrei upplifað á eigin skinni áður en ákvað að fara til að upplifa þetta sjálf. Og að sjálfsögðu verandi dýraréttindarsinni upplifði ég þetta út frá sjónarmiði dýranna, það eru þau sem lenda í þessu fyrir ekkert nema græðgi og braglauka mannsins. Fyrir eitthvað sem er algjörlega óþarfi í nútíma samfélagi. Við þurfum ekki að gera þetta lengur. Þessi hefð þarf, smám saman,að hætta,“ ritar Tinna Björg síðan og bætir við að kærasti hennar hafi um árabil farið í réttir og haft gaman af. Viðhorf hans sé þó breytt eftir að hann áttaði sig á upplifun dýranna í þessum aðstæðum.

Þá ítrekar Tinna að öll dýr eigi rétt á umburðarlyndi, virðingu og kærleika, rétt eins og mannfólkið. Hún tekur fram að um hennar upplifun sé að ræða, en meiningin sé ekki að ráðast á íslenska bændur.

Ljósmynd/Facebook.
Ljósmynd/Facebook.

„Ef við setjum okkur af alvöru í spor dýranna og finnum að við myndum ekki vilja láta koma svona fram við okkur, þá þýðir það að sú framkoma sé ómannúðleg og röng. Svo einfalt er það. Við myndum ekki einusinni vilja sjá 4-6 mánaða gamla hvolpa og mæður þeirra í þessum aðstæðum. Kindur og lömb eiga það til að gleymast í umræðunni um velferð dýra, þar sem landsmenn telja að þær lifi lúxus lífi á Íslandi. En svo er ekki. Kindur og lömb hafa algjörlega rétt á sömu samúð og umhyggju og við veitum til dæmis gæludýrum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.