Amma reyndi sjálfsmorð: „Mér fannst eins og allir væru betur settir án mín“ – Faldi spilafíknina

Framleiðendur fylgdust með í hljóði og mynd - „Þetta er algjört helvíti,“ sagði spilafíkill sem tók þátt - Íslendingar eyða milljörðum í spilakassa á hverju ári

„Það snerist allt um það að fjármagna og finna pening. Þessu fylgdu svik og prettir gagnvart mínum nánustu en enginn vissi af þessu, öll þessi ár,“ sagði margföld amma á sextugsaldri í samtali við DV árið 2012 en hún var föst í viðjum spilafíknar í fjörutíu ár. Konan vildi ekki koma fram undir nafni verður hér kölluð Dóra. Saga Dóru var rifjuð upp í umfjöllun DV um tilraunir sem gerðar voru í Gallup á spilakössum sem byrgi Íslandsspila stóð fyrir að sögn Landsbjargar, SÁÁ og Rauða krossins.

Í um fjóra áratugi faldi Dóra fíknina fyrir sínum nánustu og spilaði fjárhættuspil hvenær sem færi gafst til, aðallega í spilakössum. Fyrir um tveimur árum sigldi hún í strand og ákvað að svipta sig lífi til þess að losna undan fíkninni sem stjórnaði öllu hennar lífi.

„Mér fannst eins og allir væru betur settir án mín. Sem betur fer var einhver sem tók í höndina á mér og hjálpaði mér í gegnum þetta,“ sagði Dóra sem var fegin að hafa fengið hjálp eftir öll þessi ár.

„Þessi sjúkdómur er þannig að hann er mjög skæður og mjög margir hafa farið þá leið að fremja sjálfsvíg til að losna. Það er mjög algengt. Sem betur fer tókst mér það ekki.“

Hér fyrir neðan má finna umfjöllun DV í heild sinni og þá er umfjöllun DV frá 2012 sem og saga Dóru rifjuð upp.

Starfsmenn Gallup heimsóttu níu spilasali yfir nokkurra daga tímabil til að freista fólks, fá það til að prófa nýja spilakassa sem Íslandsspil hyggjast markaðssetja hér á landi fyrir þeim sem stunda spilakassa grimmt. Íslandsspil eru í eigu Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ en þess ber að geta að SÁÁ tekur að sér að „afeitra“ spilafíkla. Ekki var auglýst opinberlega eftir þátttakendum. Þátttakendur voru fundnir með því að heimsækja spilasali víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu „yfir marga daga“. Til að verða gjaldgengur var nauðsynlegt að spila grimmt fyrir háar fjárhæðir en Gallup bauð fólki sem leggur vanalega undir tugi eða hundruð þúsunda í viku til að prófa sjö nýja spilakassa. Þátttakendur fengu fimmtán þúsund króna gjafabréf í Smáralind fyrir að segja álit sitt á spilakössunum eftir klukkutímana tvo. Þetta kemur fram á upptöku sem DV hefur undir höndum.

Spilakassarnir voru geymdir í höfuðstöðvum Gallup í Glæsibæ og voru þátttakendur boðaðir þangað eftir að hafa svarað hversu mikla fjárhæð þeir leggja undir og hversu oft þeir spila í kössum Íslandsspila í viku hverri.

Frá þessu greindi DV síðastliðinn föstudag og kom einnig fram að í höfuðstöðvum Gallup spilaði fólk í ótal hópum í rúman einn og hálfan klukkutíma og sagði svo álit sitt á leikjunum. Þannig fékk hver og einn þátttakandi möppu í hönd þar sem teknir voru fram hinir nýju sjö leikir. Við hvern og einn leik var síðan einkunnargjöf þar sem þátttakendur voru beðnir um að gefa leikjunum stig, frá einu upp í fimm, og var til að mynda spurt um hversu góðan bónusleik hver og einn leikur bauð upp á, hvernig hann kom þátttakendum fyrir sjónir og hvernig tónlistin var í umræddum leikjum. Mikið var lagt upp úr því að ræða við þátttakendur um hvern og einn leik en á meðan þeir spiluðu í kössunum þá fylgdust framleiðendur leikjanna, sem komu meðal annars frá Bandaríkjunum og Bretlandi, með hverjum og einum í hljóði og mynd úr öðru herbergi í höfuðstöðvum Gallup.

