Kínverskar konur gerðu stykki sín á stéttina

Rúna Björg Magnúsdóttir hjá gistiheimilinu Langaholti á Snæfellsnesi varð afar undrandi þegar tvær kínverskar konur gerðu sér lítið fyrir og höfðu hægðir á stéttinni fyrir framan gistiheimilið. Rúta með kínverskum ferðamönnum gerði salernisstans á staðnum en í stað þess að fara inn á salernið á gistiheimilinu gengu konurnar til verka á stéttinni.

Á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá hvar önnur konan skýlir hinni með bleikri ábreiðu á meðan hún hefur hægðir.

„Hér er alltaf opið salerni og kostar ekkert að nota það þó að sumir kaupi sér kaffibolla í þakklætisskyni,“ segir Rúna Björg í stuttu viðtali við DV en hún segist aldrei hafa lent í slíku áður.

„Við erum búin að fá innilegt afsökunarbréf frá ferðaþjónustufyrirtækinu og málinu er lokið af okkar hálfu. Konunum var afhentur plastpoki og þær látnar þrífa upp eftir sig ósköpin,“ segir Rúna Björg.
Hún segir að prýðilega hafa gengið með rekstur gistiheimilisins í sumar og veðrið hafi leikið við þau undanfarnar vikur. Uppákoman í dag hafi verið einsdæmi hvað þau snertir og þau vilji ekki gera of mikið úr málinu, en óneitanlega hafi þetta verið sérstök upplifun.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.