Svanurinn lítur dagsins ljós

Ljósmynd/Youtube.
Ljósmynd/Youtube.

Stiklan fyrir íslensku kvikmyndina Svanurinn hefur verið frumsýnd og má sjá hana hér fyrir neðan. Eflaust bíða margir spenntir eftir því að sjá hvernig verðlaunaskáldsaga Guðbergs Bergsonar kemur út á hvíta tjaldinu enda óhætt að fullyrða að Svanurinn sé eitt af hans ástsælustu verkum.

Svanurinn kom út árið 1991 hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin sama ár. Sagan segir frá Sól, níu ára gamalli stúlku sem send er á sveitabæ til að vinna og þroskast, en verður í staðinn lykilþátttakandi í atburðarás sem hún skilur vart sjálf.

Ása Helga Hjörleifsdóttir leikstýrir myndinni en þó svo að Svanurinn sé fyrsta kvikmynd Ásu Helgu í fullri lengd er hún þrautþjálfuð með tökuvélina, hún lærði kvikmyndagerð við Columbia-háskóla í New York og hefur leikstýrt nokkrum vel heppnuðum stuttmyndum.

Gríma Valsdóttir leikur stúlkuna, en Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir fara með önnur aðalhlutverk. Þá koma Ingvar E. Sigurðsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir einnig við sögu. Myndin er framleidd af Vintage Pictures og aðalframleiðendur eru Hlín Jóhannesdóttir og Birgitta Björnsdóttir.

Stefnt er að frumsýningu Svansins hér á landi í janúar 2018 en myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú um helgina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.