Fréttir

Lára svarar Sóleyju: „Áfengi og ofbeldi verka sem driffjöður fyrir hvort annað“

Sakaði Láru um að halda því fram að áfengi væri rót kynbundins ofbeldis –

Auður Ösp
Þriðjudaginn 12. september 2017 22:00

„Að hafa orðið vitni að alvarlegu ofbeldi af hálfu ölvaðs karlmanns gefur hvorki til kynna að einungis karlmenn beiti ofbeldi eða að áfengi réttlæti hegðun ofbeldismannsins. Það vita allir sem þekkja eitthvað til vísinda,“ segir Lára G. Björnsdóttir læknir en bakþanki hennar í Fréttablaðinu um tengsl ofbeldishneigðar og áfengisneyslu hefur víða vakið hörð viðbrögð. Meðal annars hefur Lára verið sökuð um að hlífa yfir með ofbeldismönnum. Í pistli sem birtist á vef Vísis svarar Lára gagnrýnisröddunum og bendir meðal annars á að rannsóknir hafi ítrekað leitt í ljós að áfengisneysla tengist árásarhneigð.

Í bakþanka Láru sem birtist í gær rifjar hún upp þegar hún var stödd á flugvelli í Evrópu og sá íslenskan karlmann ganga í skrokk á eiginkonu sinni. Umhverfis manninn voru áfengisflöskur á víð og dreif.

„Sökudólgurinn er etanól, sem finnst í öllum áfengum drykkjum. Flestir sem neyta áfengis tengja áfengi við slökun því etanól hægir á boðefnaskiptum í heilanum. Á sama tíma minnkar etanól dómgreind og athyglisgáfu, sem getur aukið árásarhneigð við minnsta tilefni.

Vísindamenn hafa borið saman skaða sem hin ýmsu fíkniefni valda. Af 20 fíkniefnum sem skoðuð voru trónir áfengi á toppnum, með um fimmfalt meiri skaða fyrir samfélagið en tóbak,“ skrifar Lára sem varar við auknu aðgengi áfengis á Íslandi.

Sóley Tómasdóttir er ein þeirra sem fordæmir Fréttablaðið fyrir að birta þennan pistil líkt og DV greinir frá.

„Fréttablaðið kaupir þennan pistil og birtir eins og ekkert sé sjálfsagðara árið 2017. Um að áfengi sé rót kynbundins ofbeldis. Eins og ekkert sé athugavert við það. Drasl,“ skrifar Sóley á Facebook-síðu sína.

Áfengi aldrei afsökun

Í pistli sem birtist á vef Vísis í dag svarar Lára ummælum Sóleyjar og segir rétt að ítreka að hvergi í pistlinum komi fram að áfengi sé rót kynbundins ofbeldis.

„Hvar hún fær þá hugmynd er mér hulin ráðgáta. Áfengi er aftur á móti nátengt ofbeldi eins og okkur er flestum vel kunnugt, óháð kyni. Við erum enn í þeirri stöðu að oftast er sagt frá ofbeldi sem karl beitir konu en eins og við vitum geta konur beitt karla ofbeldi og ofbeldi getur einnig átt sér stað milli samkynhneigðra.“

Lára bendir jafnframt á að í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar komi fram að á Íslandi telji 71 prósent kvenna sem urðu fyrir heimilisofbeldi áfengisneyslu makans vera megin ástæðu ofbeldisins.

Lára segir áfengi vera hættulegt vímuefni sem valdi hömluleysi og eigi stóran þátt í ofbeldisafbrotum.

„Rannsóknir sýna ítrekað að þeir sem drekka mikið og oft eru líklegri til að beita ofbeldi auk þess sem verknaðurinn verður algengara og alvarlegra. Þeir sem byrja að drekka ungir eru sömuleiðis líklegri til að beita ofbeldi. Aðrir þættir hafa líka áhrif, eins og þegar annar einstaklingurinn í sambandi drekkur mikið en hinn ekki, þá aukast líkur á ofbeldi.

Rannsóknir hafa ítrekað leitt í ljós að áfengisneysla tengist árásarhneigð. Áfengi er aldrei afsökun fyrir því að beita ofbeldi en það er mikilvægt að fjalla um hversu hættulegt vímuefni áfengi getur verið, því það kemur allt of oft við sögu heimilisofbeldis, eins og tölurnar að ofan sýna. Við verðum að horfast í augu við staðreyndir til að geta beitt forvörnum og hjálpað báðum aðilum, gerandanum og þolandanum.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vignir Ljósálfur: „Fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja“

Vignir Ljósálfur: „Fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristjana Arnars slær í gegn á íþróttadeild RÚV: „Fannst ég ekki eiga erindi inn í þennan karlaheim“

Kristjana Arnars slær í gegn á íþróttadeild RÚV: „Fannst ég ekki eiga erindi inn í þennan karlaheim“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“
Fyrir 2 dögum

Leiðinlegt fyrir Pólverja

Leiðinlegt fyrir Pólverja