„Það voru níu staðir sem voru heimsóttir í marga daga, þannig að ég þyrfti bara að kanna það. Það er ekki eins og algjörlega öllum hafi verið náð. Við fórum á alla staði þar sem Íslandsspil voru“

Þá sagði jafnframt í frétt DV að spilafíkn hefði farið vaxandi á síðustu árum og spilafíklar stigið fram í fjölmiðlum og sagt að veikasta fólk þjóðfélagsins sé á bak við gríðarlegan hagnað Íslandsspila. Guðlaugur Jakob Karlsson, spilafíkill til fjörutíu ára, sagði í samtali við Vísi í fyrra að 95 prósent þeirra sem stunduðu kassana væru langt leiddir spilafíklar og þeir væru um átta þúsund. Vandinn væri falinn og fólk skammaðist sín fyrir fíknina.

„Þetta veit ég eftir fjörutíu ára reynslu af spilamennsku. Spilað er fyrir rúma milljón á klukkutíma, velta er 25 milljónir á dag. Það sem kemur í kassana. Þetta er tap spilafíklanna. Þetta er þungur baggi fyrir ekki fleiri að bera. Þetta er allt okkar veikasta fólk. Rónarnir niðrí bæ, ég þekki þá persónulega, sem hafa komið fram í viðtölum um áfengisvanda sinn … þeirra vandi er fyrst og fremst spilamennskan. Ekki vímuefnaneyslan. Þeir deyfa sársaukann með áfengi.“

DV fór einnig með falda myndavél í spilasalinn í Gallup og hefur Gallup gagnrýnt DV fyrir að birta samtöl við starfsmenn þegar blaðamenn DV undir fölsku flaggi gerðu tilraun til að lauma sér í hópana sem átti að prófa. Þá hefur DV leitað viðbragða hjá SÁÁ, Landsbjörg og Rauða krossinum sem eiga Íslandsspil. Arnþór Jónsson formaður SÁÁ sagði vinnuaðferðirnar algjörlega til skammar en sagðist ekki hafa heyrt af málinu. Brynhildur Bolladóttir upplýsingafulltrúi hjá Rauða krossinum sagði tilkynningu frá Íslandsspilum væntanlega, en tilkynningin hefur enn ekki borist. Sagðist Brynhildur ekki hafa forsendur til að meta þær aðferðir sem notaðar voru við könnunina.

Landsbjörg svaraði spurningum á þá leið að þeir hefðu enga aðkomu haft að könnuninni og skelltu skuldinni alfarið á birgja Íslandsspila, Scientific Games, Gtech. Íslandsspil kaupa spilakassa af fyrirtækinu sem eru svo nýttir hér á landi. Í svari til DV frá Landsbjörg sagði meðal annars:

„Fulltrúar Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa rætt málið innan stjórnar Íslandsspila og fengið ítarlegar upplýsingar um þá ferla og það verklag sem þjónustuaðilar birgja félagsins notuðu við gerð könnunarinnar sem um ræðir.“

Í svari til DV kom hvergi fram að stjórn Íslandsspila hafi vitað að það stæði til að gera þessa könnun, en samkvæmt heimildum DV var stjórn Íslandsspila kunnugt um að til stæði að framkvæma könnunina sem beint var að íslenskum neytendum og munu kassarnir svo vera nýttir hér á landi í spilasölum og söluturnum. Í Facebook-grúppu Landsbjargar áttu sér stað heitar umræður um frétt DV og þótti mörgum skömm að því að Landsbjörg væri meðal annars rekið með peningum frá Íslandsspilum. Þá voru aðrir sem vildu meina að um fórnarkostnað væri að ræða. Formaður einnar björgunarsveitar sagði: „Hvar eigum við annarsstaðar að fá slíkar upphæðir? Þetta er siðlaust en það sem við stöndum fyrir kostar mikla peninga.“

„Ég ætla að biðja þig að koma aðeins nær míkrófóninum sem er hérna á borðinu. Þau heyra ekki alveg nægilega vel í þér í næsta herbergi“

Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Landsbjargar skellir skuldinni á birgjann og að könnunin væri keypt af Gallup í gegnum breska markaðsstofu. Þá sagði Jón Svanberg að svona kannanir væru gerðar um allan heim. Bætti hann við að Íslandsspil hefði ekki nákvæmar lýsingar um framkvæmd hennar þar sem skipulagið hefði ekki verið í höndum Íslandsspila. Jón Svanberg viðurkennir þar að stjórnin hafi vitað að framkvæma ætti könnun en heldur fram að stjórnin hafi ekki vitað nákvæmlega hvernig hún ætti að fara fram og kæmi Íslandsspilum í raun ekki við þar sem þeir væru ekki hluti af henni, þrátt fyrir að kaupa síðan vörur sem beint er að íslenskum neytendum og voru meðal annars prófaðar af íslenskum spilafíklum. Þá reyndi Jón Svanberg að réttlæta könnunina með þessum orðum:

