Skelfilegt vanrækslumál skekur Þýskaland – Óskiljanleg meðferð á litlu barni

Foreldrarnir eiga allt að 10 ára fangelsi yfir höfði sér.

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Mynd: 123rf.com

Í september 2013 gerðu nágrannar fjölskyldu í Berlín barnaverndaryfirvöldum viðvart um að eitthvað væri að á heimili fjölskyldunnar. Nágrannarnir höfðu heyrt grát og öskur í margar klukkustundir á degi hverjum í fjórar vikur. Þegar starfsmenn barnaverndaryfirvalda mættu á vettvang tóku þeir þrjú börn foreldranna með sér vegna vanrækslu en verst var ástandið hjá tveggja ára dóttur þeirra. Hún vó aðeins 5,5 kíló en það er að jafnaði þyngd 2-4 mánaða barna. Stúlkan var flutt beint á sjúkrahús.

Bild segir að málið sé nú fyrir dómi en foreldrar stúlkunnar hafa verið ákærðir fyrir stórfellda vanrækslu og að hafa stefnt lífi dóttur sinnar í hættu. Málið hefur vakið mikla athygli í Þýskalandi og margir fjölmiðlar hafa sagt foreldrana vera „hryllingsforeldra“.

Samkvæmt því sem kemur fram í ákæru gat litla stúlkan, sem heitir Tessa, ekki staðið, hlaupið, tuggið eða talað þegar barnaverndaryfirvöld fjarlægðu hana af heimilinu. Hún var aðeins skinn og bein og með uppblásinn maga. Foreldrar hennar höfðu aldrei farið með hana til læknis og móðir hennar, 33 ára, sagðist aldrei hafa fengið áminningu um að mæta með stúlkuna til læknis.

„Tessa var strax erfið sem kornabarn. Mér fannst hún hafna mér. Hún sneri höfðinu undan þegar hún átti að borða. Og hún sóðaði allt út.“

Sagði móðir hennar fyrir rétti.

Faðir hennar, Christopher, 36 ára, sagði fyrir rétti að þau hefðu notað sömu uppeldisaðferð við Tessa og við bræður hennar en það hefði ekki dugað til. Hann sagði að þau hefðu ekki gert neinum viðvart um ástand Tessa því þau hefðu óttast að hún yrði tekin af þeim þar sem þau hefðu ekki mætt með hana til heilsufarsskoðunar á hálfs árs fresti.

Foreldrarnir fengu syni sína aftur heim en féllust á að gefa Tessa til ættleiðingar.

Foreldrarnir eiga allt að 10 ára fangelsi yfir höfði sér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.