fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Björn gagnrýnir Katrínu harðlega: Vill hún efnahagskerfið í Venezúela?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 20. ágúst 2017 14:09

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir harðlega ræðu sem Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hélt á flokksráðsþingi flokksins í Borgarnesi í gærmorgun. Björn gerir annars vegar að umtalsefni málflutning um kostnað við móttöku flóttamanna og hins vegar orð Katrínar um ríkjandi efnahagskerfi.

Björn skrifar:

Talið er að kostnaður vegna komu hælisleitenda og þróunar útlendingamála geti orðið allt að sex milljörðum króna í ár og helmingur þess fjár sé umfram fjárlög enda hefur málaflokkurinn farið úr böndunum.

Að sögn vefsíðunnar Kjarnans hneykslaðist Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, á því í setningarræðu á flokksráðsfundi VG laugardaginn 19. ágúst að sumir stjórnmálamenn kysu að gera mikið úr kostnaði við að taka á móti hælisleitendum og flóttamönnum í stað þess að ræða um ójöfnuðinn í samfélaginu þar sem ríkustu tíu prósentin eigi þrjá fjórðu alls auðs og ríkasta eina prósentið eigi um fjórðung.

Hvernig á að skilja þessi orð? Að það dragi úr ójöfnuði í samfélaginu að taka á móti fleiri hælisleitendum frá öruggum löndum og hafa þá sem lengst á framfæri skattgreiðenda?

Ábyrgðarlaust tal stjórnmálamanna á þennan veg er meðal annars ástæða fyrir fjölgun hælisleitenda sem aldrei fá hælisumsókn samþykkta hér vegna stöðunnar í heimalandi þeirra. Fjölgun hælisleitenda hér verður ekki til að minnka ójöfnuð í samfélaginu.

Líklegt að aðstreymi fólks frá öruggum löndum hingað sé að undirlagi einhverra sem hagnast á ferðum fólksins og fá jafnvel hlutdeild í félagslegri fjárhagsaðstoð þeirra hér eða „svörtum“ launatekjum. Að telja undanlátssemi gagnvart þessum hópum stuðla að jöfnuði hér á landi er eins og hver önnur bábilja.

Björn tekur síðan fyrir gagnrýni Katrínar á efnahagskerfi heimsins og vaxandi ójöfnuð. Katrín Jakobsdóttir sagði í ræðu sinni að aukin misskipting stafaði af því efnahagskerfi sem við búum við og þeim stjórnamálaöflum sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi. Um þetta skrifar Björn:

Hvað felst í þessum orðum? Hvaða efnahagskerfi vill flokksformaðurinn? Kerfið í Venezúela? Þar er skýrasta dæmið um örlög þjóðar sem lýtur stjórn manna sem risu gegn „því efnahagskerfi og þeim pólitísku stefnum sem hafa verið ráðandi undanfarna áratugi“.

Í Venezúela hefur Sameinaði sósíalistaflokkurinn (Sameiningarflokkur alþýðu, sósíalistaflokkurinn?) verið við völd í 18 ár með hörmulegum afleiðingum. Flokkurinn komst til valda með þau orð á vörunum að hann mundi vinna gegn misskiptingu og ójöfnuði.

Nú hefur Nicolãs Maduro, einræðisherra Venezúela, svipt þjóðþing landsins völdum í krafti þess að komið hafi verið á fót stjórnlagaþingi. Minnast má þess að meðal fyrstu verka ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms J. eftir að Norðmaður hafði verið gerður að seðlabankastjóra var að reyna að koma hér á fót stjórnlagaþingi til að svipta alþingi völdum. Steingrímur J. notaði bankahrunið sem skálkaskjól til að innleiða sósíalískt skattakerfi. Festa átti þjóðina í skuldafjötra með ICESAVE-samkomulaginu og framselja fullveldið með aðild að ESB.

Aðförin gegn alþingi misheppnaðist. Már Guðmundsson tók við af Norðmanninum í seðlabankanum og situr enn og ekki hefur verið gert róttækt uppgjör á skattaæði Steingríms J. Samt kvartar Katrín Jakobsdóttir yfir misskiptingunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“