Fréttir

Tara segir ritstjóra Fréttablaðsins rangtúlka ummæli læknis um offitu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 5. ágúst 2017 10:00

„Við eigum að vita betur en að gera feitt fólk að blórabögglum fyrir öllu því sem miður fer, við vitum að ekki einungis stenst það ekki nánari skoðun heldur að það sé skaðlegt. Það er engin afsökun lengur fyrir þessari orðræðu. Nú þurfa fjölmiðlar að hætta að vinna gegn lýðheilsunálgunum og gera illt verra á meðan þeir þykjast vera að vekja fólk til vitundar.“ Þetta skrifar Tara Margrét í langri og efnismikilli grein á Facebook í gær en þar svarar hún leiðara fréttablaðsins á föstudaginn eftir Kristínu Þorsteinsdóttur, ritstjóra blaðsins, undir heitinu „Eigin ábyrgð.“

Í leiðaranum gagnrýnir Kristín Íslendinga fyrir matarvenjur sínar, segir að þjóðin verði sífellt feitari og brátt komi að skuldadögunum. Tara telur sig hins vegar greina mótsagnir í grein Kristínar, ekki síst í upphafinu, þar sem segir í leiðaranum:

„Offita er ekki vandamál ein og sér heldur miklu frekar lífsstílssjúkdómarnir sem henni fylgja. Þetta var inntakið í viðtali við Guðmund Jóhannsson lækni sem birt var hér í blaðinu fyrir nokkrum mánuðum. Guðmundur benti á að fylgikvillar offitunnar væru sykursýki, æða- og hjartasjúkdómar.

Miðað við þá staðreynd að Íslendingar eru meðal feitustu þjóða í Evrópu er viðbúið að senn komi að skuldadögum. Uppgjörið snertir ekki einungis þá sem glíma við sjúkdómana og aðstandendur þeirra, heldur hvert einasta mannsbarn í landinu sem stendur undir heilbrigðis- og velferðarkerfinu gegnum sínar skattgreiðslur.

Um þetta upphaf skrifar Tara í grein sinni:
„Það er dálítið sérstakt að leiðarinn byrjar á orðum Guðmunds Jóhannssonar læknis; “Offita er ekki vandamál ein og sér heldur miklu frekar lífsstílssjúkdómarnir sem henni fylgja” en að í næstu andrá segi Kristín: “Miðað við þá staðreynd að Íslendingar eru meðal feitustu þjóða í Evrópu er viðbúið að senn komi að skuldadögum.” Síðan er aftur haft eftir Guðmundi sem segir að forvarnirnar væru brýnastar – þar spili mataræðið langstærsta rullu og svo hreyfingin. Hér er ekki talað um holdafar. Þannig að af hverju er Kristín að einblína á meint einkenni (holdafar) frekar en rót vandans? Jú, vegna þess að það er eitthvað áþreifanlegt, eitthvað sem á að renna stoðum undir það hvað Íslendingar standa illa þegar kemur að heilsuvenjum. Nema að það kemur ekki heim og saman og það á ekki að vera erfitt fyrir reynda fjölmiðlakonu að fact-checka það sem hún er að segja.“

Kristín Þorsteinsdóttir
Kristín Þorsteinsdóttir

Mynd: Vilhelm Gunnarsson

Kristín segir enn fremur í sinni grein að það sé dýrt að borða hollan mat og fátækt fólk leiti fremur í skyndibita:
„Þekkt er erlendis að fátækt fólk sækir í ríkari mæli á skyndibitastaði á borð við McDonalds eða KFC. Það er ódýrasti kosturinn. Afleiðingin er að tekjulægsta fólkið glímir frekar við offitu og fylgikvilla hennar.“