„Hvað sem okkur kann að finnast hverju og einu um starfsemi fyrirtækja sem reka spilakassa þá er staðreyndin sú að kannanir sem þessar eru gerðar um allan heim og meðal annars hjá spilakassafyrirtækjum á öllum norðurlöndum þar sem eignarhald er þó að mestu í ríkiseigu. Þessar kannanir eru í raun ekki öðruvísi en aðrar markaðskannanir þar sem markhópar prófa vöru og veita endurgjöf. Slíkar kannanir birtast í öllum myndum allt frá snyrtivörum og upp í bílprófanir.“

DV vill því að þessu tilefni taka aftur fram að þátttakendur voru fundnir með því að fara í spilasalina og hvergi auglýst eftir þátttakendum. Þá hefur DV þrjár upptökur undir höndum þar sem þátttakendur voru boðaðir í könnun eftir að hafa greint frá því að þeir eyddu tugum þúsunda nokkrum sinnum í viku í spilakassa og þóttu þá hæfir til að gefa álit sitt. Þá ræddi DV við spilafíkla sem tóku þátt í könnuninni. Einnig tók blaðamaður DV þátt með því að lauma sér í einn hópinn. Þá lýsti einn þátttakandi könnuninni á þessa leið:

„Þetta er eins og dópsali sem væri með nýtt dóp sem aldrei hefði komið á markað hér á landi. Hann myndi boða dópistana í hópum heim til sín og greiða þeim smáræði fyrir að prófa nýja stöffið og fá álit þeirra á því. Um leið myndu þeir ánetjast og halda áfram að fylla veski hans af peningum.“

Baráttan um Íslandsspil – vilja stærri hluta af kökunni

Íslandsspil er ein mjólkurkú SÁÁ, Landsbjargar og Rauða krossins. RKÍ á 64% eignarhlut, Landsbjörg 26.5% og SÁÁ 9.5%.

Árið 2015 voru til að mynda rekstrartekjur Landsbjargar 205 milljónir vegna Íslandsspila og árið eftir 232 milljónir. Í báðum ársreikningunum segir:

„Tekjur af Íslandsspilum eru heldur meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og hefur stjórn reynt að þrýsta á að auka hlutdeild félagsins í hagnaði af rekstri fyrirtækisins. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur það ekki gengið eftir.“

Landsbjörg á tvo menn í stjórn Íslandsspila og hefur DV heimildir fyrir því að á þessu ári hafi verið unnið hörðum höndum við að láta endurskoða samninga og stækka hlut Landsbjargar. RKÍ hefur hins vegar viljað halda sínum hlut og tekið þurrlega í óskir Landsbjargar. Hefur Landsbjörg fengið álit lögfræðistofu til að reyna koma á nýjum samningi á milli félagana.

Jón Svanberg segir tekjurnar af Íslandsspilum afskaplega mikilvægar og tekur sérstaklega fram í spjalli við félagsmenn að þær hafi dregist saman á undanförnum árum, sem er þvert á það sem fram kemur í ársskýrslum. Þá segir Jón:

„Á sama tíma hverfa milljarðar á milljarða ofan úr landi í formi netspilunar ýmiss konar. Sú umræða fer reyndar aldrei hátt einhverrra hluta vegna.“

Falin myndavél í höfuðstöðvum Gallup

Hér á eftir fer umfjöllun DV frá því á föstudag í heild sinni:

Tveir blaðamenn DV höfðu samband við Gallup undir fölsku flaggi og kynntu sig sem áhugamenn um spilakassa. Þeir sögðust spila fyrir tugi þúsunda á dag fjórum til fimm sinnum í viku og að þeir eyddu frá þremur tímum upp í tólf tíma í spilasalnum. Starfsmenn Gallup vissu ekki að um blaðamenn DV var að ræða. Tilgangurinn var að fá boð um að fá að taka þátt í að prófa spilakassana og fara með falda myndavél í höfuðstöðvar Gallup. Ein af þeim spurningum sem þurfti að svara var hvort þeir eða einhver í fjölskyldunni starfaði við fjölmiðla. Þá hefur DV einnig undir höndum upptöku frá ónafngreindum heimildarmanni sem óskaði eftir að prófa kassana.

