Heimamenn í Vogum skiluðu skítnum til ferðamanna: „Gott hjá ykkur“

Heimamaður í Vogum á Vatnsleysuströnd hafði í morgun fengið sig fullsaddan af ferðamönnum sem hægðu sér á víðavangi og tók til sinna ráða. Einn íbúi þar varð var við það að ferðamenn svæfu í bíl sínum og stuttan spöl frá bílnum fann hann ferskan mannaskít. Hann tók skítinn og klíndi honum á framrúðuna.

Maður sem kallar sig Einsi Cuda deildi myndum innan lokaðs hóps á Facebook ætluðum íbúum í Vogum og skrifaði: „Hér gisti einn túristin í nótt. góð staðsetning. svo fór helvítið bak við gám að drulla. náðum samt að skila því aftur því hann fór aftur að sofa.“ Myndirnar má sjá hér fyrir neðan. DV hefur staðfest að bíllinn er bílaleigubíll.

DV náði ekki tali af Einsa en íbúar í Vogum voru almennt nokkuð ánægðir með þetta uppátæki. Einn sagði einfaldlega: „Gott hjá ykkur“ meðan annar sagði: „Maka smettinu á viðkomandi uppúr kúknum. Annars ætti bærinn að vera með tjöru og fiður á lager fyrir svona gesti.“

Í sumar hefur fjöldi frétta verið sagðar af ferðamönnum sem ganga örna sinna á furðulegustu stöðum. Þar má nefna konu sem kúkaði við Hörpuna um hábjartan dag og kínverskar konur sem gerðu stykki sín á stéttina við gistiheimilið Langaholt á Snæfellsnesi. Það er ekki orðum aukið að margir séu búnir að fá sig fullsaddan af slíkri hegðun líkt og gjörningur Einsa ber vitni um.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.