Kolbrjálaður köttur hélt Vöku og dóttur hennar í gíslingu í Samkaup: Vill banna lausagöngu katta - „Stelpan þorir ekki út“

„Hann sýndi klærnar, hvæsti og stökk að okkur“

„Um leið og hann sér okkur, tekur hann upp klærnar, hvæsir og stekkur til okkar. Ef þetta hefði verið hundur þá væri strax búið að fjarlægja hann. Ég er ekki að segja að allir kettir séu slæmir en það ættu gilda sömu reglur,“ segir Vaka Dögg Björnsdóttir, íbúi í Hlíðahverfi í samtali við DV. Hún segir kött hafa ráðist á og klórað dóttur hennar og hund þeirra síðastliðinn fimmtudag. Segir hún að þeim mæðgum standi jafnframt ógn af umræddum ketti sem haldi sig til í kringum húsið og sé með ógnandi tilburði. Kveðst hún undrandi á því að lausaganga katta séu leyfð á meðan aðrar reglur gildi um lausagöngu hunda.

Vaka Dögg vakti upphaflega athygli á málinu inni á facebookhópnum Kattavaktin og birtir þar meðfylgjandi mynd af kettinum sem ekkert virðist óttast. Segir hún köttinn hafa ráðist á sig, dóttur sína og hundinn þeirra.

„Síðastliðinn fimmtudag stóð hann fyrir framna tröppurnar heima og tók upp að ráðast á okkur þegar við ætluðum að labba inn. Bara því við ætluðum upp tröppurnar. Við vorum ekki að ógna honum, stelpan var ekki að fara klappa honum eða hundurinn að hnýsast, við vorum bara fara labba upp tröppurnar heima. Hann sýndi klærnar, hvæsti og stökk að okkur auk þesssem hann blokkaði allar leiðir svo við kæmumst ekki frá. Hann klóraði dóttur mína og hundinn líka. Við þurftum að flýja inn í Samkaup Suðurveri og bíða þar inni þar til hann færi, þetta var orðið það slæmt“.

Afgreiðslumaður Samkaupa leyfði Vöku Dögg, stelpunni og hundinum að halda til í versluninni þar sem þau biðu eftir að óargadýrið myndi láta sig hverfa. Kötturinn var hins vegar ekki á því að láta mæðginin og hundinn sleppa svo billega og beið fyrir utan verslunina og hélt þeim í gíslingu.

„Auk þess reyndi afgreiðslumaðurinn að hjálpa til með að fæla köttinn í burtu og beið með okkur fyrir utan búðina,“ segir Vaka og bætir við að í gærdag hafi móðir hennar farið út í garð með hund þeirra og mætt þá umræddum ketti, sem sé vanur að sniglast þar í kring. Segir hún köttinn þá hafa ætlað að „rífa hundinn í sig.“

Þá bætir hún við að sex ára dóttir sín elski ketti en óttist nú ekkert frekar en að rekast aftur á hinn umrædda kött. Þá er óargadýrið farið að leggja til atlögu við barnið á meðan það sefur, en hún fær martraðir þar sem kötturinn er í aðalhlutverki.

„Nú er stelpan orðin skíthrædd og þorir ekki út ef þessi köttur er þar, auk þess sem hún er búin að fá martraðir.“

Sem fyrr segir vakti Vaka athygli á málinu inni á Facebook-hópnum Kattavaktin í von um að hafi uppi á eiganda kattarins, sem er gulappelsínubrúnn með ól, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Hún hefur þó ekki haft árangur sem erfiði. Hún segir köttinn áður hafa ógnað sér og hundinum hennar fyrr í sumar og kveðst uggandi yfir lausagöngu katta í borginni.

„Ef þetta hefði verið laus hundur þá hefði hann verið tekinn en kettir eru frjálsari. Ég veit að þetta er köttur en ef hann er að ógna lífi annarra ber manni skylda til að láta vita. Ef lausaganga hunda er bönnuð af hverju er þá lausaganga katta ekki bönnuð líka?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.