„Það voru níu staðir sem voru heimsóttir í marga daga, þannig að ég þyrfti bara að kanna það. Það er ekki eins og algjörlega öllum hafi verið náð. Við fórum á alla staði þar sem Íslandsspil voru,“ sagði starfsmaður Gallup í samtali við heimildarmann DV þegar hann óskaði eftir að fá að taka þátt í að prófa sjö nýja spilakassa sem Íslandsspil stefna á að kynna fyrir Íslendingum á næstunni. Íslandsspil er eins og áður segir í eigu Landsbjargar, SÁÁ og Rauða krossins. Hagnaður Íslandsspila er mörg hundruð milljónir ár hvert. Sögu spilakassa Íslandsspila má rekja til ársins 1972 þegar Rauði krossinn fékk leyfi til að reka svokallaða tíkallakassa. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og spilakassar eru ein helsta tekjulind þessara félaga. Samhliða því hefur fjöldi þeirra sem ánetjast spilafíkn aukist en mörg þúsund manns eiga við verulegan spilavanda að stríða. Í umfjöllun DV frá árinu 2012 kom fram að rekja mætti nokkur sjálfsvíg til spilafíknar. Fíkn í fjárhættuspil er misjöfn en flestir fíklarnir spila í spilakössum og eiga það sameiginlegt að leggja undir stórar fjárhæðir.

Í umfjöllun DV frá sama ári var einnig rætt við Sigurjón Skæringsson sem sagði reynslusögu af spilafíkn og hvernig fikt við kassana varð til þess að hann stal peningum úr bauk dóttur sinnar.

„Hún átti engar stórar upphæðir í bauknum, en bara að ég hafi gert það sýnir hvað ég gekk langt til að ná í pening. Þarna var ég lagður af stað í þessa vegferð sem endaði með útskúfun alls staðar. Það endar með því að allir hætta að taka mark á þér og það vill enginn taka mark á þér vegna þess að orðum þínum er ekki treystandi,“ sagði Sigurjón í samtali við DV en hann ákvað að segja sögu sína því hann vildi skilja skömmina eftir. „Það er ekki skömm að þessum sjúkdóm. Þetta er banvænn sjúkdómur og ég vona að mín frásögn geti hjálpað einhverjum öðrum.“

Heimildarmaður DV sem boðið var í hóp Íslandsspila hjá Gallup heitir Guðmundur. Hann ræddi við starfsmann Gallup og sagðist hafa heyrt að hægt væri að prófa hina nýju kassa.

„Af hverju að vera eyða peningum þegar maður getur gert þetta frítt,“ sagði Guðmundur á léttu nótunum.

„Ég þyrfti að fá að vita hve sirka oft spilar þú í viku eða mánuði. Spurningalisti sem þarf að fara í gegnum. Okkur langar að vita hvað þér finnst gott við leikina. Við erum með sjö nýja leiki sem við erum að testa,“ sagði starfsmaður Gallup.

„Ég spila kannski þrisvar fjórum sinnum í viku, misjafnt,“ sagði Guðmundur.

„Hvað lengi í einu að meðaltali?“

„Það fer eftir hvað ég er í miklu stuði. Hvað ég á mikinn pening. Jú, alveg kannski hálftíma plús,“ svaraði Guðmundur.

„Þá ert þú nú reyndar byrjaður að falla í hópinn sem vantar í. Hvað myndir þú segja að þú eyðir miklu að meðaltali?“

„Frá 5.000 upp í 20.000 kall, eitthvað svoleiðis. Meira að segja plús,“ svaraði Guðmundur.

„Ég er með hóp klukkan þrjú. Það er eina slottið sem ég á laust núna. En ef einhver dettur út ætla ég að fá að boða þig. […] Við erum í dag og á morgun. Við erum líka með fjóra hópa eftir vinnu. […] Sumir hópar eru blandaðir eftir hvað þeir spila mikið. Sumir hópar eru bara þeir sem spila mikið. Svo þeir sem spila meðalmikið,“ svaraði starfsmaður Gallup.

Blaðamaður fær að prófa kassa

„Hversu líklegur eða ólíklegur ertu til að spila í spilakössum Íslandsspila á næstunni?“

Höfundar þessarar greinar, Atli Már Gylfason og Kristjón Kormákur höfðu samband við Gallup með það að markmiði að komast í prufuhóp Íslandsspila. Atli Már var boðaður á fund klukkan 15 á fimmtudegi og Kristjón gaf ekki upp sitt rétta nafn og komst að klukkan 20 um kvöldið.

