Fréttir

Tvær systur hurfu fyrir 42 árum – Nú er loksins búið að finna morðingja þeirra

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 13. september 2017 06:19

Fyrir 42 árum hurfu systurnar Sheila Lyon, 12 ára, og Katherine Lyon, 10 ára. Það var þann 25. mars 1975 að þær fóru í verslunarmiðstöð í bænum Wheaton í Maryland í Bandaríkjunum til að kaupa sér að borða, hitta vini og skoða páskaútstillingar verslana. Þær komu aldrei aftur heim.

Málið vakti strax mikla athygli og mikið var fjallað um það. Lögreglunni tókst þó ekki að handsama þann eða þá sem voru valdir að hvarfi þeirra systra. Teresa Brookland, skólasystir annarrar stúlkunnar, sagði í samtali við Time að málið hafi haft mikil áhrif á fólk á stórum svæðum nærri Washington. Fólk hafi viljað vita hver var valdur að hvarfi systranna og hvað hafi gerst.

Þegar málið var til rannsóknar í upphafi voru margir yfirheyrðir, þar á meðal Lloyd Lee Welch sem var þá 18 ára. Hann hafði sagt öryggisverði í verslunarmiðstöðinni að hann hefði séð systurnar halda á brott með karlmanni. Lögreglan lagði ekki trú á framburð hans. Önnur vitni höfðu séð karlmann elta systurnar og fylgjast með þeim og teikning var gerð af honum út frá þeim lýsingum en hún skilaði engum árangri.

Fyrir fimm árum ákvað lögreglan í Montgomery sýslu að gera lokatilraun til að leysa málið. Þegar lögreglumenn yfirfóru gögn málsins og gögn vegna annarra mála frá þessum tíma rákust þeir á ljósmynd af Lloyd Lee Welch en myndin var tekin í tengslum við skartgriparán 1977. Við nánari skoðun sáu þeir að ljósmyndin líktist fyrrnefndri teikningu mjög mikið.

Lloyd var kærður fyrir morðin fyrir tveimur árum síðan og játaði að hafa myrt systurnar. Hann var í fangelsi þegar hann var kærður en hann hafði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn 10 ára stúlku. Dómstóll í Bedford í Virginíu dæmdi hann í gær í 48 ára fangelsi fyrir að hafa numið systurnar á brott, að hafa myrt þær og brennt.

Saksóknari segir að ekki sé enn ljóst hvort Welch hafi verið einn að verki við ódæðisverkin og ekki er vitað hvar lík systranna er að finna. Talið er að þau hafi verið brennd í fjalllendi í Bedford sýslu, 300 km frá þeim stað þar sem síðast sást til systranna.

Foreldrar systranna, sem eru nú 77 ára, voru viðstaddir réttarhöldin sem og tveir bræður þeirra. Faðir þeirra, John Lyon, sagði í samtali við Washington Post að málið hafi staðið lengi yfir en nú væru þau þreytt og vildu bara fara heim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Með og á móti: Lúpína

Með og á móti: Lúpína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“