Brynjar: „Miklu fleiri“ en Robert - „Langar þig að berja á þeim?“ – Birgitta: „Þvílíkt hugleysi“

Brynjar Níelsson hefur gögn undir höndum sem staðfestir að nokkur fjöldi kynferðisafbrotamanna hafi fengið uppreist æru. Brynjar tjáir sig um mál Robert Downey, áður Róberts Árna í samtali við mbl.is. Robert var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn fjórum unglingsstúlkum árið 2008. Hann hlaut uppreist æru á síðasta ári. Brynjar segir:

„Það eru til al­var­legri brot held­ur en þessi gagn­vart börn­um,“ seg­ir Brynj­ar og bætir við að þeir sem hafi brotið af sér kynferðislega gegn börnum séu „miklu fleiri“ en Robert Downey. Brynjar bætti við:

„Eng­inn sagði neitt þá. Þetta komst bara í umræðuna því hann ætlaði að sækja um starfs­rétt­indi sín aft­ur. Menn hafa fengið upp­reist æru sem hafa myrt ann­an mann.“

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Brynjar segir einnig við mbl.is að þeir tveir valinkunnu einstaklingar sem mæltu með því að hlyti uppreist æru skipti engu máli í umræðunni. Þeir beri enga ábyrgð í málinu Brynjar segir:

„Hvað varðar okk­ur um það hver það er og hvers vegna? Eina ástæðan er sú að þeir sem hæst láta vilja berja á þeim.“

Illugi Jökulsson tjáir sig einnig á Facebook. Hann deilir frétt DV frá því í gær þar sem kom fram að Brynjar vissi deili á þeim sem mæltu með uppreist æru fyrir Robert Downey. Illugi segir:

„Það getur ekki verið nein heiðarleg ástæða fyrir því að það sé eitt mesta leyndarmál lýðveldissögunnar hverjir mæla með uppreist æru fyrir dæmdan níðing. Af hverju í ósköpunum ætti það að vera leyndarmál? Þar með er ástæðan fyrir leyndarhjúpnum óheiðarleg, það er alveg ljóst.“

Brynjar svarar Illuga og segir:

„Þegar mér er afhent gögn í trúnaði sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins upplýsi ég ekki aðra um innihaldið en nefndarmönnum enda mér óheimilt. Þetta eru gögn ráðuneytisins og þeir munu upplýsa um innihaldið fari svo að úrskurðarnefndin úrskurði á þann veg. Fyrir mér er ekkert leyndarmál hverjir mæltu með uppreist æru, hvorki í þessu máli né öðrum slíkum. Hins vegar kann í innihald bréfa af þessu tagi að vera persónuupplýsingar sem varðar eru af persónuverndarlögum. En ég er alltaf jafn undrandi yfir áhuga á því hverjir mæltu með uppreist æru. Það skiptir engu í afgreiðslu nefndarinnar. Það sem skiptir okkur nefndarmenn máli er framkvæmd laganna og hvort hugsanlega sé tilefni til að breyta þeim. Þess vegna samþykkti ég að taka málið á dagskrá í sumar.“

Egill Jón Kristjánsson biður Brynjar að benda sér á lög sem banni að birta nöfn hinna valinkunnu manna:

„Þú veist það og ég líka að þetta er lögfræðiþvæla þar sem kerfið leggst á eitt að venda ákveðna menn. Þetta er hápólitíst mál. Ég ítreka bentu mér á þau lög sem banna þessa birtingu.“

Brynjar svarar:

„Til hvers viltu vita nöfn mannanna, Egill? Langar þig að berja á þeim? Þau skipta engu máli i umfjöllun nefndarinnar. Þú hefur ekki hingað til viljað vita nöfn meðmælenda í þeim tugum tilvika sem veitt hefur verið uppreist æru. Að minnsta kosti ekki haft hátt um það. Þetta hefur ekkert með pólitík að gera og þú mátt mín vegna hætta að kjósa flokkinn. Hef sjálfur engan áhuga á svona flokksmönnum [...] Nú skal ráðast á þá og dylgja um sem vitna um stöðu umsækjandans. Ég gæti almannahagsmuna, Egill, en er ekki í stjórnmálum til að sefa reiði manna eins og þín.“

Pírati ósammála

Birgitta Jónsdóttir þingmaður Pírata er ósammála Brynjari. Hún tjáir sig á Facebook og spyr hvað þessir valinkunnu meðmælamenn séu hræddir við. Af hverju þeir hafi ekki stígið fram:

„Af hverju þykir það ekki sjálfsagt að standa með ákvörðunum sínum og meðmælum? Stjórnskipunar og eftirlitsnefnd krafðist þess að fá þessar upplýsingar en ekkert bólar á þeim. Af hverju þessi leyndarhyggja?“

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir.

Birgitta bætir við:

„Hver ræður því að þessum upplýsingum er haldið leyndum? Ef stjórnsýslan neitar að birta, af hverju stíga ekki þessir aðilar fram og standa með ákvörðun sinni? Þvílíkt hugleysi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.