Fyrsta spurning Gallup var:

„Vinnur þú eða einhver á heimili þínu við eitthvað af eftirfarandi, við markaðssetningu eða markaðsrannsóknir, almannatengsl? Auglýsingagerð? Fjölmiðla? Happdrætti, söfnunarkassa, spilakassa?“

Eftir að hafa svarað neitandi kom næsta spurning:

„Hvað af undanförnu hefur þú gert á síðustu 12 mánuðum? Veðjað á íþróttaviðburð, spilað í lottó? Spilað í söfnunarkassa eða spilakassa?“

Svöruðu blaðamenn játandi sem og hvort þeir eyddu peningum í kassa Íslandsspila.

„Hversu háa upphæð notar þú að jafnaði í hverja ferð?“

„Það er alla vega 30 þúsund og getur farið upp í 60 þúsund. Ég myndi segja kannski svona 30 til 35 þúsund,“ svaraði Atli Már og bætti við að hann spilaði frá einum og hálfum klukkutíma upp í tólf klukkutíma en meðaltalið væri þrír tímar.

„Hversu líklegur eða ólíklegur ertu til að spila í spilakössum Íslandsspila á næstunni?“

Atli kvaðst afar líklegur til þess, en neitaði að spilamennskan hefði valdið fjárhagslegum vandamálum síðustu tólf mánuði. Þess ber að geta að það er þekkt á meðal spilafíkla að viðurkenna ekki vanda sinn og því erfitt að fá þá til þess að viðurkenna fjárhagsvanda, hvað þá síðustu tólf mánuði. Blaðamönnum DV var svo greint frá því að á meðan á tveggja tíma prufunni stæði ættu þátttakendur að skrifa nöfn sín á blað og síðan ætti hópurinn að ræða saman um kosti og ókosti hinna nýju leikja.

„Myndir þú segja að þú ættir mjög auðvelt eða erfitt með að tjá þig í hópnum?“

„Bara mjög auðvelt,“ svaraði Atli Már.

„Þá held ég að við séum með tíma fyrir þig og þú passir í einn hóp sem við erum akkúrat með lausan,“ sagði starfsmaður Gallup.

Gríðarlegar upphæðir í húfi

Íslendinga eyða háum fjárhæðum í spilakassa. Í umfjöllun DV fyrir tveimur árum var fjallað um fyrirspurn Ögmundar Jónassonar um spilakassa. Í svari Ólafar Nordal til Ögmundar kom fram að Íslendingar eyddu tæpum fjórum milljörðum í spilakassa á vegum Íslandsspila árið 2014. Frá árinu 2011 til 2015 eyddu Íslendingar 15,5 milljörðum í spilakassa fyrirtækisins. Upphæðirnar eru gríðarlegar en starfsemi Íslandsspila er reglulega gagnrýnd, þá meðal annars vegna þess að 9,5 prósent eru í eigu SÁÁ, sömu samtaka og taka við fárveikum spilafíklum í meðferð. Þessi staðreynd er oftar en ekki tabú hjá stjórnarmeðlimum SÁÁ sem vilja sem minnst ræða um þá fjármuni sem frá Íslandsspilum koma. Þá hafa Íslandsspil áður verið gagnrýnd en árið 2013 voru Íslandsspil styrktaraðili að fjölskylduþætti á RÚV.

„Þetta er bara hluti af því að skila sem mestum hagnaði aftur til eigenda, að sjálfsögðu snýst þetta alltaf um það,“ sagði Magnús Snæbjörnsson, framkvæmdastjóri Íslandsspila, þegar hann var inntur álits á gagnrýni á fyrirtækið. Þá sagði Magnús jafnframt: „Það hefur dregist saman hjá okkur þannig að við þurfum að fá fleira fólk til að nota klinkið, eins og við orðum það, í góð málefni.“

Ögmundur Jónasson, þá alþingismaður VG, gagnrýndi Íslandsspil harðlega á þessum tíma.

„Ég mótmæli þessu harðlega og krefst þess að menntamálaráðuneytið og þeir aðilar sem koma að stjórn Ríkis­útvarpsins, grípi í taumana. Þetta hljómar bara eins og hryllingssaga eða eitthvað úr óraunveruleikaþætti. Ég á erfitt með að trúa því að menn ætli að gera alvöru úr þessum hugmyndum sem eru, að mínum dómi, mjög vafasamar svona sjálfstætt skoðað.“

Þá gagnrýndi Ögmundur fyrirtækið aftur þegar í ljós kom, árið 2015, að Íslandsspil högnuðust um 780 milljónir af rekstri sinna spilakassa. Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri grænna.

