Brynjólfur grínaðist með að gelda feitt fólk og allt varð vitlaust: „Væri ekki nær að sterilísera unga Sjálfstæðismenn?“

Brynjólfur Sveinn Ívarsson, nemi og frambjóðandi til stjórnlagaþings, sem Ástþór Magnússon kallaði eftirminnilega útsendara hægri öfgamanna, grínaðist með að gelda feitt fólk í lokaða Facebook-hópnum Það sem enginn viðurkennir. Líkt og nafnið gefur til kynna fara þar fram nokkuð óheftar umræður en fáar færslur hafa valdið eins mikilli úlfúð og færsla Brynjólfs.

„Þegar fólk talar um mannréttindabaráttu feitra þá fer ég að hugsa um að það væri heppilegast að sterílisera það,“ skrifaði Brynjólfur á laugardaginn. Hann heldur úti Youtube-síðu þar hann kallar sig Lord Pepe og er nokkuð ljóst af þeim myndböndum sem hann birtir þar að hann aðhyllist hugmyndafræði hins svokallað Alt-Right. Hann hefur birt tugi myndbanda undanfarna mánuði og sum þeirra hafa þúsundir horft á. Í grófum dráttum má lýsa Alt-Right sem þjóðernissinnaðri hugmyndafræði sem kviknaði á spjallsíðum og aðskilur sig einna helst frá hefðbundnar hægristefnu með andstöðu við hnattvæðing og fjölmenningu.

„Getur bara fokkað sér“

Færsla Brynjólfs vakti fljótt mikil viðbrögð. Kitty Anderson, einn stofnenda samtakanna Intersex Ísland, benti á að ef þetta yrði framkvæmt þá væri það skýrt brot á mannréttindum. Því svaraði Brynjólfur: „Hvar er greinin um að ekki megi líta feitt fólk hornauga þegar það treður í sig hlöllabát?“

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Kitty benti honum þá á að hann væri kominn í heim mannréttindabrota. „Þú varst ekki að tala um það. Ekkert sem bannar þér að vera asni. Að leggja til ófrjósemis aðgerðir. Þar ertu komin í heim mannréttinda brota,“ skrifaði hún.

Því svaraði Brynjólfur að hún væri nú ekki næm á kaldhæðni. „Þar sem ég hef sætt forced and coercive sterilisation... Sem 3 mánaða barn, hérna á Íslandi, þá grínast ég ekki með slíkt. Og fólk sem telur það í lagi að grínast með slíkt getur bara fokkað sér,“ svaraði Kitty.

Málfrelsi gengur í báða boga

Þá svaraði Brynjólfur: „Það er voðalega leitt að heyra. Það er samt fokið í flest skjól ef það má ekki gera grín af einhverju vegna þess að eitthvað hefur komið fyrir einhvern. Ef út í það er farið gengur grínið líka út á það rangt að gelda fólk. Þú veist ýkja eigin skoðun fyrir lulz.“

Kitty segist ekki hafa verið að banna honum eitt né neitt heldur einungis að svara honum fullum hálsi. „Ég var hvergi að banna þér að segja hvaða horbjóð sem þú vilt í formi brandara. Ég tek heldur ekki einhverju sem eitthvað random fólk segir internetinu persónulega. Þú ert að mig grunar hér að vísa í málfrelsi, sem er í gildi á íslandi svo lengi sem það sem sagt er brjóti ekki í bága við 233. gr hegningarlaga. Þú þarft að læra að slíkt gengur á báða boga, þú mátt segja það sem þú vilt, ég má rífa kjaft eins og mér sýnist. Hættu þessum þöggunartilburðum litli labbakútur, annars ertu að vega að mínu málfrelsi,“ skrifaði Kitty.

Mynd: Oddvar Hjartason

„Haha, gelda minnihlutahópa“

Kitty var þó hvergi nærri sú eina sem gagnrýndi Brynjólf því Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Trans Ísland, hjólaði jafnframt í hann. „Haha, gelda minnihlutahópa. FYNDIÐ! Svo sjúklega fyndin hugmynd sem enginn þorir að segja, þrátt fyrir að fullt af hópum, t.d. trans fólk, intersex fólk og fatlað fólk sé sent í ófrjósemisaðgerðir gegn eigin vilja samkvæmt lögum. HAHAHA. En þú ert samt sko sá fyrst sem þorir að skrifa þetta upphátt þrátt fyrir að þetta sé þekkt fyrirbæri. HAHAHA VÁ HVAÐ ÞÚ FATTAR ÞENNAN HÓP VEL,“ skrifaði hún.

Brynjólfur sagði þá kaldhæðnislega að mannréttindi feits fólk væru ekki fótum troðin á Íslandi. „Eins og allir vita þá eru mannréttindi feitra fótum troðin á Íslandi. Þeir njóta ekki kosningarétts, dauðasveitir þramma um göturnar og myrða þá hafa of háan BMI stuðull. Aðrir eru sendir í búðir þar sem lífið er murkað úr þeim með gegndarlausu krossfitti,“ skrifaði Brynjólfur og bætti við stuttu síðar að það væri stutt í hugsanaglæp ef fólk yrði að hafa ákveðna skoðun um feit fólk.

Tara lagði orð í belg

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, stjórnarmeðlimur í Samtökum um líkamsvirðingu, lagði orð í belg líkt og Ugla og Kitty. „Ég var næstum því búin að hætta við að halda þessari mannréttindabaráttu áfram við að lesa þennan þráð. Svooo góð rök!!1! En svo mundi ég að þessi "rök" eru í raun og veru bara bullandi fordómar og fölna í samanburði við 7 áratuga rannsóknarbálk á fitufordómum, tíðni þeirra og afleiðingum. Hjúkket!,“ skrifaði Tara og deild hlekkjum á meðal annars skýrslu Landlæknis máli sínu til stuðnings.

Mynd: Kristinn Magnússon

„Mig grunar samt að enginn muni lesa þetta/taka mark á þessu þar sem það muni trufla ykkur við þá iðju að fyllast viðbjóði yfir feitum einstaklingi sem er að borða Hlölla. Án þess að hugsa nokkuð um hvað þeir sjálfir eða aðrir sem eru ekki jafn feitir eru að gera á Hlöllabátum líka. Neibb, þeir taka feita einstaklinginn úr menginu og níðast á honum fyrir líkamsstærð. Og fyrir að gera nákvæmlega það sama og þeir. Ef það er ekki skilgreining á mismunun,“ skrifaði Tara.

Svala Jónsdóttir blaðamaður skaut einna fastast á Brynjólf og vísaði til þess að hann hefur tekið þátt í ungmennastarfi Sjálfstæðisflokksins. „Væri ekki nær að sterilísera unga Sjálfstæðismenn? Það er jú sá þjóðflokkur sem hefur valdið mestum skaða hér á landi,“ skrifaði Svala.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.