„Mér hefur verið sagt að ég sé ógeðsleg, svín með gleraugu og ljót“

Ömurlegar athugasemdir sem konur hafa fengið - Vekur mikla athygli - fáránlegar útlitskröfur

Ljósmynd/Skjáskot af vef Refinery29.
Ljósmynd/Skjáskot af vef Refinery29.

„Margar okkar kjósa að sækja innblástur til kvenna sem virða líkama sinn og hafa öðlast jafnvægi á milli fjölskyldu, vinnu, andlegrar líðunar og heilsu. Fyrir mér var þetta frábær áminning um að tala af virðingu fyrir sjálfri mér, og þá sérstaklega í kringum dóttur mína,“ segir Helga Nína Aas ljósmyndari í samtali við bandaríska lífstílsvefinn Refinery29 en vefurinn fjallaði nýlega um ljósmyndaseríu hennar þar sem 11 íslenskar konur sátu fyrir og ræddu við Helgu um líkamsímynd í nútímasamfélagi.

Refinery29 er geysivinsæll vefur með hátt í 30 milljón heimsóknir í hverjum mánuði. Helga Nína ræðir við vefinn um verkefnið en hún myndaði alls 11 konur í náttúrulaugum á suðurlandinu og ræddi við þær. Konurnar deildu meðal annars með Helgu athugasemdum sem þær hafa fengið að heyra um líkama sinn í gegnum tíðina. Líkt og sjá má eru fyrirsæturnar af öllum stærðum og gerðum.

„Sumar konur eru ekki sáttar nema þegar þær eru búnar að puða í líkamsrækt, skoða gaumgæfilega hvað þær setja ofan í sig og finnist eins og þær séu með allt á hreinu“

Ein af fyrirsætunum, hins 21 árs gamla Ásdís segir til að mynda frá því hvernig hún þurfti að líða fyrir rauða hárið sitt og freknurnar þegar hún var unglingur. Hún gekk meira að segja svo langt að lita á sér hárið til að losna við athugasemdirnar. Í dag er hún hins vegar stolt af sínum útlitseinkennum.

„Ég held að konur geti verið afskaplega dómharðar, bæði á sjálfar sig og aðrar konur. Ég, og ég held flest allar konur berum okkur saman við aðrar konur. Ég reyni að tala á jákvæðan hátt um aðrar konur og hrósa fegurð þeirra.“

Þá segir hin 36 ára Birna að hún leggi það í vana sinn að tala aldrei illa um útlit annarra. „Það er svo mikill óþarfi. Þeir sem láta þess háttar athugasemdir falla hlýtur að líða virkilega illa með sjálfa sig.“

Olga Helgadóttir, 28 ára deilir einnig nokkrum af þeim athugasemdum varðandi líkama sinn sem hún hefur fengið að heyra í gegnum tíðina en sumar þeirra eru vægast sagt andstyggilegar.

Ég reyni að tala á jákvæðan hátt um aðrar konur og hrósa fegurð þeirra.

„Mér hefur verið sagt að ég sé ógeðsleg, svín með gleraugu og ljót,“ segir hún. „Mér hefur verið sagt að ég sé að menga umhverfið með útliti mínu. Ég hef skammast mín fyrir það hver ég er og hvernig ég lít út en ég er virkilega að reyna að breyta því með því að sættast við sjálfa mig og reyna að sjá það sem er fallegt í fari mínu. Ég er svo þreytt á því að hata sjálfa mig og vera stöðugt að rífa mig niður,“ bætir Olga við en hún kveðst sjálf leggja sig fram við að koma ekki með athugasemdir um útlit annarra.

Helga segir íslenskar konur ekki upplifa minna þrýsting frá fjölmiðlum en þær bandarísku þegar kemur að útlitskröfum.

„Sumar konur eru ekki sáttar nema þegar þær eru búnar að puða í líkamsrækt, skoða gaumgæfilega hvað þær setja ofan í sig og finnist eins og þær séu með allt á hreinu,“ segir Helga.

Hún bætir þó við að blessunarlega sé viðhorfið að breytast. Konur séu farnar að hafna ríkjandi staðalímynd um fegurð. Hér má sjá umrædda grein Refinery 29 og lesa nánar um konurnar sem Helga Nína hitti í tengslum við verkefnið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.