Amma reynir sjálfsmorð

DV fjallaði ítarlega um spilafíkn árið 2012. Þar sagði Ásgrímur G. Jörundsson, ráðgjafi hjá SÁÁ, að spilafíkn væri stödd þar sem alkóhólismi var fyrir þrjátíu árum. Fíknin sé lífshættuleg. Viðhorfið til fíknarinnar væri svolítið þannig að fólk skildi ekki af hverju fólk hætti ekki bara að spila. Þá var rætt við ömmu sem reyndi sjálfsvíg vegna spilafíknar en hún veðjaði matarpeningunum og faldi vandann fyrir eiginmanni sínum.

Dóra fór fyrst að spila þegar hún var 15–16 ára. Hún hefur alltaf verið bindindismanneskja en lifði fyrir að spila fjárhættuspil. „Ég hef kannski aðeins öðruvísi sögu en margir aðrir, mín fíkn er spilafíkn en ég þekki enga aðra fíkn. Mín saga er kannski svolítið svona á skjön við margar aðrar. Ég fór í meðferð á Vogi sem bindindismanneskja en ég hef aldrei smakkað áfengi og fór í meðferð á Vogi vegna spilafíknar. Þetta hófst þegar ég var unglingur, fyrst í spilakössum, svo komu happadrættin, getraunir og svo þegar ég kynntist háspennukössunum hjá Happdrætti Háskólans þá fór ég á kaf í þetta. Mér fannst þetta rosalega gaman, því miður þá vann ég oftar fyrst til að byrja með, eins og flestir spilafíklar gera, svo þegar ég kynntist þessum háspennukössum sem Háskólinn er með þá heltók þetta mann. Mér var orðið sama um allt nema það að finna pening til að spila án þess að nokkur vissi af.“

Líf hennar stjórnaðist af spilafíkninni.

„Ég hugsaði um það dag og nótt hvernig ég gæti fjármagnað spilafíknina. Lífið snerist um það. Ég tók lán og lagði húsið mitt að veði, ég tók af matarpeningunum og borgaði ekki allar skuldirnar á réttum tíma. Það fór allt á hliðina. Þetta var púsluspil í mörg ár.“

Veðjaði matarpeningunum

Hún segist hafa spilað hvenær sem færi gafst og reyndi að fara á milli staða. „Hvenær sem ég fann stund. Þú ferð ekkert í sjoppukassann nema rétt fyrst, svo voru það þessir háspennukassar. Þetta er svolítið skrýtinn heimur – ég var farin að þekkja fólkið á spilastöðunum. Þetta voru orðnir kunningjar. Það eru alveg óskaplega margir sem stunda þetta.“

„Ef ég fór út í búð að versla í matinn þá gaf ég mér yfirleitt góðan tíma og búðarferðin gat tekið 4–5 tíma þess vegna. Ég fór kannski með með 10 þúsund krónur út í búð og ætlaði að tvöfalda upphæðina og ákvað að nota 5.000 krónur í kassann. Í 90 prósent tilvika tókst það ekki. Ég fór á milli staða til þess að spila en átti líka mína uppáhaldsstaði og var mest í háspennukössunum sem Háskólinn rekur.“

Dóra spilaði til þess að komast í ákveðið ástand. „Þig langar að komast eitthvert og ert að leita að einhverju sem ég segi stundum að sé eins og algleymi. Það er ekkert sem þú hefur áhyggjur af, þú ert laus við allt en það kemur náttúrulega tvöfalt til baka þegar þú rankar við þér. Þeir segja það þeir sem þekkja til að þessi fíkn sé sterkari en eiturlyfja- og eiturlyfjafíkn. Þegar fólk er komið á þann stað sem ég var á þá ertu löngu hættur á vinningstímabilinu og vilt bara fá þennan frið. Bara fara í þetta algleymi og þurfa ekki að hugsa um neitt.“

Eiginmaðurinn vissi ekki af fíkninni

Dóra sagði líklega fáa hafa grunað að hún, venjuleg húsmóðir í Reykjavík, væri háð spilakössum. Hún náði að fela fíknina fyrir fjölskyldu sinni og meira að segja fyrir eiginmanni sínum til 40 ára.