Tara bendir hins vegar á að þetta kunni ekki að eiga við Íslendinga:
„Hér á Íslandi virðumst við þó líta á óhollustu sem ákveðinn munað ef marka má nýjustu könnun um mataræði en þar kemur fram að þriðjungur þátttakenda taldi efnahagsbreytingar í kjölfar bankahruns hafa haft áhrif á fæðuval sitt. Algengustu breytingarnar voru minni neysla á skyndibitum, sælgæti og gosdrykkjum.“

Tara gerir líka athugsemdir við þann málflutning Kristínar að fylgikvillar offitu séu sykursýki, æða- og hjartasjúkdómar:
„Kristín segir Guðmund benda á að fylgikvillar offitu sé sykursýki og æða- og hjartasjúkdómar. Hér er aftur verið að mistúlka/nota tölfræðilega fylgni eins og ég hef oft talað um áður. Ekki hefur fundist orsakasamband milli holdafars og þessara sjúkdóma heldur fylgni. Fylgni segir einungis til um að tveir (eða fleiri) þættir gerast á sama tíma en ekki af hverju. Að ætla að kenna offitu um æða- og hjartasjúkdóma stenst því ekki nánari skoðun, sérstaklega þegar í ljós kemur að fjöldi Íslendinga, 25 ára og eldri, sem deyja úr kransæðasjúkdómum hefur lækkað úr 498 manns á hverja 100.000 Íslendinga, þegar dánartíðnin stóð sem hæst árin 1981–1985, niður í 371 á ári hverja 100.000 Íslendinga á árunum 2001–2005. Dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma hefur þannig lækkað gríðarlega á sama tíma og yfirþyngd og offita hefur aukist. Nýjum tilfellum kransæðastíflu hefur enn fremur fækkað meðal karla um 57% og um 59% meðal kvenna á aldrinum 25–74 ára á árunum 1980 til 2005.“

Tara viðurkennir hins vegar að fylgni milli aukins holdafars og sykursýki 2 sé sterk en fylgni sé ekki hið sama og orsakasamband.

Tara segir að rangt sé að einblína á holdafar þegar talað er fyrir hollari lífsvenjum og segir slíkan áróður geta haft öfug áhrif:
„Fitufordómar eru lýðheilsuvandamál sem þarf að tækla sem slíkt. Í raun er það svo að skekkja og fordómar gagnvart fólki á grundvelli holdafars er vel þekkt hindrun í átt að bættri lýðheilsu. Rannsóknir meðal samfélagshópa sem hafa orðið fyrir mismunun sýna auknar líkur á ýmsum heilsufarskvillum, svo sem háþrýstingi, langvinnum verkjum, kviðfitu, efnaskiptavillu, æðakölkun og brjóstakrabbameini, jafnvel þegar tekið hefur verið tillit til annarra áhrifaþátta. Rannsóknir sýna ennfremur að reynsla af fitufordómum eykur líkur á þunglyndi, neikvæðu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, ofátsvanda og minni þátttöku í hreyfingu. Þessar niðurstöður haldast þrátt fyrir að tekið sé fyrir áhrif þátta á borð við kyn, aldur og líkamsþyngdarstuðul.“

Sem fyrr segir er grein Töru um þetta efni nokkuð ítarleg og er hún studd margvíslegum heimildum. Greinina í heild má lesa hér.

Leiðara Kristínar Þorsteinsdóttur má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vignir Ljósálfur: „Fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja“

Vignir Ljósálfur: „Fann ekki fyrir neinni hræðslu og var alveg tilbúinn að kveðja“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristjana Arnars slær í gegn á íþróttadeild RÚV: „Fannst ég ekki eiga erindi inn í þennan karlaheim“

Kristjana Arnars slær í gegn á íþróttadeild RÚV: „Fannst ég ekki eiga erindi inn í þennan karlaheim“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“

Stíga þrjár fram og saka lögreglumann um kynferðisofbeldi: „Við erum sterkari saman“
Fyrir 2 dögum

Leiðinlegt fyrir Pólverja

Leiðinlegt fyrir Pólverja