Fréttir

Brynjar segir Ragnar Reykás vera víða: „Vekur athygli vegna þess að í því er óþægilegur sannleikur“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Miðvikudaginn 13. september 2017 12:13

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur staðið mitt í þeim stormi sem geisað hefur vegna Robert Downey-málsins síðustu misseri. Brynjar hefur gagnrýnt umræðu á samfélagsmiðlum vegna málsins og þótt fólk ganga of hart fram. Líkt og ítrekað hefur komið fram var Robert Downey dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gagnvart fjórum stúlkum árið 2008. Hefur það verið harðlega gagnrýnt að Robert fengi uppreist æru. Bergur Þór Ingólfsson faðir Nínu Rúnar sem er þolandi í málinu hefur sagt að málflutningur Brynjars hafi verið íþyngjandi fyrir brotaþola Róberts. Bergur sagði:

„Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, hefur að mínu mati gert lítið úr glæpum Róberts Árna Hreiðarssonar í fjölmiðlum og um leið smættað afleiðingar þeirra.“

Í gær var svo birt á vef dómsmálaráðuneytisins nöfn þeirra sem mæltu með að Robert Downey áður Róbert Árni Hreiðarsson, fengi uppreist æru. Þeir sem skrifuðu meðmælabréf voru: Viðar Marel Jóhannsson, Halldór Einarsson og Gautur Elvar Gunnarsson.

Áður en greint var frá nöfnunum skrifaði Brynjar Níelsson pistil sem birtur er á Pressunni sem og á Facebook-síðu Brynjars. Pistillinn var birtur þann 11. september. Þar gagnrýnir Brynjar aftur umræðuna í samfélaginu vegna Robert Downey og uppreist æru. Brynjar segir að hin fræga persóna Spaugstofunnar, Ragnar Reykás hafi ekki orðið til úr engu.

„Hann er víða og verður meira áberandi með hverjum deginum. Þegar Ragnar telur að ákvarðanir stjórnmálamanna séu ekki í samræmi við lög bregst hann hart við og sakar þá um misnotkun valds, spillingu og óheiðarleika.

En þegar stjórnmálamenn fara að lögum, sem Ragnari finnst vond og óréttlát eða henta honum ekki, breytist tónninn. Þá er stjórnmálamaðurinn illa innrættur, skortir mannúð og tekur jafnvel málsstað ofbeldismanna og óþverralýðs.

Sumir segja að Ragnar Reykás sé dæmigerður íslenskur vinstri maður. Held samt að Ragnar sé að finna út fyrir þeirra raðir.“

Lesendur töldu fyrst að þarna væri Brynjar að tala um mál feðginanna Aniye Maleki og Abrahim Maleki sem til stóð að vísa úr landi í dag en hefur verið frestað. Þegar það var borið undir Brynjar sagði hann svo ekki vera:

„Ég er ekki að vitna í eitt sérstakt mál en umræðan um uppreist æru var kveikjan að þessari færslu. Við sjáum þetta í svo mörgu. Þetta vekur athygli vegna þess að í því er óþægilegur sannleikur,“ sagði Brynjar í samtali við DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fyrir 2 dögum

Með og á móti: Lúpína

Með og á móti: Lúpína
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“

Þungur Pungur hraunar yfir Áttuna: „Hreinasti peningaþvottur“