„Hann vissi eiginlega ekki af þessu fyrr en ég fór í meðferð. Hann vissi að ég hafði gaman af þessu en ekki að þetta væri mikið vandamál. Það vissi það enginn í kringum mig. Þessi fíkn spyr hvorki um stétt né stöðu.“

Eftir að Dóru var bjargað frá sjálfsvígstilrauninni þá fór hún í meðferð við spilafíkn. Í leit sinni á netinu fann hún líka GA-samtökin sem eru samtök spilafíkla sem hún segir að hafi hjálpað sér mikið en samtökin byggja á 12 spora kerfi. Hún sækir fundi þar nokkrum sinnum í viku og hjálpar nýliðum sem leita sér hjálpar hjá samtökunum.

„Ég gúglaði spilafíkn og þá kom upp heimasíða GA-samtakanna. Ég á samtökunum líf mitt að launa.“

Hún sagði það skipta höfuð máli hversu vel fjölskylda hennar studdi við bakið á henni. „Ég á alveg yndislega fjölskyldu sem hefur staðið við bakið á mér í gegnum súrt og sætt. Ég væri ekki hér á þessum stað sem ég er á í dag hefði ég ekki haft þau. Stuðningur er svo mikilvægur fyrir fíkla.“

Margar konur spilafíklar

Konur virðast hafa verið minna í umræðunni um spilafíkn en Dóra segir margar konur vera spilafíkla en vilja síður viðurkenna það.

„Því miður er það mín reynsla að konur eru ekki síður í þessu og eru mun ólíklegri til að viðurkenna það. Það er svo mikil skömm fyrir okkur sem konur að viðurkenna að við höfum ekki stjórnina. Við eigum að heita mæður og ömmur og allt það. Þessu fylgir svo mikil skömm.“

Hún segist vera fegin að hafa losnað úr viðjum spilafíknarinnar.

„Það var ansi stór biti að viðurkenna þetta og enn þann dag í dag hugsa ég hvernig ég gat verið í þessum pakka. Ég skil það ekki og vona ég þurfi ekki að skilja það.“

Vann 4.3 milljónir

Áður hefur verið minnst á Guðlaug Jakob sem sagði sögu sína í samtali við Vísi en hann varð fíkninni að bráð 10 til 11 ára gamall. Árið 2009 missti hann algjörlega tökin þegar hann vann gullpottinn, 4,3 milljónir.

„Ég pantaði ferð til Kanarí fyrir mig og son minn, brottför mánuði eftir að ég fékk vinninginn. Ég þurfti að fá lánað fyrir gjaldeyri. Ég var búinn með vinninginn. Ég spilaði fyrir 750 þúsund daginn sem ég fékk þetta borgað út. Hætti snemma þann daginn. Þetta er brjálæði. […] Einu samlíkingar sem má láta sér detta í hug eru af heróínfíkli eða langt gengnum kókaínfíkli. Þú ert kominn á botninn, alltaf að bjarga þér fyrir næsta skammti. Þetta er miklu stærra vandamál en fram hefur komið.“

Pepsí, kex og kassar

„Það voru níu staðir sem voru heimsóttir í marga daga, þannig að ég þyrfti bara að kanna það. Það er ekki eins og algjörlega öllum hafi verið náð. Við fórum á alla staði þar sem Íslandsspil voru“

„Það spilar enginn í þessum kössum sér til skemmtunar. Það dettur engum í hug að bjóða fjölskyldunni einn sunnudaginn í Gullnámuna eða í kassa hjá Íslandsspilum því það er svo gaman. Það er bara af og frá. Þetta er algjört helvíti,“ sagði spilafíkill sem blaðamaður DV hitti fyrir utan höfuðstöðvar Gallup stuttu eftir að þeir höfðu báðir prófað nýju leikina. Atli Már var ásamt þremur öðrum í hóp og voru þeir á aldursbilinu frá fimmtugu til sjötugs.

„Það er allt útlit fyrir það að þið verðið bara fjórir. Við áttum von á einni konu en þið eruð ekki svo heppnir í dag, “ sagði starfsmaður Gallup sem bauð góðan daginn og bar veigar á borð fyrir þá sem voru mættir. Kex og Pepsí í boði Íslandsspila og Gallup.

