Sveinn Gestur bregst við frétt Stöðvar 2

„Í kjölfari af fréttaumfjöllun í gær vill umbjóðandi minn Sveinn Gestur Tryggvason koma því á framfæri að hann hefur allt frá upphafi neitað sök í málinu. Umbjóðandi minn ásamt öðrum sakborningum komu að heimili hins látna til að sækja garðverkfæri sem umbjóðandi minn átti.“

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Þorgils Þorgilsson lögmaður Sveins Gests Tryggvasonar hefur sent á DV. Gerir Sveinn Gestur athugasemdir við frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi. Þar sagði m.a. orðrétt:

„Æsingsóráðsheilkenni er talið vera það sem dró Arnar Jónsson Aspar til dauða þegar hópur manna veittist að honum við heimili hans í Mosfellsdal í júní, samkvæmt krufningarskýrslu réttarmeinafræðings. Rannsókn lögreglu vegna málsins er lokið og mun héraðssaksóknari í framhaldinu ákveða hvort grunaður aðili í málinu verði sóttur til saka.“

Lesa má frekar um æsingsóráðsheilkenni í frétt á Vísi. Sveinn Gestur virðist ósáttur við að haldið sé fram í frétt Stöðvar 2 að veist hafi verið að Arnari en Sveinn er þó sérstaklega ósáttur með umfjöllun fjölmiðla um málið frá upphafi og eitt og annað rangt í umfjöllun fjölmiðla. DV greindi frá því þann 25. Júlí síðastliðinn að Sveinn hefði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 18. ágúst en hann liggur undir grun um að hafa ráðið Arnari bana að Æsustöðum í júní í Mosfellsdal. Arnar var fæddur árið 1978 og lét meðal annars eftir sig tvær dætur. Í dómi Hæstaréttar sagði að mætti rekja andlátið til nokkurra samverkandi þátta.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þvinguð frambeygð staða sem brotaþola hafi verið haldið í, með hendur fyrir aftan bak, meðan kærði hafi þrýst með líkama sínum á brjósthol brotaþola og hálstakið sem kærði hafi haldið brotaþola í, samkvæmt framburði vitna, sé talið hafa leitt til mikillar minnkunar á öndunargetu sem að lokum hafi leitt til köfnunar brotaþola.“

Þá hefur RÚV greint frá því að upptökur af samfélagsmiðlinum Snapchat hafi verið notuð sem sönnunargögn. Í frétt RÚV fyrir tveimur dögum sagði orðrétt:

„Sveinn Gestur Tryggvason, situr í gæsluvarðhaldi. Hann er grunaður um að hafa slegið Arnar ítrekað í andlitið og haldið honum í hálstaki í margar mínútur þar til hann missti meðvitund og lést. „Að mati lögreglustjóra sé um að ræða tilefnislausa og fólskulega líkamsárás sem leitt hafi til dauða brotaþola,“ sagði í greinargerð lögreglunnar.“

Sveinn Gestur hefur neitað að hafa ráðist á Arnar og hann hafi verið að sækja verkfæri. Því heldur hann einnig fram í þeirri yfirlýsingu sem send var á DV í dag.

„Allir sakborningar voru að vinna hjá sömu garðaþjónustunni en hinn látni hafði áður verið að vinna með þeim og hafði boðist til að geyma verkfæri yfir vetrartíð. Þetta hefur verið staðfest í rannsókn lögreglu.

Á engum tímapunkti veittist hvorki umbjóðandi minn né aðrir sakborningar að hinum látna, en við komu þeirra brást hinn látni ókvæða við og réðist gegn hópnum. Sakborningar í málinu flúðu á bifreiðum sínum eftir að hinn látni hafði valdið töluverðum skemmdum á bifreiðum þeirra. Þegar sakborningar voru komnir neðar í götuna hringdi umbjóðandi minn á lögreglu og óskaði eftir aðstoð.“

Þá segir einnig í yfirlýsingu Sveins Gests:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Á þeirri stundu kom hinn látni hlaupandi með girðingarstaur úr járni og gerði sig líklegan til að ráðast aftur á sakborninga. Einn sakborninga tók á móti honum og náði að afvopna hann. Umbjóðandi minn tók hinn látna þá í tök, og hélt honum þar sem hinn látni lá á maganum með hendur fyrir aftan bak og var ætlunin að bíða eftir lögreglu. Þegar umbjóðandi minn varð þess var að hann væri látinn hringdi hann strax á neyðarlínu og hóf endurlífgun.

Umbjóðandi minn neitar því alfarið að hafa slegið til hans né að hafa tekið hann hálstaki. Hann vill ítreka að aldrei var veist að hinum látna, heldur var umbjóðandi minn ásamt öðrum sakborningum í málinu að verjast árás frá hinum látna, þar sem hann var í sturlunarástandi og undir miklum áhrifum fíkniefna líkt og fram hefur komið við rannsókn lögreglu.“

Málið er í heild sinni mjög sorglegt og er umbjóðandi minn þess fullviss að niðurstaða hjá ákæruvaldi og eftir atvikum dómstóla mun leiða í ljós sannleikann sem er ekki í neinum takti við þá umfjöllun sem málið hefur áður fengið. Vonar umbjóðandi minn að fólk bíði með að fella dóma í máli þessu þar til málið hefur fengið eðlilega málsmeðferð hjá ákæruvaldi og eftir atvikum dómstólum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.