Segja að heimila eigi rekstur vændishúsa í Danmörku þar sem kynlíf með dýrum verður í boði

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn.

Í Danmörku á fljótlega að opna „vændishús“ þar sem verður heimilt að misnota dýr kynferðislega. Dan Jørgensen, matvælaráðherra, segir að „kynlíf með dýrum séu stjórnarskrárvarin borgaraleg réttindi“. Þetta hefur komið fram í ýmsum fjölmiðlum í austanverðri Evrópu undanfarið.

En ekki er allt sem sýnist í þessu máli því hér er um lygafrétt sem hefur verið fjallað um í mörgum fjölmiðlum í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Georgíu undanfarið. Þetta kemur fram í Altinget og Politiken. Það er East Stratcom, stofnun ESB sem berst gegn áróðri og lygafréttum, sem uppgötvaði að þessi „frétt“ væri komin á flug í fjölmiðlum í Hvíta-Rússlandi og Georgíu.

East Stratcom segir að þessi „frétt“ sé ein af mörgum sem eru beinlínis misvísandi eða ósannar og hafa birst í fjölmiðlum í sumum ríkjum Austur-Evrópu undanfarna mánuði. Stofnunin segir að markmiðið með lygafréttum sem þessum sé að kynda undir hugmyndum um „siðferðislega hnignun“ í Evrópu.

„Fréttin“ um dýravændishúsin átti upptök sín í byrjun ágúst þegar Kolokol Rossii, rússneskur fjölmiðill, birti „frétt“ um að dönsk yfirvöld hefðu heimilað opnun dýravændishúss í Kaupmannahöfn. „Fréttinni“ fylgdi mynd af hundi sem var klæddur eins og vændiskona.

Frá Kolokol Rossii barst „fréttin“ til annarra rússneskra fjölmiðla en hefur þó að sögn East Stratcom ekki enn ratað í stóra fjölmiðla sem starfa á landsvísu.

Staðreyndin er sú að kynferðislegt samneyti (misnotkun) við dýr hefur verið bannað með lögum í Danmörku frá 2015.

Danska ríkisstjórnin segir að „fréttin“ um dýravændishúsin sé dæmi um þá aukningu sem hefur orðið í flutningi á röngum fréttum og upplýsingum um Danmörku.

Anders Samuelsen, utanríkisráðherra, sagði í samtali við Politiken að af þessum sökum hafi ríkisstjórnin ákveðið að setja á laggirnar sameiginlegan starfshóp nokkurra ráðuneyta og á þessi starfshópur að berjast gegn fölsku fréttum og áróðri frá Rússlandi.

Samuelsen sagði að vestrænt lýðræði og fjölmiðlar séu orðin viðkvæmari en áður fyrir fölskum fréttum, upplýsingaherferðum sem eru byggðar á lygum og öðrum vafasömum aðferðum. Merki um þetta megi annars sjá í tilraunum Rússa til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og Frakklandi. Þetta verði að taka alvarlega enda sé Danmörk ekki ónæm fyrir þessu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.