Isabel var barn á flótta á Íslandi: „Hefði ég verið send úr landi þá hefðuð þið tekið fjölskylduna og framtíðina af mér“

Fjölskyldan flúði til Íslands frá El Salvador - Stóðu í áralangri baráttu fyrir ríkisborgararétti - Sársaukinn sem að ég upplifði var mikill og verður alltaf hluti af mér“

Isabel Alejandra. Ljósmynd/Bleikt.is
Isabel Alejandra. Ljósmynd/Bleikt.is

„Ég skildi aldrei af hverju stjórnvöld skildu ekki að hér ætti ég heima; að ég þekkti ekkert annað út fyrir landsteinana. Ég skildi ekki hvers vegna þau sýndu mér ekki skilning - hvers vegna þau sýndu fjögurra ára barni ekki skilning,“ segir Isabel Alejandra Díaz sem þekkir það af eigin reynslu að vera barn á flótta. Málefni barna flóttafólks og hælisleitanda hafa verið áberandi í umræðunni undanfarna daga í kjölfar ákvörðunar Útlendingastofnunar um að vísa afgönsku feðginunum Abrahim Maleki og 11 ára dóttur hans Haniye úr landi. Fram hefur komið að Haniye er ríkisfangslaus þar sem hún er flóttamaður og fædd í Íran. Þá hefur sálfræðimat sýnt fram á að hún þjáist af mikilli áfallastreituröskun.

Bleikt fjallaði um það í maí þegar 2015 þegar Isabel Alejandra útskrifaðist úr Menntaskólanum á Ísafirði með hæstu einkunn allra nemenda í íslensku en hún tók við verðlaununumklædd í íslenskan þjóðbúning, 20. aldar upphlut sem hún saumaði og gerði sjálf.

Líkt og fram í grein Bleikt bjó Isabel við stöðugan ótta um að verða vísað úr landi í mörg ár en hún flutti til Íslands með foreldrum sínum árið 2001 eftir ofsóknir glæpasamtaka sem höfðu myrt fjölskyldumeðlim hennar. Glæpasamtökin sem hröktu þau á flótta höfðu einnig kúgað fé út úr þeim. Frá El Salvador lá leiðin til Íslands en frænka þeirra hafði gifst íslenskum manni á Ísafirði. Næstu tíu árin barðist fjölskyldan við að fá dvalarleyfi fyrir hana hér á landi. Málið var flókið þar sem hún var í raun barnabarn foreldra sinna, sem ættleitt höfðu hana með leyfi blóðmóður hennar. Þurfti þvi að endurnýja dvalarleyfið með reglubundnu milli-bili. Málið hafi svo flækst enn þá meira þegar lögfræðingur fjölkyldunnar í El Salvador lét lífið í mannkæðum jarðskjálfta og öll gögn hennar þar í landi týndust. Frá því Isabel fluttist fimm ára til Íslands og allt þar til áratug síðar mátti hún því eiga von á því að verða send úr landi.

Isabel Alejandra Díaz. Ljósmynd/Bleikt.is
Isabel Alejandra Díaz. Ljósmynd/Bleikt.is

4 ára barni var ekki sýndur skilningur

Isabel ritar opna færslu á facebooksíðu sína þar sem hún tjáir sig um reynslu sína af því að þurfa að berjast fyrir rétti sínum til að búa á Íslandi. Sú reynsla hefur að hennar sögn mótað hana fyrir lífstíð.

„Ég kom til landsins fyrir nær 17 árum með fjölskyldu minni. Við settumst að í hjartahlýju bæjarfélagi en þurftum næstu 14 árin að berjast fyrir íslenska ríkisborgararéttinum mínum,“

ritar Isabel en bætir við að hennar saga hafi þó endað vel. Því þakkar hún Guði.

„En sársaukinn sem að ég upplifði var mikill og verður alltaf hluti af mér. Ég hef þroskast og blómstrað en það sem að ég gekk í gegnum hefur án efa mótað mig og mína sýn á heiminum.“

Isabel kveðst hafa átt þá ósk heitasta að vera lögfræðingur í framtíðinni til að hjálpa fjölskyldum og börnum í sömu eða sambærilegum aðstæðum. Hún segist ekki hafa viljað sjá nein annan ganga í gegnum sömu raunir og hún og fjölskylda hennar.

„Ég trúi ekki að það sé enn verið að gera okkur þetta. Áttiði ykkur ekki á þeim áhrifum sem að þetta hefur á barn? Ég skildi aldrei af hverju stjórnvöld skildu ekki að hér ætti ég heima; að ég þekkti ekkert annað út fyrir landsteinana. Ég skildi ekki hvers vegna þau sýndu mér ekki skilning - hvers vegna þau sýndu fjögurra ára barni ekki skilning. Vinir mínir, kennararnir mínir, nágrannarnir mínir og fleira fólk sýndi mér skilning, en ekki þau sem að höfðu völdin. Hvað hafði ég gert rangt til þess að verðskulda tilkynningu um að ég yrði send þangað sem að þau töldu vera heimili mitt á 30 daga fresti, síðan 6 mánaða fresti og svo á eins árs fresti?“

Ótrúleg mannvonska

Isabel bendir jafnframt á að þeir sem leita skjóls á Íslandi þurfi að fá tækifæri til að verða þáttakendur í samfélaginu.

Hvernig erum við svona mikið fyrir ykkur? Við erum ekki að biðja um mikið, þvert á móti, við viljum vera hluti af samfélaginu og taka þátt í að þróa það áfram. Við getum það! Vegna þess að við getum gert vel, þið vitið það alveg.

Það sem að fer hvað mest í mig er að það er vitað að ástandið í heiminum er ótrúlega slæmt en það skiptir samt engu máli í þessum ákvarðanatökum. Hversu klikkað er það? Það er STRÍÐ í gangi. Sumar manneskjur sem að stjórnvöld hafa neitað, hafa verið sendar beinustu leið í dauðann. Hvernig stendur á því?! Hvernig er hægt að vera með þetta á samviskunni? Hvar er siðferðið? Í þessum nútíma heimi og vegna aðstæðna þá spilar siðferðið algjörlega inn í þessi mál, ekki reyna að halda öðru fram. Þá sérstaklega þegar að það er verið að senda fólk úr landi á hallærislegum, óskiljanlegum og röngum forsendum.

Hefði ég verið send úr landi þá hefðuð þið tekið fjölskylduna og framtíðina af mér. Framtíðaráformin mín hafa breyst en ekki þessi ósk mín (sem betur fer munum við eiga einn lögfræðing innan fjölskyldunnar eftir örfáa mánuði). Ég er svo ótrúlega reið yfir því að börn séu neydd til þess að upplifa svona sársauka aftur og aftur. Þvílík og önnur eins mannvonska.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.