fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Ríkisstjórn á réttri leið

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 1. september 2017 08:47

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar:

Það er ekki til siðs í samtíma okkar, þar sem skammast er yfir öllu, að hrósa stjórnmálamönnum en ríkisstjórn Íslands á skilið hrós fyrir þá ákvörðun að bjóða á sjötta tug flóttamanna til Íslands á næsta ári. Til stendur að taka við mun fleiri flóttamönnum á næstu árum og er það vel.

Velsæld ríkir í landinu og það er skylda okkar að rétta hjálparhönd þeim sem búa við mikla neyð. Flóttamenn, og þar á meðal eru fjölmörg börn, búa við óöryggi og hættur dag hvern. Við Íslendingar erum hluti af alþjóðasamfélaginu og eigum ekki að loka okkur af og láta okkur þjáningar umheimsins engu varða. Við eigum að sýna siðferðiskennd og bjóða fólki í neyð velkomið hingað til lands. Samúð með þeim sem þjást, skilningur á högum þeirra og vilji til að rétta þeim hjálparhönd eru eiginleikar sem ættu að prýða hvern einstakling.

Kolbrún Bergþórsdóttir, ritstjóri DV.

Því miður er það svo að í hvert sinn sem fréttir berast af komu flóttamanna hingað til lands upphefst kór sem tónar að það eigi að forgangsraða rétt og aðstoða þá Íslendinga sem búa við bág kjör en ekki taka við einhverjum útlendingum. Þarna er verið að etja saman hópum því fullyrt er að aðstoð við erlent flóttafólk bitni á þeim Íslendingum sem búa við erfiða fjárhagsstöðu. Ekki felst mikill náungakærleikur í slíkum upphrópunum heldur er beinlínis verið að ala á útlendingaandúð. Það að rétta einum hópi hjálparhönd jafngildir vitaskuld ekki því að ómögulegt sé að aðstoða aðra. Þetta vita allir en sumir kjósa að láta eins og þeir viti ekki af því.

Þegar rætt er um flóttamenn og aðstoð við þá byrjar þessi sami kór síðan að kyrja um hætturnar sem stafa af múslimum sem hingað koma. Það er furðulegt hversu auðvelt þessi hópur á með að flokka múslima og stimpla sem hugsanlega hryðjuverkamenn. Blessunarlega er þessi kór ekki mjög fjölmennur hér á landi en hann er þó of hávær. Þar er eins og þröngsýnin og mannfyrirlitningin eigi sér engin takmörk. Það furðulega er svo að þessi hópur þykist ansi oft tala í nafni kristinnar trúar. Biskup landsins hefur sannarlega staðið í lappirnar og talað máli flóttamanna og vitnað í orð Krists. Það hefur ekki áhrif á hópinn sem ætlar ekki að láta sér segjast og skammast í biskupi og sömuleiðis Rauða krossinum sem þykir víst alltof hallur undir útlendinga.

Það skiptir máli að í landinu er ríkisstjórn sem setti í stjórnarsáttmála sinn að tekið yrði á móti fleiri flóttamönnum og að innflytjendum yrði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Vitaskuld má ýmislegt mun betur fara þegar kemur að málefnum flóttamanna en ríkisstjórnin er samt á réttri leið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt