Linda tímastillti myndavélina sína og gekk fram fyrir hana – Þá fór allt úrskeiðis

Mynd: Facebook/Linda Törner

Síðdegis síðasta föstudag var Linda Törner úti að njóta náttúrunnar eins og svo oft áður. Hún var í fjallgöngu í Noregi, þar sem hún býr, í góðu veðri. Þegar hún var komin hátt upp ákvað hún að taka mynd og stillti því myndavélinni sinni upp á stein og tímastillti hana. Hún gekk síðan fram fyrir myndavélina og stillti sér upp á steini og beið þess að myndin yrði tekin.

En skyndilega tók myndatakan allt aðra og óvænta stefnu og um leið alvarlega. Um leið og hún hafði komið sér fyrir á steininum losnaði hann.

„Um leið og ég stillti mér upp á steininum losnaði hann. Ég féll kannski tvo metra niður og steinninn var nærri farinn ofan á mig.“

Sagði Linda í samtali við Expressen.

Hún meiddist á baki, rófubeini og fékk skrámur á fótlegg en slapp að öðru leyti vel frá þessari óvæntu lífsreynslu. Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmynd smellti myndavélin af um leið og Linda datt og hefur myndin vakið mikla athygli í norrænum fjölmiðlum undanfarna daga.

Linda í einni af mörgum fjallgöngum sínum.
Linda í einni af mörgum fjallgöngum sínum.
Mynd: Facebook/Linda Törner

Linda sagði að það sem hefði valdið henni mestum áhyggjum væri að steinninn myndi lenda á einhverjum sem væri á gangi upp fjallið eða við rætur þess.

„Ekki nóg með að þetta hefði getað orðið mér að bana. Þessi steinn hefði einnig getað drepið aðra. Steinar, sem losna úr fjallshlíðum, ná oft miklum hraða og fara langt, langt niður.“

Skrifaði hún á Facebooksíðu sína. Hún ætlar ekki að láta þennan atburð hræða sig frá fjallgöngum í framtíðinni en segir að þetta minni hana á að vera mjög varkár þegar hún gengur á fjöll og helst að vera með einhverjum.

Facebookfærsla Lindu um atburðinn.
Facebookfærsla Lindu um atburðinn.
Mynd: Facebook/Linda Törner

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.