Gústaf kemur Robert Downey til varnar: „...fórnarlömbin hafi spilað á veikleika Róberts og gert hann sér að féþúfu“

Gústaf gagnrýndur – Mælti enginn með Róbert? Gústaf segir málið hugsanlega snúast um peninga

Gústaf Níelsson kveðst hafa brugðið verulega þegar hann las dóm Hæstaréttar þar sem greint er frá að Róbert Árni Hreiðarsson, eða Robert Downey líkt og hann kallar sig nú, var dæmdur fyrir alvarleg kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum sem stóðu yfir í lengri tíma. Róbert fékk síðan uppreist æru eins og alþjóð ætti að vera kunnugt um og má því starfa sem lögmaður á ný. Gústaf segir að draga megi þá ályktun að fórnarlömbin í málinu, líkt og hann kallar stúlkurnar fjórar, þolendurnir hafi spilað á veikleika Róberts til að hafa af honum peninga. Ummæli þessi, sem eru lengri og eru birt í heild sinni neðar í fréttinni, lét Gústaf falla á Facebook við litla hrifningu.

Hefurðu lagt það á þig, Guðmundur, að lesa dóminn? Mér dauðbrá. Af honum má draga þá ályktun að fórnarlömbin hafi spilað á veikleika Róberts og gert hann sér að féþúfu.

Gústaf Níelsson er landsþekktur. Hann er sagnfræðingur að mennt og hefur lengi verið viðloðandi stjórnmál. Hann var í ungum Sjálfstæðismönnum, sat í nokkra klukkutíma sem varamaður í mannréttindaráði Reykjavíkur, skipaður af Framsókn og flugvallarvinum en hætti við að þiggja það sæti vegna mótmæla. Gústaf ætlaði einnig að leiða lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavík en dró svo framboð sitt til baka. Þá er Gústaf þekktur fyrir að vera bróðir Brynjars Níelssonar lögmanns og alþingismanns. Brynjar hefur einnig tjáð sig um uppreist æru Róberts Árna og sagði á Facebook þegar mótmælin stóðu sem hæst að gefa yrði fólki tækifæri á að bæta sig. Þá fann hann að orðum forseta sem var mikið niðri eftir að málið komst í hámæli:

„Ég hefði ekki notað orðin að loka menn bara inni og henda lyklinum. Ég held að þetta sé ekki góð setning. Við eigum ekki að láta stjórnast svona af reiðinni ...“

Gústaf hefur eins og áður segir verið nokkuð áberandi í íslenskri umræðu. Fastagestur á síðum dagblaða og þá mætir hann reglulega í útvarpsviðtöl, langoftast á Útvarpi Sögu. Þar var hann t.d. gestur 26. júní, 18. maí, 19. apríl, 5, apríl og 8. mars. Þá mætti hann í þátt Harmageddon bræðra 30. maí og 27. mars.

Þann 13. júlí síðastliðinn var Gústaf gestur síðast á Sögu og var þá kynntur til leiks:

„Við höfum fengið til okkar góðan gest, sem er Íslendingum öllum að góðu kunnur, Gústaf Níelsson áhugamaður um stjórnmál og samfélagið.“

Gústaf er eins og bróðir sinn óhræddur við að láta umdeild ummæli falla. Á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins var hann til að mynda púaður niður. Um það sagði hann í samtali við Vísi:

„Ég fer í púltið og segi: Hér sé ég engan mann með túrban, hér sé ég engan blökkumann, hér sé ég enga konu með blæju. Um hvaða fjölmenningu eruð þið eiginlega að tala hér?“ Þá var það umsvifalaust notað að ég væri að tala illa um blökkumenn. En, ég var nú bara að lýsa því sem ég sá.“

Umdeild ummæli falla

Gústaf ákvað að svara
Guðmundur varpaði fram spurningu Gústaf ákvað að svara
Mynd: MYND Kristinn Magnússon

Guðmund S. Brynjólfsson rithöfundur deildi á Facebook grein af Stundinni þar sem sagði að brotaþolar væru orðnir ringlaðir þegar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra greindi frá því á Facebook að hann hefði ekki átt aðkomu að Robert fékk uppreist æru. Bergur Þór Ingólfsson faðir Nínu Rúnar eins þolenda í málinu sagði alla vera í lausu lofti. Fjölskyldan hefur allt frá því að málið kom upp óskað eftir að fá að vita hvaða tveir valinkunnu einstaklingar kvittuðu upp á uppreist æru. Guðmundur S. Brynjólfsson merkti Berg í færslunni og sagði:

„Ég hef haldið því fram áður, og held því fram aftur að engir menn - og þá alls ekki valinkunnir - hafi vottað sálræna- vitræna- og siðlega betrun Roberts Downey. Ég hef haldið því fram að allt sé það lygi innan úr rammgerðu tröllakerfinu. Ég mun halda því fram þangað til annað kemur í ljós. Kemur í það ljós sem svo auðvelt er að bregða þessum pappírum undir.“

Þá mætti Gústaf Níelsson til leiks og spurði:

Þær stigu fram sama dag og fjölmiðlar greindu frá uppreist æru Árna
Nína til vinstri og Glódís Þær stigu fram sama dag og fjölmiðlar greindu frá uppreist æru Árna

„Hefurðu lagt það á þig, Guðmundur, að lesa dóminn? Mér dauðbrá. Af honum má draga þá ályktun að fórnarlömbin hafi spilað á veikleika Róberts og gert hann sér að féþúfu. Ég ætla ekki að hirða um að velta mér upp úr heimilis- og uppeldisaðstæðum þessara stúlkna. Þetta er komið nóg.“

Tveir einstaklingar kunnu að meta þessi skrif Gústafs, Víðir M. Pétursson og Jóhann Geir Guðjónsson. Sigurlaug Brynjólfsdóttir spurði þá: „Þú ert sem sagt einn af þeim sem sérð börnin fyrir þér, táldraga barnníðingana?“

Gústaf svaraði með því að benda henni á að lesa dóminn.

Guðmundur Brynjólfsson átti svo síðasta orðið þegar hann beindi orðum sínum til Gústafs:

„Ég hef örugglega lesið þennan dóm oftar en þú - og þarf engar leiðbeiningar frá þér hvernig beri að lesa hann eða túlka. Og hef þar að auki - mun meiri þjálfun í því að greina texta en þú þannig að ég frábið mér leiðbeiningar frá þér í þessum efnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.