„Nei, helvítis!“ sagði einn af þátttakendunum. „Engar konur með í dag?“

„Nei því miður, þið eruð óheppnir,“ sagði starfsmaður Gallup og bætti við: „Það voru þvílíkar gellur hérna í gær maður.“

Einhver spenna var í hópnum enda ekki á hverjum degi sem hægt er að spila í spilakössum frítt, hvað þá að prófa nýja leiki og fá fyrir það greitt. Um það ræddu þátttakendurnir sín á milli en kvörtuðu einnig yfir núverandi ástandi á spilakössum á Íslandi og þá sérstaklega þegar kemur að því að gefa vinninga: „Þeir gáfu miklu meira hérna í gamla daga. Við höfum tekið eftir því, við félagarnir, að undanfarin kannski tvö til þrjú ár þá hafa kassarnir bara verið að gefa miklu minna. Ég er að setja miklu meira í þá í dag en ég gerði fyrir þremur árum og ég er að fá miklu minna en áður. Þess vegna spila ég minna núna,“ sagði einn þátttakandinn.

Sveitt stemning

Mynd: Karl Peterson

„Áður en við byrjum þá þurfum við að fara yfir nokkur atriði með ykkur en síðan mun ég leiða ykkur inn í herbergið þar sem spilakassarnir eru. Það er mjög heitt inni í þessu herbergi og út af framkvæmdum á veginum hérna bak við okkur þá þurfum við stundum að loka glugganum. Inni í herberginu er samt vifta og við munum reyna að opna og loka dyrunum eins oft og hægt er til þess að ná í nýtt súrefni,“ sagði starfsmaður Gallup. Þá var þátttakendum einnig tjáð að í húsinu væru framleiðendur þeirra sjö nýju leikja sem yrðu brátt spilaðir og að þeir myndu fylgjast með í bæði hljóði og mynd úr öðru herbergi.

Eftir stutta tölu voru þátttakendur leiddir inn í herbergi þar sem voru sjö spilakassar. Starfsmaður Gallup hafði engu logið en mikill hiti hafði þegar byrjað að myndast áður en þátttakendur gengu inn í herbergið. Þetta í raun minnti á spilasal á Íslandi. Virkilega sveitt stemning.

Fylgst með úr öðru herbergi

Við tók einn og hálfur tími af spilamennsku. Spilamennska án áhættu, eitthvað sem íslenskir spilafíklar komast nær aldrei í kynni við fyrir utan einn og einn ömurlegan leik á Facebook. Á meðan fylgdust bæði innlendir og erlendir aðilar með hverri hreyfingu þátttakenda. Eftir að hafa spilað hvern leik í rúmar fimm til tíu mínútur þá komu starfsmenn Gallup og kveiktu handvirkt á bónusleik. Bónusleikirnir eru mest ávanabindandi hluti spilakassanna en um það voru þátttakendur sammála í lok „rýnihópsins“ – ef rýnihóp má kalla.

Í lokin voru þátttakendur beðnir um að fara yfir svör sín, hvaða einkunn þeir gáfu hverjum leik fyrir sig og hvað það var við leikina sem vakti áhuga þátttakenda. Í næsta herbergi voru svör þátttakenda þýdd í rauntíma fyrir hönnuði leikjanna sem höfðu komið hingað til lands sérstaklega til þess að fylgjast með íslenskum spilafíklum.

15 þúsund króna inneign. Gjafabréf DV fer til Kvennaathvarfsins
Fengu gjafabréf 15 þúsund króna inneign. Gjafabréf DV fer til Kvennaathvarfsins

„Ég ætla að biðja þig að koma aðeins nær míkrófóninum sem er hérna á borðinu. Þau heyra ekki alveg nægilega vel í þér í næsta herbergi,“ sagði starfsmaður Gallup við einn þátttakandann sem hafði hallað sér aðeins í stólnum, frá hringborðinu. Erlendu leikjahönnuðirnir voru að fylgjast vel með. Fyrir miðju í enda herbergisins var öryggismyndavél – henni var síðan stýrt af leikjahönnuðunum, allt til þess að komast að því hvort hægt væri að markaðssetja nýjustu spilakassana á Íslandi.

Að öllu loknu voru þátttakendur kvaddir með fimmtán þúsund króna gjafabréfi frá Smáralind. Atli Már mun í dag, föstudag, færa Kvennaathvarfinu gjafabréfið sem hann fékk fyrir að taka þátt.

Það sem vakti þó mesta athygli í öllu þessu ferli er að aldrei var minnst á orðið spilafíkill, spilafíkn eða spilavandi, hvorki í viðtölum fyrir rýnihópinn né meðan á þeirri vinnu stóð.

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.