Halldór biðst afsökunar á að hafa skrifað bréfið: „Samúð mín er líka hjá fjölskyldu þessara perra“ - Óvíst hvort KR spili í Henson

Halldór Einarsson kenndur við Henson hefur fengið yfir sig holskeflu af skömmum í dag og í gær eftir að upp komst að hann hafi verið einn þeirra þriggja sem vottaði um að Robert Downey, dæmdur kynferðisbrotamaður, ætti skilið að fá uppreista æru.

Á samfélagsmiðlum hefur verið fólk verið hvatt til þess að sniðganga Henson vörur. Halldór segist sjá innilega eftir því að hafa skrifað bréfið í samtali við DV.

Hvatti félög til að hætta að versla við Henson

Brynjar Þór Björnsson, landsliðsmaður í körfubolta, deildi í gær stöðufærslu Jóa B. Bjarnasonar plötusnúðs og sagðist sammála honum. Í stöðufærslu Jóa, sem fór víða, hvatti hann öll íþróttafélög á landinu að hætta að versla við Henson.

„Halldór Einarsson selur íþróttaföt til held ég eiginlega allra yngri flokka á landinu og ég ætla að skora á fulltrúa ALLRA íþróttafélaga à landinu að finna sér aðra birgja en HENSON fyrir komandi tímabil og sýnum að orðum fylgir ábyrgð. Ég fyrir mitt set ekki börnin mín í búning frá manni sem samþykkir þetta,“ skrifaði Jói.

Brynjar er fyrirliði KR en þess má geta að liðið lék í Henson-búningum á síðasta tímabili og hefur gert síðustu fjögur ár. Samkvæmt heimildum DV er það í skoðun hjá KR hvort félagið spili í búningum merktum Henson á næsta tímabili. Engin ákvörðun hefur verið tekin í þeim efnum en málið er eins og áður segir til skoðunar. Félagið einbeitir sér nú að undirbúa liðið fyrir Evrópuleik á þriðjudaginn.

Sjá einnig: Þeir skrifuðu undir uppreist æru fyrir Robert Downey

Fleygði gallanum

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í viðtali við Vísi í gær sagðist Halldór harma að hann hafi blandast í mál Robert Downey. „Þetta er ömurlegt mál og mér finnst mjög sorglegt að hafa blandast inn í þennan harmleik. Ég er sjálfur faðir og mér finnst þetta bara harmleikur. Samúð mín er með því fólki sem varð fyrir þessu,“ sagði hann í samtali við Vísi. Í athugasemdum við þá frétt sögðust margir ætla að sniðganga Henson vörur og hvöttu aðra til að gera það sama.

Þá birti íslenskufræðingurinn, spéfuglinn og liðsmaður Baggalúts, Bragi Valdimar Skúlason á Snapchati sínu myndband fyrr í dag þar sem sjá má hann fleygja Henson-galla í ruslið.

Mynd: © Eyþór Árnason

Hildur Lilliendahl gagnrýndi jafnframt Halldór harðlega á Facebook-síðu sinni og sagði að hann hafi ekki blandast inn í málið. „Sjomli er bara miður sín yfir því að hafa blandast. Aumingja elsku greyið bara blandaðist. Getum við fundið manneskju í heiminum sem er raunverulega til í að axla ábyrgð á þessum ömurlega gjörningi? Er einhver sem skammast sín og er til í að gangast við því að hafa komið að þessu með fúsum og frjálsum vilja? Einhver?,“ spurði Hildur.

Biðst afsökunnar

Halldór vildi í samtali við DV ekki tjá sig um þessi hörðu viðbrögð gagnvart félagi sínu. Hann vildi lítið tjá sig utan þess að hann sæi mikið eftir því að hafa skrifað vottorðið. „Ég hef ekkert annað um þetta að segja en að þetta er harmleikur sem ég geri þau mistök að blanda mér inn í. Ég bið alla sem að málið snertir innilega afsökunar.

„Samúð mín er líka hjá fjölskyldu þessara perra sem að gera þetta. Því að þeir eiga líka fjölskyldur. Þetta eru bara mín orð, ég ætla ekki að hafa þetta lengra því að það er ekkert hægt að segja, því þetta er svo sorglegt mál að það er ekkert hægt að velta vöngum yfir því. Þetta eru mistök að fara að skrifa upp á þetta bréf því ég hefði aldrei á ævinni getað ímyndað mér að eitt svona bréf myndi segja til um það, af eða til hvort að hann fengi svokallað uppreista æru. Uppreist æra er bara pappír, uppreist æra er hvað fólkið í landinu segir,“ segir Halldór.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.