Átök á tjaldstæðinu á Flúðum: Lögreglan lagði ekki í hóp dópaðra ungmenna vegna manneklu

Frá Flúðum. Myndin tengist fréttinni ekki.
Frá Flúðum. Myndin tengist fréttinni ekki.

Gríðarleg ólæti voru á hluta af tjaldstæðinu á Flúðum í nótt og morgun. Að sögn sjónvarvotts brutust út slagsmál á meðal um 20 ungmenna um eða undir tvítugu eftir mikil ólæti alla nóttina. Flest ungmennanna sem í hlut áttu voru undir áhrifum fíkniefna. Einhverjir af hópnum voru vopnaðir hnífum en að sögn heimildarmanns DV var hnífum þó ekki beitt í átökunum.

Lögregla kom á staðinn um sjöleytið í morgun en ákvað að aðhafast ekki vegna manneklu. „Ég skil vel að þeir hafi ekki lagt í hópinn en maður veltir því fyrir sér hvort öll löggæslan sé í Vestmannaeyjum núna um helgina,“ segir heimildarmaður DV sem tjaldaði nálægt ungmennunum og varð eðlilega ekki svefnsamt í nótt.

„Fólk hér er mjög óánægt með að borga 5.000 krónur fyrir að tjalda hér og síðan er engin gæsla á staðnum,“ sagði maðurinn við DV.

Fjölskylduhátíðin Flúðir um Versló er haldin núna um helgina. Dansleikur var í Félagsheimilinu á Flúðum í gærkvöld og mjög margir voru á tjaldsstæðinu.

Heimildir herma enn fremur að sjúkrabíll hafi sótt stúlku seint í gærkvöld sem hópur ungmenna hafði ráðist og flutt á sjúkrahús á Selfossi. Ekki er vitað um líðan hennar.

Á Facebook-síðunni Flúðir um Versló 2017 segir meðal annars:

„Skipuleggjendur hafa verið í góðu samstarfi við lögregluna og er það sannarlega gleðilegt að Lögreglan verður með hund á svæðinu alla helgina við fíkniefnaeftirlit.

ÞAÐ VERÐUR TEKIÐ HART Á OFBELDIS OG FÍKNIEFAMÁLUM SEM KUNNA AÐ KOMA UPP. GÆSLA OG LÖGGÆSLA VERÐUR ÖFLUG.“

DV hafði samband við skrifstofu tjaldstæðisins og svaraði erlendur starfsmaður. Vildi hann ekkert tjá sig um atburði næturinnar og vísaði á eiganda tjaldstæðisins. Sá hefur ekki svarað ítrekuðum símhringingum DV.

Fulltrúi Lögreglunnar á Suðurlandi telur að frásögn sjónarvotts sé eitthvað orðum aukin. Hann sagði við DV:

„Við heyrðum af átökum í morgun sem voru yfirstaðin þegar við komum á staðinn. Nóttin var tiltölulega erilsöm en enginn fluttur í fangageymslur eftir nóttina og morguninn frá Flúðum. Þannig að þessi saga er eitthvað orðum aukin.“

Tekið skal fram að DV hefur ástæðu til að ætla að frásögn heimildarmanns DV af atburðum á Flúðum í nótt og morgun sé mjög áreiðanleg.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.