Martin sló krakkann „óvart“ með flötum lófa: Saka drenginn um að pissa fyrir utan húsið þeirra eitt sumarið

Hæstiréttur staðfesti í gær nálgunarbann Martin Gasser, sem er búsettur á Breiðdalsvík, gagnvart 13 ára dreng. Í þeim dómi eru tilgreind fjöldi atvika síðastliðin tvö ár þar sem lögreglu var tilkynnt um að Martin hefði áreitt drenginn. Hæstiréttur vísar í forsendur úrskurðar Héraðsdóms Austurlands þar sem segir að það þyki einsýnt að Martin hafi ekki sýnt af sér þá aðgætni í samskiptum sem ætlast er til milli fullorðins manns við barn.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að við skýrslutöku hafi Martin staðfest flest atvika sem tilkynnt voru lögreglu en hafi þó yfirleitt borið fyrir sig að hann væri að verja sig. Í dómnum kemur jafnframt fram að Martin hafi viðurkennt að hafa óvart slegið drenginn með flötum lófa en drengurinn á að hafa reynt að bíta hann. Þá hafa ásakanir gengið á víxl og Martin og kona hans ítrekað kvartað til yfirvalda vegna drengsins. Hæstiréttur hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu og staðfest ákvörðun héraðsdóms um að svissnesku hjónin hafi gengið of langt.

Fjöldi atvika

Það var þó einungis eitt atvik af samtals 11 tilvikum sem lögregla hafði skráð niður. Martin er sagður hafa rekið drenginn út af opinberum stað, lagt hönd á hjól piltsins og haldið því taki uns hann varð sýnilega hræddur, ýtt við honum þar sem þeir mættust á stíg og hrint honum í sundlaug, svo nokkur dæmi séu nefnd. Vitni voru af sumum þessara atvika, þar á meðal annað skipti í sundlauginni þar sem Martin ku hafa hreytt í drenginn ónotum.

Einn maður, nýfluttur í bæinn og ótengdur báðum aðilum, varð vitni af öðru atviki þann 12. ágúst síðastliðinn. Hann hafði samband við lögreglu og sagðist hafa séð fullorðinn mann á reiðhjóli hjóla á eftir dreng. Hefði drengurinn verið að reyna að hlaupa undan manninum, en maðurinn hafi þá hjólað fyrir drenginn og neytt hann í tvígang til að stöðva. Maðurinn sagðist hafa séð vel að drengurinn var hræddur.

Segist sjálfur fórnarlambið

Í viðtali við DV á dögunum gaf Martin í skyn að hann væri raunar fórnarlamb 13 ára drengsins. „Ég hef snert hann. Hann hefur reynt að bíta mig, hann hefur ráðist á mig oft. Þá verð ég náttúrulega að verjast. En ég hef ekki lagt hendur á hann. Hann er alltaf að djöflast á okkur,“ sagði Martin þá.

Martin sagðist þá vera á leið úr landi en þau hafa dvalið hér í allmörg ár. Hann og hans fjölskylda mun flytja aftur til Sviss í nóvember en þá rennur nálgunarbannið út. „Við vorum löngu búin að ákveða að flytja,“ sagði Martin.

Eiginkonan kemur til varnar

Eiginkona Martins, Christa Maria, skrifaði í kjölfar fréttar DV fréttatilkynningu sem hún birti á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún að drengur hafi logið upp á þau, þó eiginmaður hennar hafi viðurkennt flest við skýrslutöku, og að drengurinn séu hættulegur.

„Nálgunarbann byggir 100% á lygjum og var neyðaraðgerð lögreglustjórnar eftir að um 10 tilvik voru tilkynnt til lögreglunnar. Foreldrar svokallaða fórnarlambs hringdu stanslaus og tilkynntu allt sem drengurinn sagði. Hann gerði sér að leik að finna upp sögur til að æsa foreldrana sina upp. Lögreglan hefur ekki rannsakað málinu, hvort þetta sem drengurinn fann upp sé rétt.„Fórnarlambið“ er mjög ofbeldisfullt og hin börn eru hrædd af honum. Hann er búinn að ráðast á börnin okkar ( 8 ára og 4 ára) og búinn að morðhóta í leiðinni, síðast fyrir mánuð síðan,“ skrifar Christa Maria.

Martin og Christa hafa sent DV nokkurn fjölda tölvupósta þar sem þau telja upp atvik sem að pilturinn á hafa látið óstýrilátlega. Segja þau meðal annars helst þurfa sjálf nálgunarbann gagnvart drengnum.

Furðulegar ásakanir

Eitt furðulegasta dæmið sem þau nefna er að drengurinn á hafa pissað á gangstéttina fyrir framan húsið þeirra sumar og haust árið 2015. Þau taka fram að hann geti ekki sannað flestar ásakanirnar og flest hafi ekki verið tilkynnt til lögreglu.

Líkt og fyrr segir var Martin dæmdur af Hæstarétt til að sæta nálgunarbanni gegn drengnum þar til 1. nóvember næstkomandi. Honum er óheimilt að koma í námunda við heimili drengsins, en eitt hús aðskilur heimili þeirra tveggja. Martin má jafnframt ekki veita drengnum eftirför, nálgist hann á almannafæri eða setji sig í samband við hann með öðrum hætti.

„Í ljósi afstöðu varnaraðila og þess óefnis sem samskipti hans við foreldra varnaraðila virðast komin í er jafnframt vandséð að önnur og vægari úrræði en nálgunarbann séu tæk að svo komnu. Telur dómurinn að í því efni verði brotaþoli, sem er barn, að njóta vafans, fremur en varnaraðili,“ segir í dómi Héraðsdómi Austurlands, sem Hæstiréttur staðfesti í gær.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.