Kona á sjötugsaldri samþykkti vinabeiðni á Facebook – Nú bölvar hún eigin heimsku

61 árs kona var blekkt illilega þegar hún samþykkti vinabeiðni á Facebook á síðasta ári. Vinabeiðnin reyndist henni mjög dýr þegar upp var staðið og væntanlega mun hún ekki gera þessi mistök aftur.

Konan, sem er nefnd Jennifer Chen í umfjöllun news.com.au um málið, býr í Ástralíu. Hún er frá Kína en hefur búið lengi í Ástralíu. Hún starfar við nálastungur og fær oft skilaboð frá ókunnugum á Facebook vegna starfsins. Af þessum sökum hringdu engar aðvörunarbjöllur hjá henni þegar bandarískur læknir, Frank Harrison, sendi henni vinabeiðni á síðasta ári. Hún samþykkti vinabeiðnina og byrjaði að skrifast á við hann. Hann gaf fljótlega í skyn að hann vildi hitta hana augliti til auglitis.

Myndin sem var notuð á Facebooksíðu Frank Harrison.
Myndin sem var notuð á Facebooksíðu Frank Harrison.

Eftir tveggja mánaða samskipti, þegar komið var fram í nóvember, byrjaði læknirinn hins vegar að svíkja Chen. Hann hringdi í hana og sagðist vera í vandræðum á flugvelli. Hann sagði að hann hefði fengið háa sekt því hann hefði verið með of mikið reiðufé, eða 1,5 milljónir Bandaríkjadala, meðferðis þegar hann var tekinn í tollskoðun.

Því næst hringdi kona, sem kynnti sig sem Michelle Tan og væri tollvörður í Malasíu, í Chen og sannfærði hana um að Harrison myndi verða látinn laus ef Chen millifærði 3.000 dollara.

En þar með var málinu ekki lokið því Harrison og Tan tókst að fá Chen til að millifæra peninga til þeirra 33 sinnum til viðbótar á næstu sex mánuðum. Ástæðurnar sem þau gáfu upp voru margvíslegar: stimpilgjöld, lögfræðikostnaður og annað í þeim dúr. Einnig hringdi maður, sem sagðist heita Raja Bin Abudullah og starfaði hjá OCBC Malaysia Bank, í hana til að ýta á millifærslur.

Þegar upp var staðið hafði Chen millifært sem svarar til um 50 milljóna íslenskra króna til þeirra en það var allt sparifé hennar og rúmlega það því hún hafði einnig gengið á sparnað eiginmanns síns.

„Ég vaknaði ekki. Ég fattaði ekki að þau voru bæði svikahrappar. Ég var líka hrædd við að segja manninum mínum frá þessu. Að lokum neyddist ég til að segja honum að ég hefði gert stór mistök.“

Sagði Chen í samtali við news.com.au.

Mynd af vegabréfi Frank Harrison sem Chen fékk senda.
Mynd af vegabréfi Frank Harrison sem Chen fékk senda.

Chen var einfaldlega fórnarlamb þaulreyndra svikahrappa, líklegast frá Afríku, sem sögðust vera Frank Harrison, Michelle Tan og Raja Bin Abudullah. Ljósmyndin sem Harrison notaði á Facebook er í raun og veru af bandarískum lækni sem heitir Garth Davis en að sögn er vinsælt meðal svikahrappa að nota ljósmynd af honum við starfsemi sem þessa.

Ástralska lögreglan segist lítið sem ekkert geta gert í málinu þar sem ekki sé vitað hverjir svikahrapparnir eru eða hvar þeir eru og peningarnir séu horfnir.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.