Stór hluti af Kastrupflugvelli lokaður

Danskir lögreglumenn að störfum.
Danskir lögreglumenn að störfum.
Mynd: EPA

Lögreglan hefur lokað Terminal 2 á Kastrupflugvelli í Kaupmannahöfn. Danskir fjölmiðlar segja að grunur leiki á að sprengja sé í farangri í byggingunni og því hafi hún verið rýmd. Sprengjuleitarvélmenni lögreglunnar er komið á vettvang og verður látið rannsaka tösku sem þykir grunsamleg og innihaldi hugsanlega sprengju.

Lögreglan í Kaupmannahöfn segir á Twitter að Terminal 2 sé lokað „vegna atviks“. Fólk er hvatt til að fara eftir fyrirmælum lögreglunnar og starfsfólks flugstöðvarinnar.

Á heimasíðu flugvallarins kemur fram að lögreglan sé að rannsaka farangur. Ekstra Bladet hefur eftir manni, sem er staddur í flugstöðinni, að þungvopnaðir lögreglumenn séu í flugstöðvarbyggingunni og að lögreglumaður hafi sagt honum að hugsanlega sé sprengja í byggingunni.

Talsmaður flugvallarins staðfesti við Danska ríkisútvarpið að „atvik“ hafi átt sér stað í flugstöðvarbyggingunni og því hafi þurft að grípa til rýmingar.

Ekki er vitað hvenær hægt verður að aflétta lokuninni.

Uppfært klukkan 07:45

Lögreglan hefur nú lokið störfum í Terminal 2 og verið er að opna það. Lögreglan er þó enn með töluverðan viðbúnað á flugvellinum og er nú kanna "grunsamlegar aðstæður" við flugvél úti á vellinum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.