Átti myndbirting lögreglu rétt á sér? „Drengurinn er greinilega mjög veikur ef að hann tengist þessu máli“

Átti myndbirting lögreglu rétt á sér?
Sjá niðurstöður

Vægast sagt skiptar skoðanir eru á samfélagsmiðlum hvort það hafi verið rétt ákvörðun hjá lögreglu að birta mynd af 15 ára pilti sem er grunaður um að hafa brotið kynferðislega á 7 ára dreng í Breiðholtslaug. Mynd af piltinum var birt á flestum fjölmiðlum og kom fram að málið tengdist atvikinu í sundlauginni. Fjölmiðlar fjarlægðu fréttina eftir að pilturinn fannst.

Fyrrverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, er einn þeirra sem telur það hafa verið rétt ákvörðun að birta myndina. Hann deilir á Facebook frétt RÚV um að skólastjórar í Breiðholti hafi ekki verið spurðir hvort þeir könnuðust við piltinn á myndinni: „Undarleg fréttamennska, eins og maðurinn (aldur hans sést ekki í myndavélum) hafi ekki getað verið úr öðrum bæjarhluta eða utan af landi ? Gefið er í skyn að lögreglan hafi ekki staðið sig því þeir spurðu ekki um hann í Breiðholtinu. Vita þeir hjá Ríkisútvarpinu ekki að strætó gengur í Breiðholtið. Aldur hans kemur í ljós eftir að auglýst er eftir honum. Meira ruglið. Ég tel að lögreglan hafi brugðist hárrétt við miðað við skýringar þeirra.“

Sjá einnig: Skelfilegt atvik í Breiðholtslaug: Móðir þarf hjálp til að finna manninn: „Ég ætla að gera allt til að finna þetta ógeð“

Illugi Jökulsson er á öðru máli og telur að sá yfirmaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem tók ákvörðunina ætti að axla ábyrgð. Illugi segir í pistli um málið á Stundinni: „Og það var rétt hjá lögreglunni að leggja mikla áherslu á að finna þann sem hafði áreitt drenginn. En þegar lögreglan er komin með myndir af grunuðum einstaklingi úr eftirlitsmyndavél, þá hefðu allar viðvörunarbjöllur átt að hringja. Hinn grunaði einstaklingur var augljóslega mjög ungur, alveg örugglega á táningsaldri og sennilega sjálfur barn.“

Illugi bætir við að auðvitað muni pilturinn þurfa að standa skil á gjörðum sínum hafi hann verið að verki. „Og hann þarf náttúrlega líka að fá hjálp eigi hann sjálfur við erfiðleika að stríða. En sá einstaklingur innan lögreglunnar sem tók þá ákvörðun að senda mynd af 15 ára barni út á ljósvakann vegna þessa máls, sá einstaklingur verður að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Sá kúltúr ábyrgðarleysis yfirmanna sem hér tíðkast gengur ekki í þessu tilviki,“ segir Illugi.

Illugi deilir pistlinum á Facebook og þar bendir Stefán Sturla Sigurjónsson leikstjóri á hver viðbrögðin yrðu sennilega í Finnlandi þar sem hann er búsetur. „Sorglegt hversu óásættanlegar vinnuaðferðir tíðkast víða í samfélaginu á Íslandi. Ég spurðist fyrir um viðbrögð, ef eitthvað þessu líkt gerðist hér í Finnlandi. Manneskja sem þessa ákvörðun tók yrði ákærð fyrir misbeitingu valds gegn barni. Nú er spurning hvað saksóknari geri í málinu eða aðrir er málið varðar,“ skrifar Stefán Sturla.

Sara Óskarsdóttir, varaþingmaður Pírata, deilir frétt RÚV um málið innan Pírataspjallsins og skrifar: „Þetta er afleitt mál. Það er óskiljanlegt að lögreglan skyldi ekki leita fyrst til skólanna og nærumhverfisins áður en þeir ruku með greinargóða mynd af barninu í fjölmiðla. Svona getur rústað lífi fólks, drengurinn er greinilega mjög veikur ef að hann tengist þessu máli og mun ekki eiga auðvelt uppdráttar í bata- og betrunarferli þegar að búið er í raun að eyðileggja mannorð hans á opinberum vettvangi á barnsaldri. Forkastanleg vinnubrögð.“

Gunnar Hrafn Jónsson, þingmaður Pírata, er sammála Söru. „Um leið og ég sá þessa mynd varð ég mjög hissa, þarna er barn undir lögaldri sýnt á mynd og bendlað við skelfilegan glæp án þess að nokkur rannsókn hafi farið fram eða víst sé að þessi krakki hafi brotið af sér,“ skrifar Gunnar Hrafn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.