Vaktstjóri Burger-inn í Hafnarfirði sagði viðskiptavini að hengja sig um miðja nótt: „Hættu að vera með tussufýlustæla“

Jakub Clark fór á veitingastaðinn Burger-Inn í Hafnarfirði í gær og var heldur ósáttur við mat sinn. Hann greip því til þess ráðs að gefa veitingastaðnum slæma einkunn á Facebook-síðu staðarins. Hann bjóst þó ekki við viðbrögðum vaktstjóra veitingastaðarins sem sagði honum í einkaskilboðum ítrekað að hengja sig. Eigandi veitingastaðarins, Örn Arnarson, segist í samtali við DV standa með vaktstjóranum.

Jakub gaf Burger-inn eina stjörnu á Facebook stuttu eftir klukkan tíu í gærkvöldi. „Allt var brennt, beikonið gæti mögulega brotið glugga, kjúklingaborgarinn þurr og brauðið orðið blautt af sósunni, starfsmaður slökkti ljós meðan við vorum að borða. Mæli ekki með!,“ skrifaði Jakub.
Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta skipti sem álíka atvik á sér stað á Burger-inn en DV hefur áður fjallað um slíkt mál.

Svívirðingar í skjóli nætur

Klukkan þrjú í nótt fékk Jakub svo vægast sagt leiðinleg skilaboð frá Brynjari Arnarsyni, vaktstjóra þetta kvöld. „Við slökktum óvart ljósið á BURGERINN kveiktum strax aftur... ég tók matinn af borðinu og þið kláruðuð allt.... afhverju í fjandanum komstu ekki og sagðir eitthvað við okkur,“ sagði Brynjar í nótt.

Stuttu síðar kom svo lengri reiðilestur frá vaktstjóranum. „HÆTTU AÐ VERA MEÐ TUSSUFÝLUSTÆLA Á FACEBOOK KOMDU FREKAR OG SEGÐU EITTHVAÐ VIÐ OKKUR !!!! Það gerir menn réttdræpa að kvarta á netinu OG að vera tussa eins og þú og skrifa á netið .... HENGDU ÞIG ! VIÐ ERUM BESTI VEITINGASTAÐUR Á ÍSLANDI UM AÐ GERA AÐ VERA HÓGVÆR OG ER ÉG ÞAKKLÁTUR FYRIR alla sem elska BURGERINN... HENGDU ÞIG,“ skrifar Brynjar vaktstjóri.

Jakub segir í samtali við DV að honum þyki þessi hegðun einfaldlega fáránleg og að allir eigi rétt á sinni skoðun. Hann sendi DV jafnframt afrit af svörum sínum sem eru hófsöm miðað við tilefnið. „Í fyrsta lagi er erfitt að klára ekki ehv sem maður borgar fyrir, ég sagði ekki neitt því ég vissi að þið væruð að loka og vildi ekki vera neitt leiðinlegur að láta ykkur vinna lengur, en það væri samt gott að vanda sig við að gera matinn. Líka mjög gott að læra að taka við slæmu review og bara læra út frá því,“ skrifaði Jakub til baka.

DV reyndi að ná tali af Brynjari án árangurs.

Stendur með vaktstjóranum

Í samtali við DV segir Örn Arnarson eigandi að vaktstjórinn muni ekki fá tiltal eða áminningu og segir hann að Jakub hefði átt að gera grein fyrir þessu á staðnum. „Ég get ekkert dæmt um þetta, ég hef ekki séð þetta því ég fer aldrei inn á þessar drullusíður, Facebook. Ég er ekkert þar inni og veit ekkert um þetta. Ég veit að þeir komu hingað og borðuðu upp til agna hverja einustu örðu og sögðu bara takk fyrir og fóru út. Svo koma þeir í bakið á mönnum og eru bara skíthælar. Skíthælar verða bara að vera á eigin vegum, hvar sem þeir vilja. Þetta er upplogið. Ég er búinn að heyra í þremur starfsmönnum sem voru hérna og þetta sem þú vitnar í er eingöngu lygi. Þú veist hvað lygi er?,“ spyr Örn.

Örn segir mikilvægt að menn kvarti á staðnum en ekki á Facebook. „Ef það kemur einn af þúsund og kvartar en allir hinir þakka fyrir sig og eru rosalega ánægðir. Hverjum tækir þú mark á? Ég hef ekki séð yfirlýsingar frá þessum dreng en það sem ég veit er að þeir borðuðu matinn, þökkuðu fyrir sig og fóru. Hefði hann fundið eitthvað að, í stað þess að drulla yfir okkur á Facebook, þá hefði hann átt að tala við okkur áður en hann yfirgaf staðinn. Þeir eiga að gera það á staðnum ef þeir ætla að láta það virka. Kjörorð okkar eru og það stendur á skilti sem hangir hér: „Láttu okkur vita ef þú ert óánægður, láttu aðra vita ef þú ert ánægður“,“ segir Örn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.